Hraunið

Ég horfði auðvitað á Hraunið þótt ekki væri nema til að vera samræðuhæf. Það er ákveðið skylduáhorf á íslenskar bíómyndir og þætti. En ég ber alltaf ákveðinn kvíðboga fyrir því enda var Hrafn Gunnlaugsson okkar helsti leikstjóri þegar ég var að komast til vits og ára.

 Ég horfði á fyrsta þáttinn í endursýningu og vissi að leikurinn væri ekki upp á marga fiska svo ég lokaði bara augunum fyrir því. En sumt var mjög illa leikið, krakkar, í alvöru.
Þá höfðu aðalleikari og leikstjóri mætt í viðtal og lofað plottið alveg í hástert. Nei, það var ekki gott. Plott sem byggir á því að aðallöggan liggi á hleri og verði óvænt vitni að einhverju er ekki gott plott. Þetta gerðist alla vega tvisvar ef ekki þrisvar, ég var ekki alveg að telja. Hann fann m.a.s. hundhræið þegar hann fór út að skokka.
Helgi er ósköp klisjukenndur karakter, náskyldur skandinavískum reyfarlöggum með persónulegu vandamálin sín. Geisp...
Þá fór þátturinn í gær alveg ósegjanlega í taugarnar á mér.  Ég veit að slúbbertar og slordónar hóta lögreglumönnum og fjölskyldum þeirra öllu illu og er auðvitað ekkert annað en andsk.. aumingjaskapur. En ef barni lögreglumanns er rænt á Íslandi þá ætla ég rétt að vona að hann fari ekki í svona amerískt sóló. Persónulega finnst mér ekkert annað en allsherjar útkall koma til greina og tekið á málinu af fullri hörku. Annars eru glæpamennirnir búnir að vinna.

Hins vegar er ég ægilega glöð með Grétu. Ég byrjaði að brosa um leið og hún gekk inn í rammann. Töff,  sjálfsánægð stelpa sem biður ekki afsökunar á tilveru sinni. Hörkunagli.
Takk fyrir þennan karakter, takk, takk, takk.




Ummæli

Vinsælar færslur af þessu bloggi

Krossinn sem ég ber

Vandamál og lausnir