Ég heyrði það í útvarpinu fyrir stuttu að eitthvert manngrey í útlandinu hefði lent 36 sinnum í árekstri án þess að eiga sök á nokkrum þeirra. Að sjálfsögðu ber þessi maður ábyrgð á miklum meirihluta þessara árekstra með fávitalegu aksturslagi, það vill bara þannig til að umferðalögin eru fávitalegri. Og já, líka á Íslandi.
Langbesta dæmið er 88. gr. umfl. Samkvæmt þeim ber ökumaður bifreiðar ábyrgð á öllu ,,tjóni” sem bifreið hans veldur manneskju. Jafnvel þótt hún fleygi sér á bifreiðina þá ber hún enga ábyrgð á hegðun sinni. Ef íslenska fjallalambinu verður það á að villast fyrir bifreið þá er það því sjálfu að kenna og bóndinn ber skaðann á lambi og bifreið. Það er sem sagt formlega viðurkennt af löggjafanum í landinu að mannskepnan sé heimskari en rolla.
Þegar ég ferðast hér um götur borgarinnar þá hef ég fullan skilning á þessari löggjöf. Mannskepnan í umferðinni er alveg foráttu heimsk. Einföldustu umferðarreglur vefjast fyrir henni. Þetta með vinstri akreinina, algjörlega óskiljanlegt. Hversu, hversu oft hef ég og annað viti borið fólk ekki lent á eftir sleða vinstra megin! Núverið var ég að rúlla heim og lenti á eftir enn einum sleðanum. Þegar færi gafst fór ég yfir á hægri til að fara fram úr. Gefur maðurinn ekki í! Svo ég þurfti að fara hraðar en ég ætlaði mér og taka knappari beygju en ég ætlaði mér til að komast fram úr. Á næstu ljósum sé ég að karlinn er að taka niður númerið á bílnum mínum ofsalega hneykslaður á svipinn. Ég snarast út og bendi honum vinsamlegast á að hans aksturslag hafi verið vítavert. Karlinn svarar að bragði: ,,Vertu ekkert að ljúga væna mín. Ég er sko í lögreglunni og veit þetta.” Einmitt. Ef lögreglan ekur svona þá er ég ekki hissa að ástandið á götum borgarinnar sé eins og það er.
Eitt af mörgu sem er alveg óþolandi er hegðun fólks á ljósum. Ég tek oft vinstri beygju á ljósum á Miklubrautinni. Fyrst eru áfram-ljósin en þau slá á rautt áður en beygjuljósið kemur. Nánast undantekningarlaust skal það gerast að þegar manneskjan á undan mér sér að hún nær ekki áfram-ljósinu byrjar hún að draga niður nokkrum kílómetrum áður en ég kemst á aðreinina til að beygja. Sem veldur því að sjálfsögðu að ég næ ekki ljósinu. Þetta gerist ekki bara þarna. Út um alla borg er fólk að koma í veg fyrir að fólkið fyrir aftan það nái beygjuljósum. Hvað er að ykkur? Svo skiljið þið ekkert í því að það eru umferðastöppur út um allan bæ. Það eru umferðastöppur út um allt af því að þið akið eins og fífl.
Mér verður það einnig einstaka sinnum á að fara hringtorg. Ég fer á ytri akrein af því að ég fer út hægra megin á fyrstu gatnamótum. Í sumar geri ég þetta þótt ég sjái að manneskja sé á innri hring enda á hún þá að fara út á vinstri akrein ef hún ætlar út á sömu gatnamótum og ég. Næsta sem gerist er að ég heyri þetta ægilega bremsuvæl og svo er legið á flautunni lengi, lengi. Svo eltir manneskjan mig uppi til að steyta framan í mig hnefann. Elskan, þú braust lögin ekki ég.
Svo er alltaf verið að bölsótast út í unga fólkið. Ég segi það eitt, að það má vera að unga fólkið aki eins og brjálæðingar en það er þó vakandi undir stýri. Það kann enn þá umferðalögin. Hættulegasta fólkið í umferðinni er fullorðna fólkið. Hraðinn er búinn að aukast og orðnar miklar breytingar svo það er að fríka út af hræðslu og ekur á tuttugu vinstra megin. Lokar augunum þegar það fer inn á hringtorg. Svo stendur þetta fólk í þeim leiðinlega misskilningi að því beri einhver skylda til að ala upp annað fólk í umferðinni sérstaklega ef það er yngra en það sjálft. Úti á vegum landsins og það þarf ekki að fara lengra en í Hvalfjörðinn þá gefur þetta fólk undantekningarlítið í þegar það er verið að fara fram úr því. Það kveður stundum svo rammt að þessu að það hefur virkilega hvarflað að mér að leggja fram kæru um manndrápstilraun.
sunnudagur, nóvember 17, 2002
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Færsla Lögreglunnar á Norðurlandi eystra
Það mun mér hæfara fólk fjalla um þessa færslu Lögreglunnar á Norðurlandi eystra en það eru nokkrir hlutir í þessu sem mig sem almennur áhor...
-
Ég birti hér nokkrar færslur af Facebook, lítillega uppfærðar. I. Framboðið sjálft. Af því að fólk hefur verið að lýsa undrun sinni á þeir...
-
Fyrir nokkrum árum síðan setti ég fyrirspurn inn á Turn-it-in grúppu á Facebook. Turn-it-in er forrit sem við kennarar notum til að sjá hv...
-
Ágæti Ingi Freyr. Ég las pistil þinn Það sem við tölum um þegar við tölum um mafíósa í Skagafirði sem birtist á vef Stundarinnar nýlega...
Engin ummæli:
Skrifa ummæli