mánudagur, desember 01, 2014

Öll fallegu orðin

Íbúalýðræði er falleg hugmynd. Sérstaklega í kosningabaráttu. Það er mjög smart að hafa íbúalýðræði í loforðaplagginu sínu.  Það er líka mjög smart að tala um að hafa lýðræði að leiðarljósi í störfum sínum. Hins vegar er svo auðvelt að gleyma fögru fyrirheitunum sínum. Eða túlka þau upp á nýtt. Eða skipta um skoðun...


Samstaða, blessunin, lofaði auknu íbúalýðræði í kosningaplagginu sínu. Íbúalýðræðið var að vísu íbúamismunun sem stóðst ekki lög svo það var breytt í skoðanakönnun sem stenst væntanlega ekki heldur skoðun nenni einhver að leggja sig eftir því.
Reyndar hafa fulltrúar, sveitarstjóri sem á að heita ópólitískur (en á samt umboð sitt algjörlega undir velþóknun meirihlutans) og oddviti skrifað opin bréf til íbúa. Bréfin hafa verið birt á heimasíðu Þingeyjarsveitar og í Hlaupastelpunni en ég hjó eftir því að ritstjóri 641.is en það er mest lesni staðarmiðillinn virðist hafa þurft að taka bréfin upp sjálfur til birtingar. Hlaupastelpan er alveg jafn mikið einkaframtak og 641.is svo þetta kemur mér á óvart.
Þá hafa sveitarstjórnarfulltrúar verið með viðtalstíma og er það vel. (Og borgað aukalega auðvitað líka.) 

Hins vegar eru ákveðnir hlutir.
Fyrir kosningar var sagt um íbúakosninguna:

Sveitarstjórn skal fyrir þessar kosningar kynna íbúum með ítarlegum hætti hvað hvor kostur um sig hefur í för með sér, fjárhagslega, faglega og félagslega sem og hugmyndir um mótvægisaðgerðir við þeirri röskun sem niðurstaða kosninganna gæti haft í för með sér.


Það voru keyptar þrjár skýrslur. Ég las þær og jú, þar er tæpt á félagslegum afleiðingum en ekki ítarlega. Þá get ég nú ekki sagt að fjallað hafi verið um neinar mótvægisaðgerðir. (Eitt af fallegu orðunum.)
Ég mætti ekki á íbúafundinn sem haldinn var í kjölfarið en mér skilst að skýrslurnar þrjár hafi verið aðalumtalsefnið og ekkert mikið umfram þær. Mótvægisaðgerðir eru samt eitthvað sem sveitarstjórnin ætti að hafa á sinni könnu.

Hins vegar hafa íbúar tekið við sér í íbúalýðræðinu og eru sumir farnir að skrifa greinar. Þær eru misgóðar,  ekki allir með á hreinu hver hinn raunverulegi andstæðingur er en þetta er allt að slípast til.
Fyrir helgina gerðist t.d. tvennt sem mér þykir alveg afburðagott:
Íbúar mættu fyrir framan Kjarna og höfðu í frammi friðsamleg mótmæli á meðan á sveitarstjórnarfundi stóð.
Hins vegar skrifaði ritstjóri 641.is vandaðan og yfirvegaðan leiðara á síðuna.
Meirihluti sveitarstjórnar Þingeyjarsveitar hefur hins vegar ekki séð neina ástæðu til að bregðast við þeirri umræðu sem átt hefur sér stað né þeirri óánægju sem kemur fram í henni. (Sum ágætlega æfð samt.)
Kannski hefur það verið gert í viðtalstímum en svona maður á mann samtal er ekki það sama.
Þá þykir mér afar leitt að sjá að enginn fulltrúi hins lýðræðiselskandi meirihluta skuli hafa séð ástæðu til að heilsa upp á fólkið sem var samankomið fyrir framan Kjarna síðastliðinn fimmtudag. Einhverjum verr innréttuðum en mér gæti dottið í hug að fallegu orðin væru gleymd. Alla vega fram að næstu kosningum.


Að endingu legg ég til að tekið verði til í fjármálum Þingeyjarskóla. (Ég trúi hagfræðingnum.)

Engin ummæli:

Skrifa ummæli