föstudagur, maí 16, 2014

Ónýtt kosningaloforð?

 Eins og fram hefur komið voru listar hér í Þingeyjarsveit að setja frá sér stefnuskrá í langstærsta og dýrasta máli sveitarfélagsins, skólamálunum.
Loforð Samstöðu um takmarkaða en bindandi íbúakosningu hefur truflað mig verulega:
  
að það eru notendur þjónustunnar, íbúar á skólasvæðinu sem kjósa um tilhögun skólamála á sínu skólasvæði. Þetta gerir það að verkum að aðrir íbúar sveitarfélagsins ráða ekki tilhögun skólamála á skólasvæði sem þeir eru ekki partur af. Þá mun niðurstaða væntanlegrar íbúakosningar gefa skýrari mynd af vilja íbúa á skólasvæði Þingeyjarskóla.

 Ég hafði samband við lögfræðing í dag, sérfræðing á sviði sveitarstjórnarmála og spurði hann út í þetta. Eins og lögfræðinga er siður vill hann ekki útiloka neitt en finnst þetta eigi að síður mjög undarlegt, sérstaklega miðað við  107. gr. sveitarstjórnalaga um íbúakosningu en hún er svohljóðandi:


107. gr. Íbúakosningar.
Sveitarstjórn ákveður hvort fram skuli fara almenn atkvæðagreiðsla meðal íbúa sveitarfélagsins um einstök málefni þess, sbr. þó 108. gr.
Til atkvæðagreiðslu skv. 1. mgr. skal boða með a.m.k. fjögurra vikna fyrirvara með opinberri auglýsingu. Samhliða skal sveitarstjórn opinberlega kynna þá tillögu sem borin verður undir atkvæði og þær upplýsingar sem kjósendum eru nauðsynlegar til að geta tekið til hennar upplýsta afstöðu.
Rétt til þátttöku í atkvæðagreiðslu skv. 1. mgr. eiga þeir sem kosningarrétt eiga í sveitarfélaginu samkvæmt lögum um kosningar til sveitarstjórna. Sveitarstjórn skal gera kjörskrá fyrir atkvæðagreiðsluna. Um gerð hennar og auglýsingu gilda ákvæði 4.–7. gr. og 9.–11. gr. laga um kosningar til sveitarstjórna.
Atkvæðagreiðsla skal vera leynileg og atkvæðisréttur jafn.
Atkvæðagreiðsla samkvæmt þessari grein, sem og 108. gr., er ráðgefandi nema sveitarstjórn ákveði að hún skuli binda hendur hennar til loka kjörtímabils. Í auglýsingu skv. 2. mgr. skal koma fram hvort atkvæðagreiðsla er bindandi. Slíka ákvörðun má binda skilyrði um að tiltekið hlutfall þeirra sem voru á kjörskrá hafi tekið þátt í atkvæðagreiðslu.
Við framkvæmd atkvæðagreiðslu samkvæmt þessari grein skal að öðru leyti farið eftir meginreglum laga um kosningar til sveitarstjórna eftir því sem við getur átt.




Það er alveg ljóst að ,,íbúakosning" í hluta sveitarfélags er ekki íbúakosning. Hins er auðvitað hægt að hafa skoðanakönnun og íbúafundi en ég er ekki viss um að hægt sé að ,,binda" niðurstöðu slíks eins og hér lofað. Og vinsamlegast nefnið hlutina réttum nöfnum. Ekki tala um bindandi  íbúakosningu þegar um ráðgefandi  skoðanakönnun er að ræða.


Það er alla vega alveg ljóst að þetta loforð stenst ekki skoðun og ég efast stórlega um að það standist lög.


Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Færsla Lögreglunnar á Norðurlandi eystra

Það mun mér hæfara fólk fjalla um þessa færslu Lögreglunnar á Norðurlandi eystra en það eru nokkrir hlutir í þessu sem mig sem almennur áhor...