mánudagur, júní 16, 2014

London - París - Raufarhöfn

Fyrir 22 árum þegar ég var 22 ára, nei, ég skil ekki þetta með tímann, þá ákváðum við Gummi æskuvinur minn að fara til Raufarhafnar í sumarvinnu. Mamma hans og stjúpi voru að taka við Hótel Norðurljósum og hann ætlaði að hjálpa þeim með það. Ég fékk vinnu í Fiskiðjunni, enda algjörlega heilaþvegin af Bubba Morthens þessi árin.
Gummi átti gamlan, svartan Citroen sem var með bilaðan bakkgír. Á honum fórum við enda stóð ekki til að bakka út úr ævintýrinu. Eins fyndið og okkur fannst þetta þá fylgdu því ákveðin vandkvæði að vera á bakkgírslausum bíl en á áfangastað komumst við. 

raufarhofn.net
Fyrst í stað gistum við hjá Skafta bónda, frænda Gumma, á Ásmundarstöðum. Gummi var búinn að segja mér að Skafti væri ekki mikil pjattrófa og sturtuaðstaðan væri bara steypan. Hins vegar setti hann „drottningarmottuna“ á gólfið þegar systir hans, amma Gumma, kæmi á sumrin. Skafta þótti nú ekki mikið til svona Reykjavíkurliðs koma svo þótt við fengjum að liggja inni þá máttum við baða okkur á steininum. Tveimur dögum seinna ca. spyr ég hann hvort ég geti fengið far með honum í Fiskiðjuna því ég átti að byrja að vinna daginn eftir en hann var stálari í Fiskiðjunni. Jú, ég mátti það svo sem. Og viti menn, um kvöldið var drottningarmottan komin í sturtuna.
Stuttu seinna fluttum við á hótelið enda það tekið til starfa.

Stolið frá Sóleyju Sturludóttur.
Ég þjáðist af óskaplegri bónusfötlun í fisksnyrtingunum svo ég fékk aukavinnu við að spúla eftir vinnu. Bætti það aðeins úr skák. Svo vann ég á barnum á hótelinu og var næturvörður. Þess á milli var djammað og djúsað við undirspil Uriah Heep. Ég vann eins og hestur, drakk eins og svín og reykti eins og strompur. Góðir tímar. Ég held ég hafi klárað bróðurpartinn af kvótanum þetta sumarið. Mitt uppáhaldseitur var Beefeater gin í Fanta lemon. Þegar ég vann á spítalanum var oft notað spritt með sítrónuilmi. Eitt sinn gekk ég inn á nýsprittað og sópaðist beina leið til Raufarhafnar. Var nánast óvinnufær í nokkrar mínútur.

raufarhofn.net
Það voru nokkrir góðir karakterar á Rieben. Ég man eftir hörkukerlum sem höfðu unnið í fiski alla sína tíð. Ein drakk viskí og reykti camel filterslausan. Djöfull var hún töff. Lottóvinningshafinn sem týndi framtönnunum. Og svo auðvitað Einar Íslendingur, blessuð sé minning hans.
Fyrir nokkrum árum tók ég rútuna til Akureyrar og með í för var mjúkur Raufsari sem sagði „félagi“. Ósköp fannst mér það huggulegt.

Já, það var gaman að skrattast á Rieben. Ég fann meira að segja fyrstu ástina mína. En það er önnur saga.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Færsla Lögreglunnar á Norðurlandi eystra

Það mun mér hæfara fólk fjalla um þessa færslu Lögreglunnar á Norðurlandi eystra en það eru nokkrir hlutir í þessu sem mig sem almennur áhor...