fimmtudagur, mars 22, 2018

Sögur og ævintýr


Öll höfum við gaman að góðum sögum og vel þekkt er að góð saga á aldrei að gjalda sannleikans. Góð ævintýri hafa góða hetju, vondan skúrk og nokkra atburði sem árétta góðmennsku hetjunnar og illmennsku skúrksins.
Eitt gott ævintýri fjallar um samskipti Litla prinsins og Vondu nornarinnar.
Einu sinni var konungsríki í fjöllunum. Þar bjuggu Litli prinsinn og Stóri prinsinn. Vond og lævís norn læsti klónum í Stóra prinsinn og hafði hann algjörlega á valdi sínu.Vonda nornin vildi endilega selja skoðunarferðir um höllina til að fá meira gull. Tókst henni að plata báða prinsana til þess með því að segjast ætla að sjá um mestallt.
Í sögunni eru margir atburðir en við skulum skoða tvo.

Atburður I.
Vonda nornin fór í fýlu og sendi Litla prinsinum uppsagnarbréf þar sem hún hættir að sinna skoðunarferðunum um höllina og Litli prinsinn situr í súpunni með skoðunarferðirnar og þarf að sinna öllu.

Atburður II.


Nokkru seinna koma gestir í skoðunarferð. Litli prinsinn er ekki heima svo Vonda nornin sendir honum skeyti eftir skeyti til að spyrja hann hvort höllin sé tilbúin undir skoðunarferð. Svona skeytasendingar eru auðvitað ekkert nema ofbeldi og áreiti.

Þessir tveir atburðir eru til þess fallnir að sýna fram á illmennsku Vondu nornarinnar og gera það í sjálfu sér á grundvelli ævintýrisins.
En af því að ég er með BA í bókmenntafræði þá finnst mér gaman að kafa aðeins nánar í sögur og frásagnir. Og ef nánar er rýnt í þessa atburði rekast þeir hvor á annars horn. Fyrst vonda nornin er búin að segja upp og gefa skít í skoðunarferðirnar af hverju er hún að skipta sér af því hvort allt sé tilbúið fyrir skoðunarferð? Af hverju er vonda nornin að taka á móti gestum í skoðunarferð yfir höfuð? Getur verið að vonda nornin átti sig ekki á því að hún hefur sagt upp? Hvernig er hægt að segja upp vinnu án þess að vita það? Hvaða yfirgengilega forheimska er nú það?
Ef sagan myndi nú sem snöggvast breytast í raunveruleikaþátt þar sem persónur fá að tjá sig.




Núna er auðvelt að segja að auðvitað ljúgi helvítis skepnan, þetta er jú nornarkvikindi. En kannski, svona í anda góðra vinnubragða, er hægt að athuga málið betur.
Innan sögunnar er talað um skriflega uppsögn, svo í heimi sögunnar liggja fyrir áþreifanleg sönnunargögn. Því ætti að vera hægur vandi að framvísa bréfinu. Hvað stendur svo í bréfinu þegar það birtist? Jú, vonda nornin segir í bréfinu að Litli prinsinn geti hirt þrifin.
Skoðum þetta örlítið nánar. Vonda nornin er reið yfir því að Litli prinsinn komi fram við hana aðeins og eingöngu sem ræstitækni. Þegar hún segir að hann geti hirt þrifin þá lítur hann svo á að hún sé búin að segja sig frá öllu uppátækinu. Hmmm, hann sem sagt lítur á hana aðeins og eingöngu sem ræstitækni…. Gæti verið að hún fari með rétt mál?

Skoðum núna seinni atburðinn. Ef Litli prinsinn er algjörlega tekinn við rekstrinum af hverju er hann ekki heima til að taka á móti skoðunarhópnum? Treystir hann á Vondu nornina að redda málinu? Af hverju ætti hún að gera það ef hún er hætt? Og hvernig í ósköpunum nær hún að senda fullt af skilaboðum? Skyldi það vera vegna þess að hann svarar ekki skilaboðum frá henni? Þannig að skoðunarhópurinn stendur við dyrnar, sá eini sem veit hvort allt sé tilbúið er Litli prinsinn og hann hefur ekki látið vita. Svo hunsar hann skilaboðin. Hvað á Vonda nornin að gera? Senda hópinn inn í óundirbúna skoðunarferð? Ef hún væri hætt  þá myndi hún auðvitað gera það. En hún hagar sér eins og hún sé ekki hætt þótt hún vilji ekki tvíþrífa. Og Litli prinsinn treystir því að hún taki á móti hópnum þótt hann segi öllum öðrum að hún sé hætt. Þetta gengur ekki alveg upp, er það?
Kannski fjallar ævintýrið ekkert um Litla prinsinn og Vondu nornina heldur Vinnuhjúin og Tröllið í fjöllunum.


Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Færsla Lögreglunnar á Norðurlandi eystra

Það mun mér hæfara fólk fjalla um þessa færslu Lögreglunnar á Norðurlandi eystra en það eru nokkrir hlutir í þessu sem mig sem almennur áhor...