Þið munið þetta, ég veit það, en
rifjum samt upp fyrir stílinn.
Uppfært 24. júní 2016
Ráðning verkefnisstjórans hefur verið framlengd til ársloka 2016.
Þá er hér gott viðtal á N4 þar sem farið er yfir Seiglu-verkefnið.
Í sveitarstjórnarkosningunum 2014
setti Samstaða fram eftirfarandi
loforð varðandi ólöglegu íbúakosninguna sína vegna sameiningar skólanna:
Sveitarstjórn skal fyrir þessar kosningar kynna íbúum með ítarlegum hætti hvað hvor kostur um sig hefur í för með sér, fjárhagslega, faglega og félagslega sem og hugmyndir um mótvægisaðgerðir við þeirri röskun sem niðurstaða kosninganna gæti haft í för með sér.
Það voru aldrei settar fram
neinar hugmyndir um mótvægisaðgerðir fyrir kosningarnar, hvorki lítillega hvað
þá með ítarlegum hætti eins og lofað
var. Reyndar virtust mótvægisaðgerðirnar hreinlega hafa gleymst þar til á þær var minnt.
En hvað eru mótvægisaðgerðir?
Mótvægi
Í Íslenskri orðabók Máls og menningar frá 2000 finnst ekki orðið mótvægisaðgerðir en orðið mótvægi er skýrt svona:
andvægi, e-ð sem vegur upp á móti e-u.
Ástæðan fyrir því að orðið mótvægisaðgerðir finnst ekki í gömlu
orðabókinni minni er einföld; það var ekki til árið 2000. Skv. vefritinu Múrnum tilheyrði orðið fyrst stóriðjunni og „frösum“
stjórnmálanna:
Alltaf bætast ný orð við orðabók stjórnmálanna. Eitt af þeim sniðugustu er „mótvægisaðgerðir“ en umhverfisráðherra greip mjög til þess þegar hún sneri við úrskurði skipulagsstjóra um Kárahnjúkavirkjun. En hvað merkir orðið mótvægisaðgerðir? Það virðist merkja að þegar risastórt svæði er farið undir lón sé hægt að gera eitthvað annað í staðinn sem dragi úr áhrifum alls rasksins. Þetta er gott orð til að friða þá sem hafa áhyggjur af því að það sem einu sinni hefur verið sökkt sé þar með horfið, a.m.k. eins og það er. Það skapar öryggiskennd og tilfinningu fyrir því að kannski sé þetta ekki svona endanlegt. Mótvægisaðgerðir er orð sem höfðar vel til allra flokka krata. (Ármann Jakobsson, 2002)
Nú get ég ekki farið eftir neinu nema eigin máltilfinningu
og Orðabókinni en ég hefði haldið að boðaðar mótvægisaðgerðir ættu að „vega upp
á móti“ þeirri „röskun“ sem flutningur í eitt hús hafði í för með sér. Hvaða
röskun átti sér stað?
Fengið hjá 641.is |
Röskunin
Bein röskun var sú að
grunnskólahald var lagt niður í Litlulaugaskóla og fjórir einstaklingar misstu
atvinnu sína. Svo má deila um óbeinar raskanir, eins og t.d. skert gæði Lauga
sem þéttbýliskjarna sveitarfélagsins. Þar sem erfitt er að festa hendur á
óbeinni röskun skulum við halda okkur við þessar beinu.
Mér hefði fundist mikilvægast að
reyna að ýta undir og jafnvel hreinlega skapa atvinnu á svæðinu. Sveitarstjórnin
virðist ekki deila þeirri skoðun minni, henni virðist mikilvægast að koma
húsnæðinu í brúk:
Sveitarstjórn samþykkir að leggja núverandi skólahús Litlulaugaskóla undir starfssemi er tengist mótvægisaðgerðum vegna breytinga í skólamálum sveitarfélagsins.Innviðum húsnæðisins verður ekki breytt með varanlegum hætti á tímabilinu.Bókasafn Reykdæla heldur aðstöðu sinni til að þjónusta íbúa með óbreyttum hætti.Eldhúsið verður notað til að sinna verkefnum í tengslum við grunnþjónustu sveitarfélagsins og starfsemi sem verður í húsinu.Þessi samþykkt gildi til næstu tveggja ára og tekin til endurskoðunar innan þess tíma.Hugmyndin er að húsið verði umgjörð um starfsemi á sviði sköpunar, þekkingar, tækni, hugverka og handverks. Frekari hugmyndir um starfsemi í húsinu og umgjörð hennar verða unnar í samráði við íbúa sveitarfélagsins.Sveitarstjóra og oddvita falið að vinna að framgangi málsins.
