Pælingar um pælingar



Undanfarið hefur Aðalsteinn Már Þorsteinsson sett fram alls konar pælingar á fréttasíðunni 641.is. Þetta eru skemmtilegar pælingar og gaman að lesa og sjá hvað sveitungar mínir eru að spá og spekúlera. Finnst mér fólk gera of lítið af því hér í sveitarfélaginu að taka þátt í opnum umræðum.
Síðasti pistill Aðalsteins hefur setið í mér og kemur tvennt til: 

Annars vegar lýsir hann reynslu okkar aðkomufólks á mjög lýsandi en reiðilausan og kurteisan hátt. Þetta þykir mér aðdáunarvert jafnaðargeð í erfiðum aðstæðum.

 Hins vegar veit ég ekki hvað mér þykir um seinni hlutann.
Ég hef alltaf gert mér grein fyrir því að einn daginn hætti ég að skilja heiminn. Fyrir um sex árum síðan hélt ég að sá dagur væri upprunninn, heldur snemma þó. Þá sat jakkafataklæddur maður í sjónvarpssal og útskýrði fyrir þjóðinni að tímarnir væru breyttir, fólk gæti lifað á því einu að þjónusta hvert annað. Þetta þótti mér óskiljanlegt, ég hef nefnilega alltaf staðið í þeirri meiningu að e.k. frumvinnsla yrði að eiga sér stað. Nokkru síðar kom í ljós að þessi grundvallarlögmál höfðu ekki breyst. Ætla ég því að leyfa mér að halda þessari skoðun.
Laugar Reykjadal

Ég hef einnig staðið í þeirri meiningu að þéttbýli myndist við eða nálægt frumvinnslusvæðum. Sbr. að þorp skapast þar sem auðvelt er að sækja sjóinn. Að þjónustukjarnar myndist þar sem nokkrir bændur stunda búskap, af því að það þarf að þjónusta þá og fjölskyldur þeirra. Ég geri mér engu að síður grein fyrir að annað lögmál getur gilt um borgir sem eru miðstöðvar þjónustu. 

Ég hef alltaf litið á Þingeyjarsveit sem landbúnaðarhérað og vil að landbúnaði sé gert hærra undir höfði en gert er. Það er fullvissa mín að leggist landbúnaður af á þessu svæði þá leggst í framhaldinu öll byggð hér af. Mér getur vissulega skjátlast. En það er engu að síður trúa mín að fækki bændum með meiri ,,hagræðingu“ þá minnkar eftirspurn eftir þjónustu Lauga. Alla vega yfir vetrarmánuðina.

Nú dreg ég ekki í efa að það er mjög gott að hafa þéttbýliskjarna í sveitarfélögum. Hversu nauðsynlegur hann er hins vegar er ég ekki viss um. Þetta þýðir ekki að ég sé að gera lítið úr gildi Lauga þótt ég velti upp annarri hlið. Laugar eru Þingeyjarsveit mjög dýrmætar, perla í menningarflórunni og afar mikilvægur hluti af ferðamannaþjónstu sveitarfélagsins.

Mig grunar að grein Aðalsteins komi til að hluta vegna kapphlaupsins um staðsetningu sameinaðs skóla. Reykdælingar vilja vissulega halda skólanum hjá sér. Er það vel, ekkert þykir mér eðlilegra en að hver og einn haldi fram ágæti síns staðar.

Mér þykir mikilvægi Lauga sem þéttbýliskjarna ekki slíkt að það yfirgnæfi alla aðra möguleika. Ætti Þingeyjarsveit yfirdrifið nóg af peningum þætti mér einboðið að byggja nýtt skólahúsnæði á Laugum. Á meðan svo er ekki þykir mér það óráðsía að nýta ekki frekar þau tvö skólahús góð sem við eigum nú þegar. Sem standa einnig í skilgreindum þéttbýliskjörnum skv. Aðalskipulagi.

Með vinsemd og virðingu,
Ásta Svavarsdóttir
dreifbýlistútta.

Ummæli

  1. Sæl Ásta.
    Gaman að sjá hér "á prenti" viðbrögð við skrifum mínum og gott til þess að vita að pælingar mínar hafi vakið til umhugsunar. Með "umræðu" tekst fólki oft að skilja hvert annað betur. Ef ég les þig rétt þá vilt þú byggja upp Lauga, en eingöngu ef eru til peningar fyrir því. Laugar eiga þá að gegna hlutverki skólaseturs fyrir alla en annars ekki. Ég tel að við þessar hugmyndir þínar (hvora heldur sem er) sé mikil andstæða í sveitarfélaginu.
    Mér finnst þú lesa meira í pælingar mínar en stendur í þeim og virðist gefa þér hvernig ég svari þeim spurningum sem ég set fram. Meginástæða Laugapælinga minna er ekki síður atvinnumál en skólamál enda eru þau fyrrgreindu undirstaða rekstrar og vaxtar sveitarfélagsins.
    Vonandi getur samfélag okkar rætt þessi mál öll af yfirvegun og kurteisi án þess að draga fólk í dilka eftir því hvar það býr. Við verðum að varast sleggjudóma og rakalausar yfirlýsingar þess efnis að einhverjir séu óhæfir til þess að taka þátt í umræðunni af því að þeir séu eingöngu að hugsa um eigin hag en ekki um hagsmuni okkar allra.

    SvaraEyða
  2. Ég vona að athugasemdir mínar feli hvorki í sér sleggjudóma né rakalausar yfirlýsingar.
    Ég er bara að setja fram mínar hugsanir, ég er ekki að marka neina stefnu. Þá tel ég veru sameinaðs skóla á Laugum ekki forsendu þess að þar sé hægt að byggja upp.
    Mér þætti gaman að heyra meira um hugmyndir þínar um atvinnumál.

    SvaraEyða

Skrifa ummæli

Vinsælar færslur af þessu bloggi

Krossinn sem ég ber

Vandamál og lausnir