True Detective - True Misogyny


Ég hef lengi verið svag fyrir Suðurríkjum Bandaríkjanna. Ekki þeim raunverulegu auðvitað, aldrei komið þangað, heldur þessari ímynd sem er gefin í ævintýraheiminum. Steiktir, grænir tómatar, Steel Magnolias og Forrest Gump eru uppáhaldsmyndir. Suðurríkjarokk þykir mér skemmtilegt, Sweet home Alabama alltaf gott. Svo er það auðvitað trúin, kántríið og „the drawl“ sem sameinast allt í hinum goðumlíka Johnny Cash.
Eins og komið hefur fram áður þá hef ég líka morbid fascination. Svo núna í sumarfríinu fannst mér kjörið að verða mér úti um True Detective til að stutta mér stundirnar.
Þetta lofaði góðu, það var allt til staðar. Suðurríkin, drungi, raðmorðingi, symbolismi, Matthew McConaughey sem ég hef alltaf verið skotin í. Heimspekilegar pælingar, sem við Gummi afgreiddum nú reyndar í kjallaraherberginu yfir rauðvíni (öllu sem flaut, en whatever) hér í fyrndinni. Ég samsama mig miklu meira með lífsnautnamanninum núna og finnst það fyndið.

En, það er eitt sem truflar mig alveg óskaplega. Núna er ég búin að horfa á fjóra þætti og það er engin kona í þáttunum. Jú, jú, það er vissulega „fórnarlambið“ og „eiginkonan“ og „viðhaldið“ og „mellurnar“ og berar konur út í eitt. Það eru kvenímyndir þarna og brjóst og rassar. En það er engin kona. Og það er ömurlegt.




Það er ömurlegt í mynd þar sem ung kona hefur verið drepin, fyrir nákvæmlega það eitt að vera kona, og er stillt upp til sýnis í dauða sínum,  séu konur kyn- og hlutgerðar út í eitt. Ung kona er drepin og stillt upp nakin til sýnis. Í næstu senum er svo ungum konum stillt upp nöktum til sýnis á súlum. Þær eru að vísu lifandi en þær eru alveg jafn hlutgerðar og fórnarlambið. Þær skipta nákvæmlega engu máli fyrir söguþráðinn, þær eru aðeins og eingöngu til sýnis.
Eiginkonan er í sinni týpísku rullu; „Við þurfum að tala saman.“ Viðhaldið í sinni týpísku rullu; „Þú getur ekki farið svona með mig!“
Eina manneskjan sem hefur komið inn á stöðu kvenna er mellumamman. Auðvitað, af öllum.

Jan: Girls walk this Earth all the time screwin' for free. Why is it you add business to the mix and boys like you can't stand the thought? I'll tell you. It's cause suddenly you don't own it the way you thought you did.

Hins vegar er það alveg þreytandi leiðinleg klisja að konur séu „sjálfstæðar“ og „sterkar“ með því að selja líkama sinn. Afsakið á meðan ég æli. Auk þess er það ekki stúlkan sem „owns it“ heldur mellumamman sem gerir hana út.
Karlremban er svo ýkt og yfirgengileg að mér hefur dottið í hug eins og Willa Paskin að það sé gert viljandi. Það breytir hins vegar engu um það að með þessari hefðbundnu sýn sinni á kvenímyndina þá ýta þættirnir undir og viðhalda þessum helv.. steríótýpum.
Auk þess þá eru karlar í aðalhlutverkum. Það eru fleiri karlar í áberandi aukahlutverkum og fá þ.a.l. meiri pening og möguleika á að verða frægari. Stelpurnar sem eiga brjóstin og rassana fá líklega ekki mjög há laun fyrir utan að sjaldnast sést nú í andlitin á þeim.
Maggie Gyllenhaal opnaði nýverið á aldursfordóma gagnvart konum í Hollywood. Eitthvað sem við höfum öll vitað lengi svo sem. Þegar hún var 37 ára var hún „of gömul“ til að vera ástarviðfang fyrir 55 ára gamlan karlleikara.



Woody Harrelson leikur Marty Hart. Woody er fæddur 1961. Michelle Monaghan sem er fædd 1976 leikur eiginkonuna og Alexandra Daddario sem er fædd 1986 leikur viðhaldið. Smá kventengdir aldursfordómar, svona?
Það hefur verið kynlífsatriði með þeim báðum þar sem þær eru sýndar naktar en Woody ekki. Hann heldur sér í þokkalegu formi þótt hann sé ekki sérstaklega fríður. Mér hefur líka alltaf fundist furðulegt hvernig karlpersónur í Hollywood geta gert það í nærbuxunum.
Ég veit að konur eru stöðugt hlutgerðar í í fantasíuheiminum eins og raunveruleikanum en ég hef aldrei fundið það jafnsterkt og núna. Kannski vegna þess að konur eru farnar að láta í sér heyra. Allt í einu blastarkvenmannsröddin út í heiminn. Og hún segir: „Við erum til. Við finnum til. Við eigum okkur líf og erum ekki skrautmunir í lífi karla, bíómyndum karla, fantasíuheimi karla. Við erum einstaklingar.“
Það það sem er svo vont í True Detective. Það er ung kona drepin og hún skiptir engu máli. Það hafa fleiri ungar konur verið drepnar og þær skipta engu máli. Sá sem skiptir máli er karlinn sem drap þær.  Og hinir karlarnir eltast við karlinn sem hatar konur. Karlar sem koma illa fram við konur og hlutgera þær líka. Þetta er leikur fyrir þeim, leikur sem sýnir hver er klárastur. Þetta er karlaheimur og mikið djöfull er þetta orðið alveg viðbjóðslega þreytandi.

Ummæli

Vinsælar færslur af þessu bloggi

Krossinn sem ég ber

Vandamál og lausnir