Hagsmunaskráning sveitarstjórnarfulltrúa

Í kjölfar mikilla umræðna um hagsmuni kjörinna fulltrúa undanfarið þá eru hin ýmsu sveitarfélög að leggja til að fulltrúar þeirra skrái hagsmuni sína.
Ég efast ekki um að sveitarstjórnarfulltrúar Þingeyjarsveitar bregðist skjótt við og ákveði hagsmunaskráningu.

Ég ætla bara að segja það beint út:
Þegar héraðsmiðillinn 641.is (sem er orðinn ósköp bitlaus nú í seinni tíð)  birti lista yfir gjalda- og tekjuhæstu einstaklingana í Þingeyjarsveit þá varð ég hreint út sagt frekar hissa. Ég varð hissa á því að í þessu gósenlandi ferðaþjónustu og laxveiði séu opinberir starfsmenn með hæstu launin! Hvernig má það vera?
Það eru nokkrir möguleikar:
  • Ferðaþjónustan og laxveiðin gengur bara ekki vel í Þingeyjarsveit.
  • Ferðaþjónustu- og laxveiðibændur eru mjög lélegir bissnessmenn.
  • Það er ekki verið að borga allt það til samfélagsins sem ber.

Ef um skattsvik er að ræða (takið eftir ef-inu) þá gildir, að mínu viti,  alveg það sama um skattsvik innansveitar og um aflandsreikninga: Það er verið að skapa verðmæti í þessu sveitarfélagi vegna þeirra auðlinda sem þetta sveitarfélag hefur til að bera. Að sjálfsögðu á sveitarfélagið að njóta þess í rétt greiddum gjöldum.

Því þykir mér eðlilegt að sveitarstjórnarfulltrúar gangi á undan með góðu fordæmi og skrái sína hagsmuni. Þá sér hinn almenni íbúi líka að það fólk sem höndlar með okkar sameiginlega sjóð borgi það sem því ber í þann sjóð.

Góðar stundir.

Ummæli

Vinsælar færslur af þessu bloggi

Krossinn sem ég ber

Vandamál og lausnir