fimmtudagur, október 16, 2014

Hvar er KÍ?

Við vitum að ríkisvaldið vill skera niður ódýra menntun fyrir almenning og hefur lengi viljað. Þrátt fyrir yfirlýsingar um annað þá snýst þetta um meintan sparnað. Það sést best á nýjasta fjárlagafrumvarpinu þar sem fólki eldra en 25 ára er meinaður aðgangur í framhaldsskóla landsins. Því er beint að símenntunarmiðstöðvum sem bjóða ekki upp á stúdentspróf og námið kostar meira. Það er hægt að klæða slíkar aðgerðir í ýmsa búninga en hin strípaða staðreynd er að taki þetta gildi er verið að afnema jafnrétti til náms.
Þá sækir menntamálaráðherra það afar stíft að framhaldsskólar breyti námsbrautum sínum og útskrifi stúdenta á þremur árum.
Félag kennara við Menntaskólann í Reykjavík hefur sent frá sér tilkynningu varðandi þessar fyrirætlanir og bendir á að:
... nú þegar eigi íslenskir nýstúdentar í erfiðleikum með að fá nám sitt metið sem fullnægjandi undanfara háskólanáms erlendis og mótmælir því að nú eigi að gera samanburð við það sem gengur og gerist á Vesturlöndum enn erfiðari.
Það er því ógerningur að átta sig á hvað menntamálaráðherra gengur til annað en meintur sparnaður. Ég tala um meintan sparnað því niðurskurður menntunar mun verða okkur kostnaðarsamur þegar til lengdar lætur.

Dýrkeyptur samningur?
Í vor voru framhaldsskólakennarar í 3 vikna verkfalli sem landaði okkur nokkuð góðum samningi. Helsta breytingin var breytt vinnumat. Á kynningarfundi var fulltrúi samningarnefndarinnar spurður að því hreint út hvort samningurinn byggðist á því að framhaldsskólinn yrðu styttur í þrjú ár. Svarið var skýrt og skorinort: Nei.
Ég ætla ekki að fullyrða fyrir aðra en ég samþykkti samninginn m.a. í trausti þessa.

Í haust stígur menntamálaráðherra á svið og hefur upp sinn styttingar söng.

  „Ég hef sagt það og það er búið að taka ákvörðun um það að framhaldsskólinn fari í þriggja ára kerfi,“ segir Illugi.

Eini vafinn er hvenær.
Fulltrúi samningarnefndarinnar sló á áhyggjur okkar er hann sagði: „Til að stytta framhaldsskólann þarf að breyta lögum og að taka upp samninginn. Lesið bara samninginn“
Einhverra hluta vegna virðist menntamálaráðherra ekki vita þessi augljósu sannindi:

Talsmenn okkar kennara vísa í nýgerðan kjarasamning því til áréttingar að KÍ hafi hvorki samið um né samþykkt styttinguna. Þegar ég les samninginn þá sé ég eftirfarandi:


Hér er talað um meginbreytingar og virðist fulltrúi samningarnefndar líta svo á að það sé meginbreyting á skólahaldi að stytta það um 25%. Jú, það mætti leiða að því líkum ef ekki væri nú þegar inni í lögunum möguleiki til svigrúms. Framhaldsskólanemendur geta lokið námi sínu á þremur árum og velja margir að gera það. Þá eru líka skólar sem bjóða sérstaklega upp á þriggja ára nám. Um meginbreytingu er því varla að ræða.

 En það er rétt að halda til haga hvað segir í nefndaráliti meirihlutans sem fylgdi lögunum:
Áréttar meiri hlutinn mikilvægi þess að nám til stúdentsprófs sé ekki skert með frumvarpi þessu. Ekki er kveðið á um fjölda eininga til stúdentsprófs í gildandi lögum og telur meiri hlutinn að ekki sé þörf á slíku í frumvarpi þessu. Stúdentsprófið hafi áfram þá stöðu að veita almennt aðgang að háskólanámi og sú breyting sem gerð er í frumvarpinu leiði ekki til þess að háskólar krefji nemendur um að sitja undirbúningsnám fyrir inngöngu í deildir skólanna.

Er KÍ búið að samþykkja?
Hins vegar stendur einnig í samningnum sem við samþykktum:




Virðist því á öllu að samninganefndin og við séum búin að gefa grænt ljós á styttinguna. Enda segir Elna Katrín Jónsdóttir í pistli á heimasíðu KÍ:
Með því er ekki sagt að áform um styttingu námstíma hafi ekki verið ljós þeim sem gerðu kjarasamning síðastliðið vor.
Pistilinn sem slíkan er ekki hægt að skilja öðruvísi en að KÍ sé búin að samþykkja þessa breytingu.

Við skulum átta okkur á áður en lengra er haldið að lengd náms í framhaldsskólum er gríðarlegt hagsmunamál fyrir okkur sem þar kenna. Verði þessi stytting að veruleika þá er alveg ljóst að u.þ.b. 10% kennara munu missa vinnuna. Hvort sem það verður í minnkuðu starfshlutfalli eða hreinum atvinnumissi.
Í mínum huga er hlutverk stéttarfélaga að tryggja hagsmuni heildarinnar og koma í veg fyrir mismunun. Stéttarfélög hafa alltaf verið fjármagnseigendum og launagreiðendum þyrnir í auga enda  er það tilgangur þeirra. Því miður hefur launagreiðendum tekist að reka fleyg í samstöðu launþega með gylliboðum sérsamninga. Stofnanasamningar eða e.k. sérsamningar munu aldrei hafa neitt annað í för með sér en lægri heildarlaun. Það ættu að vera öllum augljós sannindi að það sem gleður launagreiðandann kemur launþeganum ekki vel.
Stéttarfélag sem semur við launagreiðendur á þá leið að launþegar eigi sjálfir að semja við launagreiðendur, yppir bara öxlum þegar æðsti yfirmaður málaflokksins lætur gamminn geisa um grundvallar breytingar og hótar 10% skjólstæðinga stéttarfélagsins atvinnuminnkun eða atvinnuleysi og bendir fólki svo á að passa sig bara þegar samið er um vinnumat er ekki að standa sig.

Ásta Svavarsdóttir
Framhaldsskólakennari

Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Færsla Lögreglunnar á Norðurlandi eystra

Það mun mér hæfara fólk fjalla um þessa færslu Lögreglunnar á Norðurlandi eystra en það eru nokkrir hlutir í þessu sem mig sem almennur áhor...