mánudagur, júní 20, 2016

Tæknifrúin: Rauð augu.

Það er nokkuð algengur misskilningur að ég kunni ýmislegt fyrir mér þegar kemur að tæknimálum. Það er ekki alls kostar rétt, það eina sem ég raunverulega kann er að leita á www.google.is. Galdurinn er mjög einfaldur; slá bara inn hinar heimskulegustu spurningar á google en þær verða að vera á ensku. Þá er nokkuð bókað að lausnin birtist eða alla vega fyrsta skrefið að lausninni.

En þar sem marga af minni kynslóð (00 kynslóðin) óar eitthvað við tækninni þá datt mér si sona í hug að deila einhverju af kunnáttunni. Til þess er kunnátta, ekki til að lúra á henni.

Ég ætla að byrja á rauðum augum á myndum, aðallega vegna þess hversu auðvelt er að laga þau.
Þegar við tökum mynd á stafræna myndavél eða síma þá annað hvort hleðst myndin inn á ský eða við hlöðum henni inn. Hvort heldur sem er þá opnar tölvan hana (yfirleitt) í einhverju forriti. Oftast fylgir ákveðið myndaforrit tölvunni.
Einu sinni átti ég makka (imac) sem innihélt myndaforritið iphoto. Ef ég man rétt þá blasti takkinn Fix red eye beint við þegar forritið var opnað. Það var eins auðvelt og það gat verið. Velja fix red eye, þá varð bendillinn að hring, misstórum sem maður setti utan um rauða augað og smellti. Voila. Það hlýtur að vera orðið enn auðveldara ef eitthvað er á nýju mökkunum. En til öryggis þá beiti ég töfrabragðinu og pikka inn á google iphoto red eyes. Hérna er t.d. ágætis útskýring.

Undanfarin ár hef ég notast við ódýra pc tölvu (skæruliðar á heimilinu) sem virkar ljómandi.  Í minni tölvu er myndaforritið Photo Gallery sem ég held að sé staðalbúnaður, alla vega með Windows 10 sem flestum pc eigendum bauðst að hlaða niður sér að kostnaðarlausu.
Þar opnar maður myndina (hægrismellir og velur Open with og svo Photo Gallery ef það gerist ekki sjálfkrafa). Þá opnast fyrst albúmið og allar myndirnar þumlar, maður smellir á tiltekna mynd sem stækkar og þá birtist þessi borði efst:



Smellið á rauða augað, setjið bendilinn sem er núna orðinn að krossi í rauða augað og smellið. Þá ætti þetta að vera komið en stundum ef myndin er stórkornótt eins og við sögðum í gamla daga (ég er slæm af elli í dag) þá getur þetta orðið smá handavinna en aldrei mikil.

Ef fólk vill þá er líka fullt af forritum á netinu sem hægt er að nota eins og t.d. þetta.

Núna ætlast ég til að þið hættið að pósta myndum af rauðeygðu fólki!



Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Færsla Lögreglunnar á Norðurlandi eystra

Það mun mér hæfara fólk fjalla um þessa færslu Lögreglunnar á Norðurlandi eystra en það eru nokkrir hlutir í þessu sem mig sem almennur áhor...