Að eilífu ung.
Ég hef alltaf verið óskaplega hneyksluð á konum sem vilja ekki eldast. Ég hef aldrei skilið af hverju þær eru að hlaupa í hormónasprautur og eru ekki bara sáttar við að vera lausar við þessi mánaðarlegu óþægindi. Svo eru þær að lita á sér hárið, sparsla upp í hrukkurnar og eyða of fjár í vita gagnslaus yngingarlyf. Þær eru að hlaupa eftir heimskulegum kröfum vanþroska siðmenningar sem þjáist af æskudýrkun. Fussum svei! Auðvitað var það alltaf undirliggjandi í röksemdarfærslunni að ég var ung og falleg (lesist: ung) og gerði að sjálfsögðu ráð fyrir að vera það alltaf.
Einn fagran dag í vor var ég að skoða fílapensabúskapinn (ég er nefnilega svo ung). Í speglinum blasti við einhver undarlegur glampi í hárinu á mér. Það var alveg sama hvernig ég sneri, alltaf var hann á sama stað. Eftir mjög nákvæma skoðun undir flóðljósum reyndist meintur glampi vera eitt hár undurfurðulegt á litinn. Öllu heldur, það var enginn litur á því. Í skelfingarfáti reif ég óþverrann upp með rótum. Samanburður við hvítt blað staðfesti gruninn: það var samlitt. Þegar hér var komið við sögu var mig farið að svima og sortna fyrir augum og varð að leggjast fyrir. Þegar ég var farin að anda eðlilega aftur og gat hugsað skynsamlega komst ég að einu rökréttu niðurstöðunni; þetta gat bara ekki verið.
Þegar glæpakvikindinu hafði verið sturtað út í sjó fór ég að reifa málið við klanið. Það var sameiginleg niðurstaða að í okkar ætt eldist fólk vel og heldur sínum háralit langt fram á sextugsaldur. Langlíklegasta skýringin var að sjálfsögðu að einhvern tíma hefði ég særst á höfði og væri með ör í hársverðinum og þess vegna yxi þetta hár litlaust. Auðvitað! Hvernig gat mér dottið annað í hug?
Það var því afskaplega ánægð og ung kona sem skoppaði út í vorið. Þó var einhver illur grunur á sveimi í undirmeðvitundinni sem olli miklu heilsuátaki. Reykingum var snögghætt og mikið af bætiefnum keypt, sérstaklega B-vítamín fyrir hárið, og E sem er andoxunarefni. (Það er sérstaklega mælt með andoxunarefnum í Hættum að eldast.) Er þá ónefnt rakakremið sem er orðið daglegur gestur á mínu skinni, nuddað vel í kringum augun. Einnig er ég algjörlega hætt að hnykla brúnir gáfulega og bregð ekki upp brosi nema bráðfyndið sé.
Eins og hára er siður óx óskapnaðurinn upp aftur. Sem væri í lagi ef það væri ekki gróft eins og gaddavír og stendur því beint upp í loftið svo það sjáist nú örugglega úr öllum áttum. Verra er að albinóinn minn er ekki einstæðingur lengur heldur er að selflytja ættingja sína á höfuðplánetuna. Og ég hef sterklega á tilfinningunni að þetta sé ekki stutt kurteisisheimsókn. Hvert nýtt hár olli svitakófi, fyrirbæri sem var ekki til að bæta líðanina. Seinna var mér sagt að ef ég fyndi hvítt hár þá mætti ég alls ekki slíta það því þá fengi ég tíu í staðinn. Það hefði verið gott að vita það áður en morðið var framið! Það styður enn örakenninguna að boðflennurnar eru allar hvítar. Hins vegar átta ég mig ekki á hvernig öll þessi ör gátu allt í einu dottið ofan á hausinn á mér þar sem ég man ekki til þess að hafa dottið á hausinn síðastliðin tuttugu ár. En ef höfuðáverkarnir hafa verið mjög slæmir þá er kannski ekki nema von að ég muni ekki eftir þeim? Reyndar er ég að verða afhuga örakenningunni. En eitthvað er það. Og nú færðist grunurinn á sjampóið. Ég er búin að prófa allar fáanlegar tegundir en þessi hvítu láta ekki bugast. Hvað sem þessu veldur virðist skynja söknuð minn eftir dökkum hárum og færir mér sárabætur. Nýverið fann ég eitt dökkt á efri vör. Mikið varð ég glöð.
Ég virðist ekki eiga um marga kosti að velja í stöðunni en að viðurkenna staðreyndir. Ég er að reyna að líta þetta jákvæðum augum. Ég er búin að vera ung alla ævi svo nú er tímabært að prófa eitthvað nýtt. Það skal þó viðurkennt að það er hægara sagt en gert. Nú orðið fer ég ekki inn í apótek öðruvísi en að gjóa augum á pakkningar sem á stendur Just for the Gray. Gallinn er bara að þau eru ekki grá. Það er verið að snuða mig um millistig. Ég fer beint frá því að vera ung í það að vera gamalmenni. Svo ég er aðallega að velta því fyrir mér þessa dagana hvort ég eigi að fá mér bláan eða lillaðan tón í hvíta hárið mitt.
miðvikudagur, nóvember 13, 2002
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Færsla Lögreglunnar á Norðurlandi eystra
Það mun mér hæfara fólk fjalla um þessa færslu Lögreglunnar á Norðurlandi eystra en það eru nokkrir hlutir í þessu sem mig sem almennur áhor...
-
Ég birti hér nokkrar færslur af Facebook, lítillega uppfærðar. I. Framboðið sjálft. Af því að fólk hefur verið að lýsa undrun sinni á þeir...
-
Fyrir nokkrum árum síðan setti ég fyrirspurn inn á Turn-it-in grúppu á Facebook. Turn-it-in er forrit sem við kennarar notum til að sjá hv...
-
Ágæti Ingi Freyr. Ég las pistil þinn Það sem við tölum um þegar við tölum um mafíósa í Skagafirði sem birtist á vef Stundarinnar nýlega...
Engin ummæli:
Skrifa ummæli