mánudagur, janúar 20, 2003

Mér tókst á einhvern ótrúlegan hátt að koma mér í ónáð hjá litlu systur um helgina. Þannig er mál með vexti að hún er hestakona mikil og var uppi í hesthúsi. Þá tóku hún og kunningjar hennar eftir því að bíll nágranna þeirra stóð fyrir framan hesthúsið hans en hann sást ekki. Svo þegar bíllinn stóð þarna enn seint um kvöldið þegar kunninginn fór aftur upp eftir en ekkert lífsmark í hesthúsinu þá fóru þau að hafa áhyggjur af manninum. Kunninginn hringdi sem sé í litlu systur og ég var í heimsókn hjá múttunni eins og venjulega svo ég komst ekki hjá því að heyra af vandanum. Nú, þau vissu ekkert hvað maðurinn hét svo þau gátu ekki flett upp í símaskránni, bifreiðaskráning er lokuð um helgar svo ekki gátu þau hringt þangað og þau höfðu guðað á glugga en ekkert séð. Stóra systir hefur hins vegar ráð undir rifi hverju og hringdi auðvitað beint í lögregluna og bað hana um að tékka á manninum. Þurfti ég reyndar að gefa upp fullt nafn og kennitölu litlu systur sem stóð æpandi ,,neii, nei!" yfir mér á meðan. Svo litlu seinna hringdi lögreglan til baka til að láta okkur vita að það væri allt í lagi með manninn. Málinu reddað, ekki satt? En þá var litla systir sármóðguð yfir því hvað ég hefði gert mikið úr þessu og nú myndi maðurinn vita að hún hefði haft áhyggjur af honum þannig að hún er að safna liði til að láta lemja mig. Ég skil bara ekkert í þessu. Svo segir hún að ég sé afskiptasöm.


Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Færsla Lögreglunnar á Norðurlandi eystra

Það mun mér hæfara fólk fjalla um þessa færslu Lögreglunnar á Norðurlandi eystra en það eru nokkrir hlutir í þessu sem mig sem almennur áhor...