Svo allrar sanngirni sé
gætt þá virðist sveitarstjórnin vilja að húsið verði umgjörð um starfsemi en sú
starfsemi virðist eiga að vera algjörlega
að frumkvæði íbúa. Það er gott og blessað. En við erum ekki öll frumkvöðlar
og sveitarstjórnin lagði niður fjögur störf. Er ekki eðlilegt að ætla að „mótvægisaðgerðir“
við niðurfellingu starfa feli í sér sköpun nýrra starfa?
Nú veit ég ekki betur en að flest þeirra sem misstu vinnuna
séu komin í önnur störf eða hafi hreinlega búið til sín eigin tækifæri.
Punkturinn er að meintar mótvægisaðgerðir sveitarstjórnarinnar höfðu ekkert um
það að segja.
Húsnæði
Eins og áður sagði virðist nýting húsnæðisins vera í forgangi
hjá sveitarstjórninni og engu megi breyta þar í tvö ár frá samþykkt. Hins vegar
hafa nú verið gerðar breytingar á húsnæðinu sem sagan segir að kosti 10
milljónir. Ég læt þá tölu flakka því ég finn hvergi hina réttu tölu. Það er
vissulega skynsamlegt að láta húsnæði ekki standa ónotað hins vegar hef ég hvergi
séð endanlega ákvörðun um nýtingu húsnæðisins. Hefur sú ákvörðun verið tekin að
eiga húsið? Það verður sem sagt ekki selt?
Nú heyri ég að það vanti húsnæði á Laugum. Ég er auðvitað
enginn sérfræðingur í samfélagssköpun en ég hefði í einfeldni minni haldið að
til að samfélag haldi velli þá þurfi fólk að búa í því samfélagi. Miðað við
sífellda fækkun íbúa þá ætti sveitarfélagið kannski að reyna að hafa húsnæði
til staðar fyrir það fólk sem vill hér búa. Litlulaugaskóli var upphaflega
byggður sem íbúðarhúsnæði.
Persónulega hefði mér fundist húsnæðið henta til
hótelreksturs hvort sem það hefði verið selt eða leigt út. Það er nú eitt af
því sem er að gerast á Laugum, annað hvert hús er orðið að gistiheimili.
Skiljanlega, hér er jú til þess ætlast að fólk skapi sína atvinnu sjálft og
þarna er markaður. En þetta þýðir auðvitað að á Laugum sest fólk ekki að á
meðan.
Öll atvinna og atvinnuuppbygging er af hinu góða og mikil uppbygging ferðaþjónustu á sér stað í öllu sveitarfélaginu en mig
langar með fullri virðingu að benda á skýrslu Rannsóknastofnunar
atvinnulífsins á Bifröst þar sem segir: „Forsvarsmenn 65% fyrirtækja innan
ferðaþjónustunnar telja að skattsvik skekki samkeppni í þeirri grein
ferðaþjónustu sem fyrirtæki þeirra starfa í.“
Það er ekki nóg að hafa mikla atvinnuuppbyggingu í
sveitarfélaginu ef hún skilar litlu í sameiginlega sjóði.
Áframhald
Um mitt sumar 2015 var ráðinn verkefnisstjóri
mótvægisaðgerða í 50% stöðu til hálfs árs. Sú ráðning virðist hafa verið
framlengd án þess að það kæmi neins staðar fram en hversu lengi er ekki vitað. Verkefnisstjóranum
var ætlað að halda: „utan um þau verkefni sem unnið er að nú þegar og
skilgreind verða síðar á verkefnistímanum sem er út árið 2015."
Verkefnisstjórinn er nú að hverfa til annarra starfa svo
ekki veit ég hvað verður um verkefnisstjórastöðuna. Hefur hún verið lögð niður
eða minnkuð?
Er litið svo á að mótvægisaðgerðum sé lokið?
Verður gerð úttekt á árangri mótvægisaðgerðanna? Eins og
t.d. hversu mörg störf hafa skapast?
