miðvikudagur, janúar 08, 2003

Eftir á að hyggja þá er kannski ekkert skrítið að ég finni ekki fyrir fráhvarfseinkennum þar sem ég var mjög forsjál og fjárfesti í staðgengilsplástrum. Ég er með fjóra nikótínplástra og sjö súkkulaðiplástra. Ég get að vísu ekki hreyft mig án þess að einhvers staðar togi í límingu en ég finn alla vega ekki fyrir fráhvarfi. Enda kannski ekkert fráhvarf í gangi! Það er betra að vera með nikótín substansa en að reykja, ég fer ekki ofan af því. Fyrst þarf maður að venja sig af atferlinu áður en maður tekur á fíkninni.
Undanfarna 7-8 mánuði er ég búin að vera með vægan en undarlegan verk í efri hægri rasskinn. Hvarflar auðvitað ekki að mér að leita rannsókna þar sem maður flaggar nú ekki hverju sem er framan í hvern sem er. En nú er þessi verkur að versna og breiða úr sér, farinn að fikra sig inn á mitt mjóbak og leiðir niður í hægri fót. Ég hef skelfilegar áhyggjur af því að ég sé að fá brjósklos þótt sumir nefni líka klemmda taug. Ef þetta er brjósklos þá þarf ég að fara í sjúkraþjálfun og láta hamast á áðurnefndu svæði sem er ekki tilhlökkun en hvernig er klemmd taug löguð? Ég sé fyrir mér skurð og svo flísatöng sem er notuð til að toga út taugina. Ég vona að mér skjátlist í því efni.
Þessi verkur kom í kjölfarið á heilsuátaki sem fólst í því að hjóla í vinnuna. Alltaf hef ég vitað að það væri stórhættulegt að hreyfa sig! En það er alla vega augljóst að ég neyðist til að láta kíkja á þetta. Helvítis helvíti að besti læknirinn sé í Svíþjóð.

Er það bara mín tölva eða er eitthvað rugl á Blogger? Bloggsíðurnar rúlla allar til og frá.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli