laugardagur, janúar 10, 2015

Frelsið er yndislega andstyggilegt

Undanfarna daga hafa átt sér stað skelfilegir atburðir í París. Saklaust fólk hefur verið sallað niður af hryðjuverkamönnum. Ég er miður mín enda er lífið heilagt. París er líka háborg vestrænnar menningar í mínum huga. Það er verið að salla niður saklaust fólk viðs vegar annars staðar í heiminum og ég er búin að gleyma því þegar fréttinni lýkur. Svona er nú tvískinnungurinn í mér.

Talandi um tvískinnung.

Í París voru skopmyndateiknar vegnir sem höfðu gert skopmyndir, sumar ansi svæsnar, af Múhammeð spámanni og múslimum. Öfgamúslimar frömdu ódæðin. Mér þykir þetta gróf aðför að málfrelsinu. Og ég er ekki frá því að birta eigi myndirnar sem víðast.
Sumir vilja meina að klám sé tjáningarfrelsi. Ég er algjörlega ósammála því. Einhvers staðr hljóti að vera takmörk. Ef einhver myndi salla niður klámmyndaframleiðendur þá myndi ég örugglega fordæma voðaverkin en ég myndi ekki líta á það sem aðför að tjáningarfrelsinu.   Og ég myndi aldrei nokkurn tíma styðja að myndirnar þeirra væru birtar sem víðast. Er það tvískinnungur? Ég hreinlega veit það ekki.


Ég er vinstrisinnaður femínisti og kennari. Mér finnst það í lagi. Snorri í Betel var hómófóbískur og kennari. Mér fannst það ekki í lagi. Ég geri þann greinarmun að annars vegar sé um að ræða skoðanir en hins vegar manneskjuna sjálfa. En kannski er enginn munur.
Mér finnst Páll Vilhjálmsson subbupenni á meðan mér þykir Ragnar Þór Pétursson frábær. Mér finnst Ragnar samt ganga of langt þegar hann fer að draga atvinnu Páls inn í gagnrýni á málflutning hans. Kennarar afsala sér ekki skoðana-, mál- og tjáningafrelsi í staðinn fyrir kennsluréttindin.
Annað hvort mega allir tjá sig eða engir. Nei, bíðið, það var þetta með takmörkin...       

Engin ummæli:

Skrifa ummæli