Eins og flesta rekur minni til þá gekk Covid 19 yfir heimsbyggðina fyrir nokkrum árum. Covid 19 er það sem í sögulegu samhengi er yfirleitt kallað plága. Þegar við skoðum söguna þá sjáum við að þegar plágur ganga yfir heimsbyggðina þá verður mikið mannfall. Því miður varð mannfall í þessari plágu eins og öðrum en mun minna en möguleiki var á. Það getum við þakkað vísindum og vísindafólki sem og ábyrgum stjórnvöldum í flestum löndum.
Vísindafólk er ekki
skyggnt, það hefur ekki forspárgáfu. Það metur aðstæður og upplýsingar hverju
sinni og leggur til aðgerðir byggðar á þeim upplýsingum sem liggja fyrir.
Stjórnvöld fá þessar tillögur í hendur og ákveða svo framhaldið. Mig minnir
mjög ákveðið að stjórnvöld hér á Íslandi ekki alltaf farið að fullu eftir
tillögum vísindafólks en að miklu leyti.
Auðvitað voru þetta mjög íþyngjandi aðgerðir. Frelsi okkar var heft. Auðvitað eru skiptar skoðanir á því hvernig á að bregðast við hverju sinni og það er eðlilegt. Það er eðlilegt að stjórnvöldum sé sýnt aðhald og þau gagnrýnd. Þannig á það að vera. En gagnrýnin verður að vera rökstudd og skynsamleg. Og það voru margir sem komu fram með slíka gagnrýni.
Það hins vegar að WHO sé að eitra fyrir
mannkyninu eða það sé verið að sprauta örflögum í fólk til að njósna um það er hvorki
rökstudd né skynsamleg gagnrýni. Ég eins og svo margir fleiri væntanlega sat
heima hjá mér með yfirlætisfullt vorkunnarbros á vörum og hugsaði: „Aumingja
fólkið.“ En þegar ungur, fílhraustur karlmaður sagði okkur, ginningarfíflunum,
að hann neitaði að vera með grímu því að hann væri jú ekki veikur þá fóru að
renna á mig tvær grímur. Það að hann sé ekki veikur þýðir ekki að hann sé ekki
að bera með sér smit. Við erum ekki öll
hraustir, ungir karlmenn og hann getur smitað okkur. Sum okkar voru í
krabbameinslyfjameðferð á meðan þessu stóð og hefðum illa þolað smit.
Mér var heldur ekki
skemmt þegar barnshafandi konur voru boðaðar í bólusetningu og mótmælandi bólusetninga
mætti og öskraði á þær að þær væru að „drepa börnin sín.“ Ég veit það alveg að þessar verðandi mæður
voru búnar að velta því mikið fyrir sér hvort þær ættu að þiggja bólusetningu eða ekki og hvaða áhrif hún hefði á börnin. Mér finnst þetta svo ljót framkoma ég á
eiginlega ekki til orð yfir hana.
Svo líður tíminn og
hann sýnir fram á að kannski voru sumar aðhaldsaðgerðirnar óþarflega strangar.
Það er alltaf auðvelt að vera vitur eftir á. Ég efast alla vega ekki um að
þríeykið okkar og stjórnvöld hafi gert sitt besta með þær upplýsingar og
vitneskju sem lá fyrir hverju sinni.
Svo byrjaði að
gjósa og fólk var flutt af skjálftasvæðum. Mikið af andstæðingum bólusetninga
birtust þá og gagnrýndu aðgerðir stjórnvalda. Vísindamenn vissu ekkert hvað
þeir voru að gera. Þá hugsaði ég: „A-ha! Þetta er menntunarandúð.“ Svo átti sér stað hræðilegt slys, maður féll
niður um sprungu og lést. Ég get ekki
ímyndað mér skelfinguna og rekist ættingjar hér inn þá samhryggist ég og biðst
afsökunar á að vera að tala um þetta. Á þeim tímapunkti fannst mér ljóst að
vísindamenn hefðu svo sannarlega rétt fyrir sér og eina leiðin að hlýða þeim.
Samt hélt, og nú ætla ég að nota hið fordómafulla hugtak „þetta fólk“ áfram að
gjamma á samfélagsmiðlum um forræðishyggju stjórnvalda og vitleysi
vísindamanna. Ég sat heima hjá mér fyrir framan skjáinn, dolfallin. Það er
ljótt að segja það en ég ætla að segja það samt: Ég er komin á þá skoðun að „þetta
fólk“ er ekki einhver meinleysisgrey sem vita ekki betur. Þetta er vont fólk
sem vill öðrum illt. Það vill að fólk veikist og deyi. Það vill að fólk sé inni
í brennandi húsum, það vill að fólk falli niður um sprungur. Undir yfirskyni
góðmennsku og frelsisástar vill það glundroða og þjáningar
Ég er hætt að
burtskýra þessa hegðun sem einfeldni, heimsku eða menntunarandúð. Þetta er
illmennska.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli