Bubbi, ég elska þig.

Ég held það hafi verið árið 1982, það var alla vega sama ár og hið stórkostlega félag Læðupúki sléttunnar var stofnað í hitakompunni í Álfheimunum. Gummi kom með gamlan ferðaplötuspilara og nokkara plötur, m.a. A Hard Day's Night með Bítlunum. En það var platan Breyttir tímar með Egó sem heillaði mig. Sú plata kom frá Diddu, nú skáldkonu svo ég neimdroppi aðeins. Litli bróðir hennar var í félaginu og kom með plötur. Plágan með Bubba datt líka inn í hitakompuna. Ég er enn með þessar plötur því Didda gaf okkur þær. Ég vona það alla vega, annars hef ég stolið þeim.
Eftir þetta var ekki aftur snúið, ást mín á Bubba var hrein og tær. Fullkomlega platónsk. Ég hélt því staðfastlega fram árum saman að
það væru textarnir en eflaust hefur tónlistin og Bubbi sjálfur átt þar stóran hlut að máli líka.
Eftir þetta keypti ég allt sem Bubbi gaf út. Fannst allt frábært þótt það væri misfrábært. Sögur Bubba (og Dóra) af landinu ýtti undir landsbyggðarómantík sem hafði þær afleiðingar að nú er ég virðuleg bóndafrú. Sem er kannski nokkuð undarlegt þar sem Bubbi söng um sjávarþorp og verbúðalíf. En það er svona. Ég fór nú samt líka í fisk.
Bubbi náði að snerta einhvern streng í sálinni á mér alveg eins og þjóðinni allri. Hann sló taktinn með samtíðinni og hjartað í mér sló í takt. Hann söng um það sem var að gerast hverju sinni. Hann söng líka um depurðina sem rímaði fullkomlega við unglingaangistina mína. Ég fílaði verkalýðsbaráttuna og töffaraskapinn. Mér fannst það ferlega væmið þegar hann söng um að Það væri gott að elska en verst þótti mér þegar hann fór að mæra Geir Haarde og útrásarvíkinga. Það voru svik við málstaðinn. En ég hélt áfram að fylgjast með. Ég veit alveg hvað Bubbi er að gera. Ég fylgist að vísu ekki með honum á samfélagsmiðlum, ég vil ekki láta manninn Bubba eyðileggja fyrir mér listamanninn Bubba.
En ástæðan fyrir þessum skrifum er að þetta misseri kenni ég ljóð og ljóðaskilning. Ég útbý efnið að nokkru leyti og reyndin er sú að ég dett alltaf í Bubba. Krakkarnir sögðu að það væri allt í lagi, ég mætti alveg kenna Bubba, mér fyndist hann greinilega bestur. Það er rétt, mér finnst hann bestur.
Bubbi, ég elska þig.
 
 


Ummæli

Vinsælar færslur af þessu bloggi

Krossinn sem ég ber

Vandamál og lausnir