mánudagur, júlí 04, 2016

Mótvægisaðgerðirnar Part II



Í fyrri pistli mínum nefndi ég að fjórir einstaklingar misstu vinnuna en ég átta mig vissulega á að mótvægisaðgerðir geta aldrei miðað að ákveðnum einstaklingum. Það sem ég vildi sagt hafa er að sveitarstjórnin lagði niður fjögur störf fyrir menntaða einstaklinga. Ég vona að þetta beri ekki með sér menntahroka en ég veit ekki betur en landsbyggðina vanti störf fyrir menntafólk. Það er alla vega ein af þeim röksemdum sem notaðar eru fyrir allsherjarlausnina álver, að í þeim eru m.a. störf fyrir menntafólk.
Í umræðum um vanda landsbyggðar hefur verið talað um að á landsbyggðinni sé einsleitt samfélag. Störf fyrir háskólamenntað fólk hafa flust og beinlínis verið flutt á höfuðborgarsvæðið. Talað hefur verið um „atgervisflótta“ og „spekileka.“

 Í umræðum um Bráðaaðgerðir í byggðamálum á Alþingi þann 23. september 2014 sagði Oddný G. Harðardóttir: „Ein mikilvægasta auðlindin og fjárfestingin er fjárfesting í menntun ungmenna á svæðinu. Það er menntunarstig svæðisins sem eykur hagvöxt. Fyrir því er hægt að færa rök.“ 

Í Stöðugreiningu Byggðastofnunar frá 2014 á Norðurlandi eystra kemur í ljós að: „...hlutur íbúa á Norðurlandi eystra sem hafa lokið háskólaprófi, grunnnámi og framhaldsnámi í háskóla undir landsmeðaltali.“
Því hefði ég haldið að það væri áríðandi að halda hér atvinnu fyrir háskólamenntaða. Ekki vegna þess að háskólamenntun sé eitthvað merkilegri en önnur menntun hvort sem hún er úr skóla lífsins eða öðrum menntastofnunum heldur til að halda hér fjölbreyttu samfélagi. Sem allir sem að byggðamálum koma telja að sé af hinu góða.

Ég er ekki að tala um að haldið sé uppi atvinnubótavinnu fyrir háskólamenntaða vini og vandamenn eins og gert er nú þegar heldur að sveitarstjórnin fari í það af einhverri alvöru að ýta hér undir atvinnu.
Ein af fastanefndum sveitarstjórnar er Atvinnumálanefnd. Skv. 4. grein erindisbréfs Atvinnumálanefndar er hlutverk hennar m.a:

Að hlúa að og efla þá atvinnustarfsemi og nýsköpunarhugmyndir sem til staðar eru innan vébanda sveitarfélagsins á hverjum tíma sem og að stuðla að virku samstarfi sveitarfélagsins við atvinnuþróunarfélög og önnur hagsmunasamtök á svæðinu um markvissa uppbyggingu fjölbreyttra atvinnutækifæra. (Leturbreyting mín.)

Af hverju eru mótvægisaðgerðirnar ekki inni á borði Atvinnumálanefndar? Blasir það virkilega ekki við að Atvinnumálanefndin á að koma að þessu verkefni?
Ég verð að vísu að viðurkenna að ég skil ekki tilgang svokallaðrar Atvinnumálanefndar. Ég sat í henni í fjögur ár og eina virkilega verkefnið sem hún sinnti á þeim tíma var að reyna að gera helstu atvinnugrein héraðsins enn erfiðara fyrir með þarflausu banni við lausagöngu stórgripa. Eina verkefnið sem hún hefur sinnt á þessu kjörtímabili er ljósleiðaravæðing. Það má vel vera að betra netsamband skapi aukna atvinnu en persónulega hefði ég haldið að ljósleiðaravæðingin ætti heima á borði Skipulags- og umhverfisnefndar. Meirihlutinn má vissulega útdeila verkefnum að vild en væri ekki ráð að nefna hlutina réttum nöfnum og kalla bara nefndina Gæluverkefnanefndina?

Ekki misskilja mig, ég er ekki að segja að allt sé ómögulegt sem sveitarstjórnin gerir. Það var vissulega ráðinn verkefnastjóri mótvægisaðgerða og ég vil endilega taka fram að gagnrýni mín og hugleiðingar beinast ekki að verkefnastjóranum. Hún var ráðin til verkefnisins á skýrum forsendum sem takmörkuðust ákaflega við húsið. Seigla er nýsköpunarmiðstöð og þjónar afar vel sem slík. Hópur kvenna hefur t.d. hist þar og unnið að verkefni um yndisferðamennsku sem fékk styrk frá Uppbyggingarsjóði Norðurlands eystra nýverið.
Hins vegar er verkefnastjórinn í hlutastarfi og var fyrst aðeins ráðin til hálfs árs. Ráðningin hefur verið framlengd en aðeins til ársloka 2016. Húsið var friðhelgað til tveggja ára. Það er ekki hægt að treysta því að verkefnið sé komið til að vera.

Í góðu svari við síðasta pistli mínum segir verkefnastjórinn: „Því komi í ljós að samfélagið vilji þetta alls ekki þá er auðvitað fullt af fínum lausnum fyrir þetta fallega húsnæði...“
Nú er ég kannski að lesa of mikið á milli línanna en þetta hljómar eins og ákveðinnar tortryggni gæti gagnvart verkefninu. Það kæmi mér reyndar ekki á óvart ef Reykdælingar bæru takmarkað traust til sveitarstjórnarinnar eftir þann blóðuga og einhliða niðurskurð sem á undan er genginn. Því tel ég mikilvægt að sveitarstjórnin dragi úr öllum vafa um framtíð verkefnisins og Reykdælingar og aðrir Þingeyjarsveitungar geti treyst því að Seigla er komin til að vera.
Þótt ég telji Seiglu gott verkefni og sveitarstjórninni til sóma þá tel ég engu að síður að betur megi ef duga skuli.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Færsla Lögreglunnar á Norðurlandi eystra

Það mun mér hæfara fólk fjalla um þessa færslu Lögreglunnar á Norðurlandi eystra en það eru nokkrir hlutir í þessu sem mig sem almennur áhor...