mánudagur, júní 13, 2016

Kona fer í rusl

Ég er vissulega búin að búa hér á mörkum hins byggilega heims í næstum ellefu ár og vissulega hef ég komið við á gámasvæðunum nokkrum sinnum en almennt hefur eiginmaðurinn séð um að koma ruslinu í lóg. Hins vegar liggur þannig á ferðum frúarinnar í sumar að hún ekur, nánast daglega, fram hjá gámasvæði. Eiginmaðurinn hefur tekið upp á þeim óskunda, vafalaust með einhverjum duldum meiningum í leiðinni, að setja heimilisruslið í frúarbílinn. Frúin á því um lítið að velja en að koma við á gámasvæðinu og henda ruslinu. Eða anga. 
Í morgun kom ég við á gámasvæðinu einu sinni sem oftar. Við reynum auðvitað að vera eins umhverfisvæn og við frekast getum og setjum blöð og pappír beint í pappakassa sem við fáum undir mjólkurpóstinn. Í morgun lagði ég og henti stóra pokanum með heimilissorpinu í næstum fullan almenna gáminn. Hneykslaðist óskaplega á öllum pappakössunum sem voru þar. Svo trítlaði ég að hinum gámnum með pappakassann minn og byrjaði að tína eitt og eitt snitti inn um litlu raufina. Einhvers staðar í hugskotinu flögraði sú hugsun að þetta væri fáránlegt en ég bældi hana enda í miklu jákvæðniátaki þessa dagana. Sól og svona.
Pakkinn utan um Family size morgunarverðarkornið komst ekki inn um raufina. Þarna stóð ég, umhverfisverndarsinni og löghlýðinn fyrirmyndarborgari að reyna að brjóta morgunverðarpakka, sem var ekki til mikils samstarfs,  saman í þóknanlega stærð þegar því laust niður í huga minn í gegnum bleika og þykka jákvæðnikvoðuna: "Helvítis opið er of lítið."
Svo stóð ég í örlitla stund og horfði á fernuna með plasttappanum og velti fyrir mér hvoru megin í gáminn hún ætti að fara. Ég tölti þá að hinni hliðinni, bylgjupappíshliðinni, með pappakassann, plasttappafernuna og glanspappírs auglýsingapésana og horfði á sambærilega rauf þar. Ég hef aldrei verið sterk í stærðfræði og hef enga sérstaka rýmisgreind en ég sá þó í hendi mér að pappakassinn kæmist ekki inn um þetta op.
Hér kemur játningin: Það er sól og gott veður í dag. Það var nánast logn á gámasvæðinu. Samt ákvað ég að eyða ekki góðum hluta lífs míns þarna á planinu að tæta niður pappakassa í öreindir svo hann kæmist inn í gáminn. Ég viðurkenni það hér og nú. Ég gekk þungum skrefum, ekkert trítl lengur, yfir að hinum gámnum og tróð pappakassanum þar inn ásamt plasttappafernunni og gljápappírnum.
Núna bíð ég bara spennt eftir heimatunnunum.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Færsla Lögreglunnar á Norðurlandi eystra

Það mun mér hæfara fólk fjalla um þessa færslu Lögreglunnar á Norðurlandi eystra en það eru nokkrir hlutir í þessu sem mig sem almennur áhor...