laugardagur, júní 21, 2014

Hamingjusama húsmóðirin



Það er ekki hægt að segja með góðu móti að frúin á Hálsi hafi gaman að heimilisverkunum. Nei, þau
eru með því allra leiðinlegasta sem ég veit. Ég veit ekki vel af hverju það stafar. Kannski vegna þess að þegar ég var krakki þá neyddi móðir mín mig til að þurrka af og ryksuga í stofunni á reglulegum basis. (Uppeldi til ábyrgðar eða eitthvað svoleiðis.) Hún hafði líka gaman að smáum skrautmunum sem hún hlóð alls staðar. Alls staðar. Í allar gluggakistur, á allar hillur, á öll borð.... Það er ekkert mál að þurrka af einni gluggakistu en þegar það þarf fyrst að tína alla skrautmunina úr henni og raða þeim svo til baka... Ekki alveg jafn einfalt. Sem krakki og táningur þá bara þoldi ég þetta ekki. Þoldi. Það. Ekki. Þá hefur mér dottið í hug, af minni alkunnu hógværð, að ég sé bara ekki vinnukona. Ég er drottning. (Og voru nú sopnar hveljur ;) )
Þannig að ég játa það að ég hef ekki ofreynt mig á húsverkunum í gegnum tíðina. Þjáðst óskaplega? Já. Ofreynt mig? Nei. 

 En svo flutti ég í sveitina, varð eiginkona og móðir og með í pakkanum fylgdi húsmóðurstimpillinn. Það er svo merkilegt en hér í sveitinni eru miklu meiri allt-í-toppstandi kröfur en í borginni. Ég veit ekki hverju það sætir en þannig er það.
Fyrir u.þ.b. þremur árum, þegar ég sat heima í atvinnuleysi, ákvað ég að verða Hin Fullkomna Húsmóðir. Engar málamiðlanir. Húsið skyldi alltaf vera í toppstandi. Toppstandi.
Á þessum tímapunkti var húsið nýtt og lóðin ófrágengin. Möl og sandur sópuðust inn. Litli skæruliðinn var líka duglegur að koma með sand inn fyrir mömmu sína. Og frúin byrjaði að þrífa. Og þreif og þreif og þreif... Eftir ákveðinn tíma komst ég að eftirfarandi niðurstöðu: Ef ég ætlaði að halda húsinu í toppstandi alltaf þá yrði ég að skúra gólfið tvisvar á dag. Mig setti hljóða.
Eftir þessa uppgötvun sá ég þrjá kosti í stöðunni:

1)      Hafa húsið ekki í toppstandi alltaf og sætta mig við hneykslunarfullt augnaráð tilfallandi gesta.
2)      Einhenda mér í þrifin og eyða lífinu í að skúra húsið.
Mér var einu sinni sagt frá konu sem dó. Gerist á bestu bæjum. Nema hvað að þegar kom að því að minnast konunnar þá virtist enginn muna eftir neinu nema súkkulaðikökunni hennar. Sögukonu var ekki skemmt.
Ég sá minningargreinina fyrir mér: Ásta hélt manni sínum alltaf snyrtilegt heimili. Er öllum minnisstætt hvernig hægt var að spegla sig í tandurhreinu gólfinu á Hálsi. Við munum seint fá skilið af hverju hún tók þá ákvörðun að drekkja sér í skúringarvatninu langt fyrir aldur fram...


3)      Kaupa skúringarróbót.

Í vor lét ég það svo loksins eftir mér að kaupa skúringarróbót. Hefði mátt halda að drottningin gæti nú sinnt mikilvægum málum eins og að bjarga heiminum eða semja einhver stórbrotin bókmenntaverk. Ekki aldeilis.
Ég er svo yfir mig ánægð með skúringarróbótinn minn að ég er gjörsamlega á útopnu. Núna er ég upptekin við að hafa gólfin alltaf auð og hvæsi á skæruliðana þegar þeir setja eitthvað á gólfið. Hvessi augun á ullarsokka eiginmannsins og leita að grasstrái í leynum. Svo horfi ég heilluð á litla róbótinn minn renna yfir gólfið og gera allt hreint. Ég er hamingjusamasta húsmóðir í heimi þessa dagana. Aðrir heimilismenn eru hálfhræddir. En húsið er hreint!


Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Færsla Lögreglunnar á Norðurlandi eystra

Það mun mér hæfara fólk fjalla um þessa færslu Lögreglunnar á Norðurlandi eystra en það eru nokkrir hlutir í þessu sem mig sem almennur áhor...