Ágætu Framsóknarmenn

Nú er það þannig að ég er ekki í Framsóknarflokkinum svo í rauninni ætti ég að vilja að þið hélduð Sigmundi Davíð sem formanni. Ég þarf auðvitað ekki að rekja þessa sögu alla en maður sem telur sig hafinn yfir að tilheyra efnahagsumhverfi á ekki að stjórna því. Hann á ekki að sitja beggja vegna borðsins þegar hann semur um mikla hagsmuni fyrir þjóð sína. Eftir ósköpin sem skullu yfir í apríl og hvernig hann hefur svo brugðist við er ljóst að mun færri geta hugsað sér að kjósa Framsóknarflokkinn en áður. Þetta vitið þið. Ykkur ætti einnig að vera ljóst að ykkar helsti samstarfsflokkur í gegnum tíðina mun ekki fara í samstarf með ykkur eftir kosningar á meðan Sigmundur Davíð er í brúnni. Ekki nema auðvitað með mikilli eftirgjöf af ykkar hálfu. Sjálfstæðisflokkurinn fyrirgefur ekki að reynt sé að kúga hann til hlýðni. Formenn flokkanna hafa ekki talast við mánuðum saman.
Sigmundur Davíð verður aldrei aftur forsætisráðherra Íslands. Sem þýðir að á meðan hann er formaður Framsóknarflokksins mun forsætisráðuneytið ekki falla í skaut Framsóknar.

Sigurður Ingi hefur á stuttum tíma náð að verða mun landsföðurlegri en Sigmundi Davíð nokkurn tíma. Það fylgir honum líka ákveðin ró og yfirvegun. 

Þótt ég muni ekki kjósa Framsóknarflokkinn þá bý ég í þessu landi. Það er mér ákaflega í hag að vinnufriður sé í þinginu. Fasísk orðræða Sigmundar Davíðs er mér líka ákaflega ógeðfelld. Daður við rasisma, paranojan, öll framgangan veldur hér sundrungu og ófriði í samfélaginu.
Svo ég bið ykkur lengstra orða að kjósa Sigurð Inga sem formann á komandi flokksþingi jafnvel þótt það hafi í för með sér að þið fáið meira fylgi. 


Ummæli

Vinsælar færslur af þessu bloggi

Krossinn sem ég ber

Vandamál og lausnir