Undanfarið hafa Íslendingar séð glitta í rotinn og ógeðslegan heim frændhygli og sérgæsku bak við tjöld stjórnmálanna. Svona hefur þetta verið lengi og flestir vitað það en einhverra hluta vegna hefur ekki tekist að hreinsa til. Alls konar lög og reglur hafa verið sett en það ekki dugað til. Ástandið virðist jafnvel versna ef eitthvað er.
Stjórnarhættir hér í
míkrókosmósinu Þingeyjarsveit hafa lengi truflað mig og ég hef bæði reynt að
benda á það sem ábótavant er og jafnvel reynt að laga það með
einstaklingsframtakinu en hvorki gengur né rekur. Enda finnst mér afskaplega
vont að það þurfi einstaklingsframtakið til, að einstaklingurinn, í þessu
tilfelli ég, þurfi að leggja sjálfan sig að veði.
Ég skal nefna dæmi til að skýra
þetta nánar.
Þegar ég sat í sveitarstjórn
2010-2014 hringdi ég margoft í Samband íslenskra sveitarfélaga. Fyrir utan eitt
skipti fékk ég aldrei skýr svör. Mér fannst og finnst enn með ólíkindum að hægt
sé að sameina tvo grunnskóla í sveitarfélagi undir liðnum Fundargerð fræðslunefndar í fundarboði. Það var komið aftan að minnihlutanum
sem gat, fyrir utan 5 mínútna fundarhlé, ekki rætt saman að neinu ráði né haft
samband við baklandið til skrafs og ráðagerða. Einu svörin sem Sambandið gat
gefið var að þetta væri óvenjulegt.
Eina skiptið sem ég fékk skýrt
svar var þegar gefa átti öllum kennurum Þingeyjarskóla kennsluafslátt að það
væri gegn umboði Samningsnefndar sveitarfélaganna.
Í fyrra þegar fólki var sagt upp
vegna fækkunar starfa en frænka sveitarstjórnarfulltrúa meirihlutans var ráðin
í nýja stöðu sem ekki var auglýst var mér eiginlega alveg nóg boðið. Í fyrsta
lagi var þetta gert með mjög skítlegum hætti gagnvart öðrum fyrrverandi
stjórnanda svo ekki sé talað um kennarana sem sátu eftir atvinnulausir eftir
verulega kaldar kveðjur. Í öðru lagi þá er kveðið mjög skýrt á um það í lögum og
kjarasamningum að öll ný störf eigi að
auglýsa. Það hefur aldrei verið deildarstjóri í Þingeyjarskóla. Það var
enginn deildarstjóri í Hafralækjarskóla. Þetta er eins splunkunýtt starf og það
frekast getur verið.
Það eru takmörk fyrir tímanum og
úthaldinu sem ég hef í hreinsunarstarf sem enginn vill hvort sem er að ég sinni
en af prinsippástæðum hringdi ég í KÍ. Eina svarið sem ég fékk þar var að þetta
væri ekki „alveg hreint“ en sennilega væri best að ég hringdi í
Menntamálaráðuneytið. Ég hringdi í Menntamálaráðuneytið og talaði þar við mann
sem vildi sem minnst segja. Sennilega væri nú best að ég hringdi í Samband
íslenskra sveitarfélaga. Ég þóttist vita að það hefði ekkert upp á sig en
hringdi samt. Svörin voru japl, jaml og
fuður. Sennilega væri nú best að ég hringdi í Menntamálaráðuneytið! Nefnilega.
Að ákveðnu leyti er þetta
skiljanlegt. Þetta snýst um lagatúlkun og embættisfólk vill ekki setja fram
ákveðna túlkun. Til þess eru dómstólar eða úrskurðarnefndir. En til að fá dóm
eða úrskurð þarf einstaklingur að setja fram kæru. Það er þar sem hundurinn liggur
grafinn.
Í smáu samfélagi eins og
Þingeyjarsveit er erfitt fyrir einstaklinginn að rísa upp á móti ættarveldunum.
Félagsleg útskúfun og mannorðsmissir blasir við. Jafnvel lífsviðurværið er í
hættu. Þá er betra að þegja. Þess vegna breytist ekki neitt.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli