Óhæfi pabbinn á Bergþórshvoli

Njála er stórfenglega saga. Ég er að kenna hana í annað skipti núna í vetur og hún dýpkar og víkkar eftir því sem ég les hana oftar.
Skarphéðinn Njálsson hefur alltaf verið minn maður. Vegna hreinnar tilfinningasemi þar sem hann var uppáhalds hjá afa. Afi og amma voru með þessa mynd uppi á vegg hjá sér eins langt og ég man.

Flottastur.
Eini bletturinn sem fallið hefur á Skarphéðinn er að hann skyldi trúa Merði Valgarðssyni og drepa Höskuld fóstbróður sinn.
Mér til halds og trausts við kennsluna hef ég haft Lykilinn að Njálu eftir Kristján Jóhann Jónsson og hún hefur aldeilis komið með nýja vinkla.
Í Noregi ríkti óðalsréttur, þ.e. elsti sonur erfði bú og jörð en yngri synirnir urðu að láta sig frá að hverfa. Þess vegna lögðu þeir undir sig ný lönd m.a. Ísland.
Meirihluti landnámsmanna kom frá Noregi svo það er erfitt að ímynda sér að einhver önnur hefð hafi skapast hér á landi en að elsti sonurinn ætti að taka við.
Ég þori nú varla að nefna orðið feðraveldi en það er nú samt valdakerfið sem ríkir í veröld Njálu. Ætthöfðinginn er yfirmaður ættarinnar og tekur helstu ákvarðanir. Það er t.d. Flosi sem ákvarðar gjaforð Hildigunnar bróðurdóttur sinnar.
Synir Njáls eiga eigin bú en eru jafnan hjá Njáli og hlýða hans ákvörðunum hans. Njáll semur stundum þvert gegn vilja sona sinna eins og t.d. þegar hann sættist vegna vígs Þórðar leysingjasonar fóstra þeirra bræðra.
Skarphéðinn er elsti sonur Njáls og mætti því ætla að Njáll hefði á honum mætur og reyndi að undirbúa hann sem tilvonanda höfðingja ættarinnar. Fer þó lítið fyrir því.
Njáll er hins vegar góður vinur bóndans á næsta bæ, hans Gunnars Hámundasonar, og ræður honum heilt og hvetur í hvívetna. Hetjan og ráðgjafinn eru vel þekkt minni í bókmenntum. Eru flestir sammála því að Njáll og Gunnar bæti hvorn annan upp.  Gunnar er óneitanlega hinn fullkomni garpur, hlédrægur, fimur, sterkur og fallegur. Mesta hetja þess tíma. Það er svo sem ekkert illskiljanlegt að Njáll vilji binda trúss sitt við svona garp. Hins vegar er hann með heima sér næst mesta garpinn, sinn eigin son.
Þegar hann leitar eftir kvonfangi fyrir Skarphéðinn leitar hann ekki langt yfir skammt
heldur velur dóttur nágrannans í Þórólfsfelli. Virðist gjaforðið til þess eins fallið að auka við land Bergþórshvols. Grímur fær ríka ekkju en Helgi, yngsti sonurinn fær besta gjaforðið, Þórhöllu Ásgrímsdóttur Elliða-Grímssonar sem var mikill höfðingi. Því virðist, eins og Kristján bendir á, að Njáll sé að undirbúa Helga fyrir höfðingjahlutverkið en ekki Skarphéðinn. Helgi er líka líkastur Njáli sem sýnir sig í forspárgáfu hans.
Njáll hvetur Gunnar til að fara utan sér til frama en dregur úr sonum sínum. Grímur og Helgi fara nú samt en Njáll segir þeim strax að ekkert gott muni af því hljótast. Sem kemur auðvitað á daginn. Það virðist hins vegar aldrei koma til greina að Skarphéðinn fari utan. Hann situr heima.
Njáll veit þó fullvel að þegar kemur að mannvígum þá er Skarphéðinn rétti maðurinn í verkið. Það veit alla vega Hróðný móðir Höskuldar hálfbróður Njálssona þegar hún biður Skarphéðinn sérstaklega að loka augum látins sonar síns. Kristján bendir á í bók sinni að þetta er í eina skiptið sem Skarphéðinn er sérstaklega fenginn í eitthvert verk, yfirleitt er fram hjá honum gengið.
Það er því kannski ekki skrítið að Skarphéðinn falli fyrir smjaðri Marðar en Mörður er goði og plottari. Kannski sér Skarphéðinn fyrir sér að þarna sé hann, garpurinn, kominn með sinn ,,ráðgjafa“ eins og Gunnar átti í föður hans. Þá er kannski ekki heldur skrítið að Skarphéðinn vilji gjarna fara að brjótast undan valdi karls föður síns sem hefur nú eiginlega ekki sýnt honum neitt annað en lítilsvirðingu.
Þeir Njálssynir drepa síðan eins og áður sagði Höskuld Þráinsson fóstbróður sinn. Höskuldur ræfillinn hefur ekkert gert annað en að vera sonur Þráins og eiga hefndarskyldu fyrir hann. Og auðvitað að vera í sérstöku dálæti hjá Njáli. Njáll hefur gengið ákaflega langt í því að auka veg og virðingu Höskuldar. Hann gengur svo langt að gefa vond ráð til að deilur manna leysist ekki, maðurinn sem er þekktur fyrir ráðsnilld sína. Allt til þess að stofnaður verði fimmtardómur og að Höskuldur Þráinsson verði goði. Það mætti mikið vera ef Skarphéðinn væri ekki orðinn svolítið pirraður.
Þegar samið hefur verið um vígið á Alþingi og maður gengið undir manns hönd til að tryggja sættir og bjarga Skarphéðni og bræðrum hans, laumar ekki karlófétið slæðum og kvenstígvélum í peningahrúguna! Hvað gekk manninum til? Búið að kalla hann karl hinn skegglausa lon og don og kvengera hann út í eitt. Kvengerving og ásakanir um kynvillu hin grófasta móðgun samkvæmt Grágás. Ætli lögspekingurinn Njáll viti það ekki manna best.
Njáll virtist ganga mjög langt til að ná sáttum. En hann tilkynnti það nokkrum sinnum
formlega að hann hefði frekar viljað missa alla syni sína en Höskuld fósturson sinn. Skemmtilegt.
Þegar brennumenn mæta heim í hlað stilla þeir sér upp úti við því þar hafa þeir betri bardagastöðu. Njáll hins vegar ákveður að allir eigi að fara inn í hús þrátt fyrir ítrekaða fyrirboða um brennu. Synirnir hlýða, verða að hlýða ætthöfðingjanum. Hvers konar faðir tekur börnin sín með sér í dauðann?
Þeir Njálssynir fá aldrei að verða sjálfstæðir menn. Skarphéðinn fær aldrei að taka við sínu rétta hlutverki og sýna hvað í sér býr. Hann er vanmetinn allt til enda og þarf að deyja ásamt karlægum karlinum sem tekur allt með sér í dauðann, óðalið, synina og framtíðina.

Ummæli

  1. Ertu búin að lesa Mörð eftir Bjarna Harðarson? Maður fær skemmtilega nýja sýn á Njálu (ekki hvað síst á Skarphéðin) eftir að hafa lesið hana :)

    SvaraEyða
  2. Nei, ég hef ekki lesið hana en verð greinilega að gera það :)

    SvaraEyða

Skrifa ummæli

Vinsælar færslur af þessu bloggi

Krossinn sem ég ber

Vandamál og lausnir