mánudagur, september 26, 2016

20 ár

Í dag eru liðin tuttugu ár síðan faðir minn lést, nýlega orðinn 55 ára gamall. Fimmtudaginn 26. september klukkan hálfníu um kvöldið. Við systur vorum nýkomnar heim frá að sækja langa sjónvarpssnúru til að geta tengt sjónvarpið inn í herbergi hjá honum. Við héldum að það væri meiri tími. En sem betur fer var samt ekki meiri tími. Maður sem hafði alltaf verið þrekinn var kominn undir 60 kíló. Við vorum bara að bíða.
Biðin var erfið. Það var erfitt að horfa upp á pabba sinn, manninn sem allt gat, lúta í lægra haldi fyrir hinum óboðna gesti. Að sjá líkamann veslast upp en heyra vit hans í röddinni og greina sál hans í augunum. Hann sjálfur var þarna allan tímann, vissi nákvæmlega hvað var að gerast. Ósáttur við örlög sín en æðrulaus.

Ég veit eiginlega ekkert hvað ég var að gera árið eftir að hann dó. Ég held að engin okkar mæðgna viti það. Lífið hélt einhvern veginn áfram á sjálfstýringu. Ég varð meðvituð um að ódauðleiki minn væri tálsýn. Það var hoggið stórt skarð í varnargarðinn sem verndaði mig fyrir brimróti tímans.

En lífið heldur áfram. Þetta erfiða síðasta ár er orðið lítill hluti af sögu lífs hans. Ég get framkallað alla hina kaflana jafnauðveldlega. Hinn sérstaki dans hans stendur þó upp úr.

Þau eru orðin nokkur árin síðan að ég hugsaði að nú væri gott að hringja í pabba og fá ráð. Mér finnst samt skrítið að börnin mín hafi aldrei hitt og muni aldrei kynnast manninum sem lifir svo ljóslifandi í minningu minni.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Færsla Lögreglunnar á Norðurlandi eystra

Það mun mér hæfara fólk fjalla um þessa færslu Lögreglunnar á Norðurlandi eystra en það eru nokkrir hlutir í þessu sem mig sem almennur áhor...