föstudagur, september 30, 2016

"Það er nú eitt helvítið."

Þann 17. september síðastliðinn lést tengdamóðir mín, Þórhildur Vilhjálmsdóttir. Ég hefði svo gjarna viljað skrifa minningargrein um tengdamóður mína en þegar til átti að taka þá áttaði ég mig á því að í raun þekkti ég konuna lítið sem ekkert. Jú, vissulega þekkti ég Tótu en ég þekkti hana aðeins sem fullorðna, veika konu sem hafði að miklu leyti lokað sig af frá heiminum og samskiptum við annað fólk. Þegar við fórum að skoða gömul albúm til að finna góða mynd sá ég að þarna var saga sem ég þekkti ekki.

Þórhildur Björk Vilhjálmsdóttir fæddist að Rauðá, Ljósavatnshreppi, þann 1. júní 1938. Hún ólst upp á músíkölsku og listrænu heimili. Hún spilaði á gítar og seinna meir greip í stundum í munnhörpuna og sögina heima við. Faðir Tótu var listasmiður og smíðaði helst eða gerði upp kistur ef ég hef skilið rétt. Tóta málaði svo myndir á húsgagnið, annað hvort upp úr sjálfri sér eða ofan í mynd sem var fyrir.
Frænka hennar sagði mér nýverið frá því að Tóta hefði stundum komið í Rauðá til vikudvalar til að mála. Frænkunni hafði fundist mjög skemmtilegt að vera hjá Tótu og fylgjast með. Frænkan hafði nú reyndar laumað því að mér áður að hvinið hefði í tengdó í þessum listaferðum ef tóbakslaust varð í Rauðá.
Tóta gaf mér fyrir nokkrum árum dýrgrip sem hún og pabbi hennar gerðu í sameiningu. Það er hilla sem hann bjó til en hún skóf í skuggamyndir.

Hillan góða (létt ófókuseruð.)

Þegar ég skoðaði albúmin sá ég virka og lifandi konu sem hafði hin ýmsu áhugamál. Fyrir utan listsköpunina þá hafði hún líka áhuga á praktískum hlutum og sinnti fuglahaldi fjölskyldunnar og garðyrkju. Hún kom líka að sauðfjárhaldinu.
Þá sótti hún hin ýmsustu námskeið og veigraði ekki fyrir sér að fara gangandi með Singer saumavélina í saumaklúbbana því hún tók aldrei bílpróf.
Auðvitað var hún bundin í báða skó yfir börnum lengi vel enda átti hún ein fimm stykki. Því miður fór það svo að hún fékk ekki langan tíma fyrir sjálfa sig því þegar hún var fimmtug fékk hún heilablóðfall sem sló hana niður. Hún varð hölt og vinstri handleggurinn var henni ónýtur. Eftir þetta hélt hún sig til baka og má því miður segja að hún hafi koðnað niður.
Heilinn var samt alltaf í lagi og hún hélt honum við með lestri bóka og brennandi áhuga á fótbolta, aðallega þeim enska.
Þegar ég kom inn í fjölskylduna þá var EM 2006 í gangi og við tengdamamma fylgdumst saman með því. Karlpeningurinn á Hálsi hafði engan áhuga á boltanum. (HHG bjó ekki heima þá.)
Fyrir utan sameiginlegan bókaáhuga og tilfallandi fótboltaáhuga minn náðum við því miður ekki meira saman. Nema að einu leyti: Báðum leiddust okkur húsverkin. Eða eins og tengdamamma mín orðaði það: "Það er nú eitt helvítið." Ég gæti ekki verið meira sammála.
Takk fyrir samfylgdina,Tóta.



Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Færsla Lögreglunnar á Norðurlandi eystra

Það mun mér hæfara fólk fjalla um þessa færslu Lögreglunnar á Norðurlandi eystra en það eru nokkrir hlutir í þessu sem mig sem almennur áhor...