Ég hef, nánast alla tíð, verið í megrun. Ég get með nokkru
sanni sagt að mestallan tímann hafi ég verið að hlaupa á eftir
samfélagsduttlungum. Það var ekki gaman að vera táningsstúlka og hlusta á lög
eins og Feitar konur eða Of feit fyrir mig glymja sí og æ í
útvarpinu. En... Þetta er hætt að snúast um samfélagsduttlunga. Núna er
eitthvað annað í gangi. Eitthvað undarlegt.
Móðir náttúra kemur
sjálfsblekkingunni hér til hjálpar því eftir því sem gráu hárunum og hrukkunum
fjölgar versnar sjónin. Þá er spegillinn á baðinu staðsettur undir ljósi svo
undirhakan fellur í skugga. Ég veit líka hvar spegillinn er og hvenær hann
nálgast og er búin að soga inn kinnarnar og magann og skjóta fram brjóstunum um
það leyti sem ég er fyrir framan hann. Alltaf há, grönn og ljóshærð í speglinum
mínum. Sama máli gegnir um meðvitaðar myndatökur.
Við skulum hafa eitt á hreinu. Hugmyndin sem ég hef um
sjálfa mig er 18 ára rokkari. Mjög einfalt.
Óvæntar myndatökur eru öllu verri. Og það versta af öllu:
Gluggar! Finnið upp speglunarlausa glugga núna! Ég er í bænum í mesta sakleysi
og rek augun í miðaldra konu. „Rosalega er þessi búttuð“ hugsa ég kvikindislega.
„Og lík mér... Ætli við séum skyldar?“
Svo: „NEEEIIIII!!!!!“
Eftir nokkrar svona uppákomur komst ég að þeirri niðurstöðu
að ég þyrfti sennilega að halda eitthvað í við mig. Nú þarf ég nauðsynlega að
koma því á framfæri að þótt mér finnist gott að borða og summa lastanna sé
alltaf sú sama og ég bæði hætt að reykja og drekka þá borða ég ekki eins og
svín. Í alvöru, ég geri það ekki. Mér finnst svo sem skiljanlegt að ég grennist
ekki en mér er fyrirmunað að skilja að ég fitni stanslaust. Ég er helst á því
að ég hljóti að vera með biluð efnaskipti. Þá er líka agnar, obbopínu, ponsu,
smá, afar fjarlægur möguleiki að eitthvað hafi hægst á þeim vegna aldurs en
persónulega tel ég það afar ólíklegt. Afar. Þetta er bara hreint og klárt
mannréttindabrot.
Þannig að frúin fór í aðhald. Og ekkert gerðist.
Mannréttindabrot, ég er að segja ykkur það.
Ókey, ég þarf aðstoð hugsaði ég og hafði samband við
Herbalife-díler. Keypti sjeika og pillur og Herbalife-nammi. Fullt af því.
Borðaði pillurnar með matnum mínum og ekkert gerðist. Ég á víst að borða minna
og hreyfa mig líka. Til hvers er ég að kaupa Herbalife til að borða minna og
hreyfa mig meira? Ég get gert það ókeypis. Hún sagði líka að ég ætti að hætta
að nota mjólk í kaffið af því ég fengi svo stóran rass af því! Hingað og ekki
lengra! Hér dreg ég mörkin! Ég hætti ekki að nota mjólk í kaffið! Fat bottom girls make the rockin‘ world go
round og ég er 18 ára rokkari inn við beinið. Já, ég veit, ég veit...
Þannig að ég reimaði á mig hlaupgönguskóna og arkaði
galvösk, galvösk alveg, niður að Skjálfanda nokkra daga í röð. Þá fékk ég verki
í sitthvora næststærstu tærnar. Þjáningar, ofan á allt annað. Hélt samt áfram
að ganga af því að ég er hörkutól. Jebb, ég er nagli. Ekki alveg jafn mikið
hörkutól þegar tærnar urðu bláar. Svo duttu táneglurnar af. Í alvöru. Einhvers
staðar hljóta að vera takmörk. Þetta er svo hryllilega ólekkert. Ég get ekki
verið í opnum skóm. Ég á þá ekki en það er aukaatriði í málinu. Aðalatriðið er að ég á alveg ógeðslega bágt. Kúlulaga OG
tánaglalaus. Þá er betra að vera bara kúlulaga. Svo ég hætti að ganga.
Herbalife-dílerinn hringdi í gær. Samtalið var mikið til
svona:
Engin ummæli:
Skrifa ummæli