laugardagur, mars 25, 2017

Huglægt mat á hæfni - Baksleikjuviðbit

Í vikunni var ég á fræðslufundi um stofnanasamninga. Hafi ég skilið rétt þá voru stofnanasamningar teknir upp fyrir u.þ.b. 20 árum þegar ríkið ákvað að reka stofnanir sínar eins og fyrirtæki. Með stofnanasamningum átti að færa meira vald til stjórnenda og gefa þeim tækifæri á að "verðlauna" duglega starfsmenn. Inni í stofnanasamningum eiga að vera hvatakerfi og starfsþróunaráætlanir.
Vandinn við verðlaunakerfið er hið huglæga mat. Þess vegna kallaði Ögmundur Jónasson þetta "baksleikjuviðbit" á sínum tíma.
Ég vil taka fram að ég er hlynntari stofnanasamningum eftir fræðsluna en áður enda var komið inn á vandann við huglægt mat á hæfni og hvernig hægt væri að bregðast við honum.

Nú mætti halda að það væri frekar auðvelt að meta það hver er góður starfsmaður og hver er síðri. Það má vel vera ef matskvarðarnir eru til staðar. 

Um þetta hefur vissulega verið deilt en í nýlegum dómi Hæstaréttar nr. 376/2016 segir:
Þótt ákvörðun um þetta ráðist þannig að meginstefnu af mati forstöðumanns eru valinu settar skorður af grunnreglum stjórnsýsluréttar. Ein þeirra er réttmætisreglan, en samkvæmt henni verða stjórnvöld ávallt að reisa matskenndar ákvarðanir á málefnalegum sjónarmiðum. 

Það hafa verið settir upp kvarðar um hvernig meta beri hæfni eins og t.d. KSAO.

  • Þekking er fræðileg eða hagnýt og byggir á formlegri eða óformlegri menntun (e. knowledge, K).
  • Leikni er getan til að beita aðferðum, verklagi eða rökréttri hugsun á meðvitaðan máta (e. skills, S).
  • Færni er getan til að beita aðferðum eða verklagi á ómeðvitaðan máta. Færnin er lærð á ómeðvitaðan máta og getur jafnvel verið meðfædd (e. abilities, A).
  • Aðrir eiginleikar eru persónubundnir þættir svo sem félagsleg færni, jákvæðni, seigla, persónuleiki einstaklings, jafnaðargeð, áræðni og/eða sjálfstraust (e. other characteristics, O).
Það er þetta síðasta, aðrir eiginleikar (other characteristics) sem hafa verið misnotað og það verulega
gróflega. T.d. þegar hæfari einstklingur er ekki ráðinn í starf vegna þess að litið var til "persónulegra eiginleika" en ekkert gefið upp um hvaða eiginleikar það eru né hvernig þeir ættu að vera. Það að ráðningaraðila sé persónulega í nöp við viðkomandi er ekki málefnalegt sjónarmið.
Það er oft talað um "samskiptahæfni" en svo er sú færni ekki skilgreind nánar. Ég hef alltaf talið mig vita hvað felst í þessu hugtaki en á námskeiðinu á fimmtudaginn setti fyrirlesarinn fram allt aðra skilgreiningu sem snerist meira um að ná fram markmiðum en vera "kammó". Ég varð eiginlega furðu lostin.
Þessi nýja skilgreining minnti mig á sögu sem mér var sögð fyrir ekki ýkja löngu:
Það er maður á Suðurlandi sem er mjög vel menntaður í menntunarfræðum og stjórnsýslu. Gallinn er bara að hann er alveg ómögulegur í samskiptum, hann getur ekki unnið með neinum. Þessi maður sækir um öll stjórnunarstörf í skólum sem eru auglýst. Hann er allatf hæfasti umsækjandinn en aldrei ráðinn því allir vita að hann er ómögulegur í samstarfi. Hann kærir alltaf og fær bætur og lifir á þeim.
Fyrsta tilhneiging er væntanlega að trúa sögunni, sérstaklega ef hún er sögð af fólki sem við þekkjum. En auðvitað er sagan bara flökkusaga sem við áttum okkur á þegar við skoðum hana nánar. Sérstaklega þegar við heyrum hana aftur í lítillega breyttri útgáfu. Væntanlega eiga flest byggðalög sér svona sögu um þennan algjörlega óhæfa einstakling sem getur í raun ekki verið í vinnu með öðru fólki. Samt er þessi einstaklingur svo vel menntaður með mikla reynslu að hann á rétt á öllum stöðum! Það er innbyggð þversögn í sögunni.
Sagan, sem og aðrar útgáfur hennar, þjónar þeim tilgangi einum að réttlæta þann gjörning að stöður séu ekki auglýstar. Það sé í rauninni skömminni skárra að rétt ættaði einstaklingurinn eða sá rétt tengdi fái stöðuna frekar en "sá óhæfi" sem fái bætur ef hann er ekki ráðinn á kostnað byggðalagsins eða sé ráðinn og fái tíma til að skemma út frá sér, verði að losa sig við og svo væntanlega að borga bætur hvort sem er.
Ég geri ráð fyrir að "óhæfi einstaklingurinn" sé oftast nafngreindur í sinni byggðalagssögu sem ýtir undir trúgildi hennar. Þegar kemur svo að því að útskýra hvað þá skilgreina í hverju þetta óhæfi hans liggi þá verður fátt um svör.
Nema valinn sé raunverulega óhæfur einstaklingur sem söguhetja sem veldur ekki stöðunni. Þá á enn eftir að útskýra hvernig hann getur mögulega dæmst hæfastur í umsókn og þar með fengið stöðuna. Og af hverju eiga allir hinir að gjalda þessa eina? Nema auðvitað þessi rétt tengdi ættingi.

"Ah yes, but you see, “quality” is the new racism. It’s a code word. “Not good enough” is a code word for the exclusion of parties that used to be excluded on a more candid basis."
                   Barbara Kirshenblatt-Gimblett




Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Færsla Lögreglunnar á Norðurlandi eystra

Það mun mér hæfara fólk fjalla um þessa færslu Lögreglunnar á Norðurlandi eystra en það eru nokkrir hlutir í þessu sem mig sem almennur áhor...