Fyrir níu árum síðan setti ég aleigu mína í óseljanlegt hús hér á Hálsi. Ég vissi það fullvel að hér bjó fjölskylda Marteins og að ég gengi hér inn í aðra fjölskyldu. Hér var hans arfleifð, hans líf.
Í sjö ár var H. heimagangur á heimili mínu, sat við matarborðið okkar, borðaði matinn okkar, lék við drengina okkar. Í sjö ár hélt ég að H væri vinur minn. Já, ég hélt það virkilega og mér þótti vænt um hann sem frænda barnanna minna.
Þegar okkar lendir svo saman út af smotterí, eins og iðulega gerist í samskiptum fólks, þá er eins og stungið hafi verið á kýli. Heiftin og hatrið sem vellur frá manninum er ótrúlegt. Ég veit ekki hvaðan á mig stendur veðrið. Það er augljóst að þetta hefur grasserað í lengri tíma. Allt í einu stend ég frammi fyrir þeirri staðreynd að maðurinn sem ég hélt að væri vinur minn, maðurinn sem hefur hampað og hossað börnunum mínum og hefur deilt hér með okkur gleði og sorgum, fyrirlítur mig. Hversu lengi hefur þetta varað? Hversu lengi hefur hann verið heimagangur hjá okkur með hatrið kraumandi?
Ég er núna fyrst að átta mig á hversu mikið áfall þetta var mér. Og í rauninni höfum við verið að ganga í gegnum sorgarferli. Einn úr fjölskyldunni er horfinn. Marteinn syrgir bróður sinn. Við vitum ekki hvaða maður þetta er sem er hér út um allt og allt um kring en þetta er ekki bróðir Marteins, frændi drengjanna og svo sannarlega ekki vinur minn. Við söknum þess manns. Við syrgjum hann.
Viðbrögð vinafólks hans og ættmenna þeirra beggja var mér líka áfall. Það er ekkert launungarmál úr því sem komið er að mér leiddust þessar langdvalir. Þetta er ekkert vont fólk og mér líkaði ekki illa við þau en mér fannst þau vera hér lengi og já, ég upplifði ákveðna tilætlunarsemi. En ég ákvað að það væri í lagi, Marteins vegna. Þetta eru jú ættingjar hans líka.
Þegar "deilan" hófst þá fannst mér fyrst eins og þau vildu að aðilar sættust. En viðbrögðin við sáttamiðlaranum voru slík að mér hefði ekki brugðið meira að fá kalda tusku í andlitið. Við vorum að "þvinga hann til sátta." Það var tekin afgerandi afstaða með honum og við vorum greinilega vonda fólkið í þessu. Ég átta mig á því núna að auðvitað er þetta hrein og klár hagsmunagæsla. Ef þau lenda upp á kant við H. þá missa þau ókeypis sumardvalarstað, hvort sem það er hér eða á R. En við skulum átta okkur á að ég skrifaði greinargerðina eftir þessi viðbrögð og afgerandi afstöðu. Mér getur nefnilega líka sárnað.
Og mér finnst þetta sárt. Mér finnst sárt að sumu fólki finnist virkilega að Marteinn eigi það ekki skilið að vera bóndi á Hálsi. Marteinn hefur verið hér alla tíð og staðið sína plikt. Hann hefur verið hér og haldið hlutunum gangandi á meðan hinir bræðurnir hafa verið að lifa og leika sér út og suður.
Mér finnst líka sárt að þessu sama fólki finnist synir Marteins ekki eiga tilkall til arfleifðar sinnar og reyna að hrifsa hana frá þeim. Þykist í öðru orðinu vilja þeim allt hið besta en reyna í hinu að flæma þá í burtu.
Auðvitað er þetta bæði sárt og vont. En núna vitum við hvar við stöndum. Við vitum hverjir eru vinir okkar. Það er alltaf gott að vita það.
Farðu og finndu hamingjuna.
Þín hamingja býr ekki hér.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli