föstudagur, október 24, 2014

Sameining framhaldsskóla

Það hefur sýnt sig með afgerandi hætti að núverandi ríkisstjórn vill skera niður og spara í menntunarmálum eins og frekast er unnt. Það er einnig sorglega augljóst að menntamálaráðherra er sérstaklega illa við litlu framhaldsskólana á landsbyggðinni. Skýtur þetta reyndar mjög skökku við miðað við yfirlýsta landsbyggðaást ríkisstjórnarinnar. En eflaust bætir flutningur Fiskistofu upp niðurskurð og lokanir nokkurra landsbyggðaframhaldsskóla með tilheyrandi brottflutningi menntaðs fólks.
Ein af hugmyndunum sem hafa iðulega komið upp á yfirborðið er að sameina Framhaldsskólann á Húsavík og Framhaldsskólann á Laugum. Vissulega eru báðir framhaldsskólar en þeir eru gjörólíkir að öðru leyti. Framhaldsskólinn á Laugum hefur tekið upp breyttar kennsluaðferðir eða svokallað vinnustofufyrirkomulag sem hefur reynst vel. Framhaldsskólinn á Húsavík er hins vegar hefðbundnari bóknámsskóli. Nemendur eru alveg jafn mismunandi á landsbyggðinni og í borginni og finnst mér í alla staði eðlilegt að þeir eigi val eins og aðrir. Vinnustofufyrirkomulag hentar sumum og hefðbundið bóknám öðrum.
Verði skólarnir sameinaðir þá er auðvitað ekki vitað hvernig að því verður staðið; verða skólarnir sameinaðir á öðrum staðnum? Ef svo er þá vil ég benda á að það er hálftímaakstur á milli staða og veðurfar og færð er talsvert öðruvísi hér á Norðurlandi en í Reykjavík. Ég veit það, ég hef búið á báðum stöðum.
Þá er sá möguleiki til staðar að skólarnir verði færðir undir eina yfirstjórn og starfræktar tvær starfsstöðvar. Reynslan hefur sýnt að slíkt fyrirkomulag hefur ekki reynst vel.
Þá langar mig að benda menntamálaráðherra á að standi vilji til að sameina framhaldsskóla þá finnst mér mun eðlilegra að sameina Menntaskólann í Reykjavík og Kvennaskólann sem standa við sömu götu þótt hún heiti tveimur nöfnum.

Verði þessir skólar sameinaðir þá standa líkur til þess að þeir verði sameinaðir undir Laugaskóla. Núna eru fleiri nemendur í þeim skóla og skólameistari skólans situr nú á þingi fyrir Sjálfstæðisflokkinn. Fyndist mér í raun óeðlilegt ef hún héldi ekki merki síns skóla á lofti.

Það er hér sem ég fer að hafa verulegar áhyggjur. Það hefur nefnilega komið til tals að setja framhaldsskólana á könnu sveitarfélaganna. Eða eins og Ingvar Sigurgeirsson, okkar helsti menntamálafrömuður, segir í úttekt unninni fyrir Þingeyjarsveit nýverið:
Líkur eru á því að í framtíðinni taki sveitarfélög yfir rekstur framhaldsskóla...
Verði Framhaldsskólinn á Húsavík sameinaður Framhaldsskólanum á Laugum undir forsvari Laugaskólans þá fer sameinaður skóli undir Þingeyjarsveit.
Af því tilefni hef ég aðeins eitt við Norðurþing að segja:

Engin ummæli:

Skrifa ummæli