Auglýsingaskylda starfa


Þar sem mér er mikið í mun að farið sé að lögum og reglum þá langar mig að benda meirihluta sveitarstjórnar Þingeyjarsveitar á þá meginreglu að auglýsa skuli öll ný störf. Sú lagagrein sem stuðst er við er vissulega að finna í Lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, 7. gr. en Hafsteinn Dan Kristjánsson, aðstoðarmaður umboðsmanns Alþingis og aðjúnkt við lagadeild Háskóla Íslands segir í grein sinni Ráðningar í opinber störf1:

2.1.3.3 Auglýsing starfa hjá sveitarfélögum
Um ráðningu annarra starfsmanna sveitarfélaga en framkvæmdastjóra gilda 56. og 57.
gr. svstjl. Samkvæmt síðarnefnda ákvæðinu fer um réttindi, skyldur og starfskjör starfsmanna eftir kjarasamningi.

Við könnun á auglýsingaskyldunni og atriðum tengdum auglýsingu verður því að horfa til kjarasamnings hvers sveitarfélags. Skylda til að auglýsa starf laust getur einnig verið fyrir hendi samkvæmt samþykktum sveitarfélags. Þótt ekki sé kveðið á um auglýsingaskyldu í þessum heimildum ber að hafa í huga það sem segir hér að framan að jafnræðisreglur stjórnsýsluréttarins geta leitt til þeirrar niðurstöðu að það beri að auglýsa störf en um er að ræða úthlutun takmarkaðra gæða. 

Ég bendi alveg sérstaklega á setninguna úthlutun takmarkaðra gæða en við vitum það væntanlega öll að í Þingeyjarsveit eru mun fleiri menntaðir kennarar en störf fyrir þá. Því hlýtur það að brjóta alla vega gegn jafnræðisreglu að úthluta störfum til vandamanna sveitarstjórnarmanna meirihlutans óauglýst. (Svo ekki sé talað um þá sjálfa.)

Í kjarasamningi grunnskólakennara kafla 14.1 segir:

Öll störf skulu auglýst laus til umsóknar á opinberum vettvangi. Skal það gert með 14 daga fyrirvara að jafnaði. Þó er ekki skylt að auglýsa afleysingastörf, svo sem vegna fæðingarorlofs, námsleyfis eða veikinda, eða störf þar sem ráðning skal standa 12 mánuði eða skemur eða tímavinnustörf.
Ef sveitarfélag lítur svo á að ráða skuli í starf með uppfærslu innan
starfsgreinarinnar eða frá hliðstæðum starfsgreinum er heimilt að auglýsa á þeim vettvangi einum. (Leturbreytingar mínar.)


Takið eftir þessu, undantekningarnar eru ef um tímabundið starf er að ræða 12 mánuði eða skemur. Og ef um uppfærslu er að ræða, ekki niðurfærslu. Þar fyrir utan tel ég ljóst að einstaklingur sem hefur verið sagt upp njóti ekki lengur sömu réttinda og starfandi aðilar. Þótt svo sé og litið sé á um hliðstæða starfsgrein sé að ræða þá á samt að auglýsa innan stofnunar og þá hljóta aðrir uppsagðir að eiga möguleika á að sækja um.

Þannig að ég geri fastlega ráð fyrir að fljótlega verði auglýst eftir deildarstjóra. 




Ummæli

Vinsælar færslur af þessu bloggi

Krossinn sem ég ber

Vandamál og lausnir