Voru
mótvægisaðgerðirnar kannski bara: „gott orð til að friða þá sem hafa áhyggjur
af því að það sem einu sinni hefur verið sökkt sé þar með horfið, a.m.k. eins
og það er. Það skapar öryggiskennd og tilfinningu fyrir því að kannski sé þetta
ekki svona endanlegt.“
Í sól og blíðu á Hálsi
22.6. 2016
Uppfært 24. júní 2016
Ráðning verkefnisstjórans hefur verið framlengd til ársloka 2016.
Þá er hér gott viðtal á N4 þar sem farið er yfir Seiglu-verkefnið.
Ég svara fúslega þeim fyrirspurnum/vangaveltum sem beinast að starfi mínu sem verkefnastjóri. Það verður ekki tæmandi hér, en ákvað að setja inn hér það sem mér finnst mest aðkallandi að ég svari. Sumt er álitamál einsog þú sjálf bendir á og eitthvað lítur lögmálum pólitískra ákvarðanna og hvaða leiðir eru valdar að settu markmiði. En svona hér og nú vil ég taka af vafann um framtíð mína og verkefnisins, að ég er ekki að láta af störfum í haust þó ég fari líka í kennslu, ég mun sinna þeim báðum samhliða...enda bæði hlutastörf.
SvaraEyðaÉg er ráðin út árið 2016, framhaldið mun skýrast við gerð fjárhagsáætlunar í haust. Það er rétt hjá þér að þetta gefur takmarkaða mynd af framtíð þessa verkefnis og allt í fínu að benda á það. En það má þó líka lesa út úr framvindu verkefnisins að ekki er verið að tjalda til einnar nætur og vinn ég eftir þeirri framtíðarsýn að gefa þessu að lágmarki einhver ár svo það nái að taka á sig einhverja mynd og gefi okkur einhverja reynslu. Þannig hef ég talað á öllum kynningafundum og er ég þá bara að tala út frá einhverju hyggjuviti því það væri sérstakt að fara af stað í þróunarverkefni og taka svo vindinn undan vélinni í flugtaki. En það er fleira sem kemur til svo þetta gangi vel einsog vilji samfélagsins fyrir svona nýsköpunarmiðstöð með meiru. Því komi í ljós að samfélagið vilji þetta alls ekki þá er auðvitað fullt af fínum lausnum fyrir þetta fallega húsnæði einsog þú bendir réttilega á.
Í þessu verkefni, mótvægisaðgerð, er verið að nýta húsnæði til atvinnusköpunar en fyrst og fremst með því að búa til jarðveginn. Og ég legg áherslu á "búa til" því það vex kannski lítið og ómarkvisst ef ekki er hlúð að grunninum og það tekur bara tíma. Og ég tel að jöfnuður þurfi að ríkja að þessum jarðvegi en ekki að hann sé skapaður fyrir ákveðna einstaklinga í samfélaginu. Það er grunnstefið í nýsköpun að frumkvæðið og krafturinn komi frá fólkinu. Það skiptir bara máli fyrir afkomu sprotafyrirtækja að þau/stofnendur þurfi að berjast aðeins áfram í því að koma þeim á legg. Það gerist ekki nema að fólkið sjálft hafi eitthvað undir og hafi þennan drifkraft og kapp og vilja til að eitthvað takist. Þess vegna verður Seigla og sú mótvægisaðgerð ekki staður þar sem þú skilar inn hugmynd og sveitarfélagið framkvæmir. Heldur staður sem veitir þér stuðning í formi samtals, ráðgjafar, aðgang að nauðsynlegum innviðum skrifstofu, lágrar leigu til að styðja við þig að koma undir fyrirtækinu fótunum.
Svo verðum við líka að vera raunsæ að þetta verkefni sprettur upp úr sársaukafullri ákvörðun sem samfélagið þarf tíma til að jafna sig á. Það má líta á þetta sem áfall og sjálfsagt erfitt fyrir marga að sjá eitthvað nýtt verða til á grunni þess sem það vildi alls ekki sleppa. Þess vegna verður líka af þeirri ástæðu að gefa samfélaginu tíma til að jafna sig áður en það er kannski tilbúið að sjá nýja möguleika. Ég vona auðvitað að samfélagið okkar í Þingeyjarsveit sýni þessu þolinmæði og stuðning .... fái með tímanum meiri trú á að þetta og að nokkrum árum liðnum þá stöndum við uppi með eitthvað fyrir tilstuðlan þessa verkefnis.
Kær kveðja
Anita Karin, verkefnastjóri mótvægisaðgerða