Sérstæð sakamál



Öll eigum við okkar litlu leyndarmál. Mín eru þau að ég hef gaman að teiknimyndasögum allt frá Ástríki upp í Preacher sem mér fannst frábær. Þá hef ég líka það sem enskurinn kallar morbid fascination. Ég man eftir sumarbústaðaferðum með fjölskyldunni þar sem rigningardögum var eytt í að lesa bunkann af blöðum sem hétu Sakamál ef ég man rétt eða Sönn sakamál.  Þegar ég eltist hélst í hendur að Silence of the Lambs varð vinsæl og dr. Guðni Elísson hryllingssérfræðingur hóf kennslu í bókmenntafræðinni. BA ritgerðin mín er um hryllingsbækur og –myndir. Þá las ég og yngri tvibbinn minn bækur um raðmorðingja og fólskuverk þeirra í lange baner. 

Preacher

Þá las ég að sjálfsögðu sérstæð sakamál í öllum blöðum. Les stundum enn. Nú ætla ég ekki að halda því fram að þetta sé merkilegt eða menningarlegt lesefni. Alls ekki. Hins vegar er þetta eitthvað sem ég hef haft gaman að í gegnum tíðina. Helsta aðdráttaraflið er að þetta er satt. Það eru birtar myndir af fólki og það nafngreint. Núna hef ég alveg gaman að góðri fantasíu en allt sem er kynnt með heimildakenndum blæ finnst mér betra að sé byggt á sönnum atburðum þótt ekki sé meira. Eitt sinn sat ég heilluð yfir ævisögulegri bíómynd um tónlistarmann. Þegar ég áttaði mig á því að þetta væri allt skáldskapur þá missti ég algjörlega áhugann.

Ástæðan fyrir þessum skrifum er að fyrir örfáum dögum var umræða á Facebook. Þar var verið að ræða um ásakanir þess efnis að blaðamenn hreinlega skálduðu upp heilu og hálfu fréttirnar. Bent var á viðtal við Eggert Skúlason þar sem hann sagði beinum orðum að hann hefði eitt sinn búið til frétt. Blaðamennirnir sem settu innlegg í umræðuna könnuðust alls ekki við að útbúa fréttir. Hins vegar sagði einn frá því svona í framhjáhlaupi að fyrir mörgum árum þegar hann vann hjá ákveðnu blaði þá:

 „... átti ég til að búa til Sérstæð sakamál - vegna þess að ég var fljótari að því að semja þau en þýða. Svo notaði ég myndir frá Progress Publishers sem ég hafði fengið í rússneska sendiráðinu til að skreyta greinarnar. - Hápunkti náði þessi sakamálagerð þegar ég lét morðingjann og lögreglumanninn heita sama nafninu. Það fannst mér ansi póstmódernískt og flott hjá mér.“ 
Táningstryppinu í hjartanu fannst þetta ekkert sérstaklega flott. Því leið eins og það hefði verið haft að fífli.
Þarna mætti hver karlinn á fætur öðrum, þeir voru í yfirgnæfandi meirihluta, og fullyrtu að þeir hefðu aldrei skáldað upp neinu. Nema einhverju svona ómerkilegu eins og sérstæðum sakamálum og stjörnuspám. Það er sem sagt skáldaleyfi í bransanum. En það er í lagi ef það beinist bara gegn ómerkilegum áhugamálum.
En hvaða alvitri alræðisherra er það sem ákveður hvað eru ómerkileg áhugamál og hvað ekki? Núna er kannski rétt að reyna skilgreina fyrst hvað er frétt? Ég átta mig á að sérstæð sakamál og stjörnuspár flokkast illa undir fréttir.
Kristinn Ingi Jónsson sagði í Morgunblaðinu nýverið:
Svarið við þessari spurningu er fremur einfalt í mínum huga: Það sem fólk vill lesa er frétt.

Nú getum við alveg deilt um þessa skilgreiningu. Margt af því sem er „mest lesið“ hjá vefmiðlum er nú iðulega ekkert sérstaklega menningarlegt eða stórbrotið. Það var skemmtilegt að horfa á þáttinn um BBC á stríðstímum í samhengi við þetta en menningarsinnarnir vildu ekki flytja jazz í útvarpinu. Yfirleitt fer þetta nú samt svo að fólkið fær það sem fólkið vill. Þar liggja líka peningarnir.
Ég skil alveg að það sé erfitt að vera hlutlaus í fréttaflutningi. Ég veit að skoðun þess sem skrifar lúrir alltaf einhvers staðar á bak við. En mikið finnst mér vont að fréttamenn skáldi upp heilu og hálfu fréttirnar til fylla í dálkana. Sérstaklega þar sem þeir nenna nú lítið að fara út fyrir borgríkið sitt og fjalla um það sem þar er að gerast.

Ummæli

Vinsælar færslur af þessu bloggi

Krossinn sem ég ber

Vandamál og lausnir