Manifesto
Þar sem mér varð það á að leggja orð í belg um meinta krísu drengja í grunnskólum landsins þá ætla ég að gera formlega grein fyrir skoðun minni á þeim málum.
Skólinn er fundinn upp af karlmönnum fyrir drengi og er sniðinn að þörfum og þroska drengja. Stúlkur eru fljótari að þroskast en drengir en námið þyngist ekki verulega fyrr en um gagnfræðiskólaaldur þegar drengirnir eru að ná stúlkunum í þroska. Mér er minnisstætt að hafa heyrt að stúlkum myndi henta betur að læra önnur tungumál fyrr en þau eru kennd í grunnskóla. Lengi vel máttu stúlkur ekki einu sinni læra hvað þá fara í skóla. Langt fram eftir síðustu öld voru karlkennarar í meirihluta í grunnskólum landsins þótt kynjahlutfall nemanda hafi verið svipað enda almenn skólaskylda sett á 1907. Engu að síður þá nægir að fletta útskriftarbókum frá framhaldsskólum landsins langt fram á síðustu öld til að sjá að mikill meirihluti nemenda í framhaldsskólum voru drengir. Og ég held að það sé tiltölulega nýskeð að stúlkur urðu fleiri í háskólum landsins. Stúlkur voru að verða fleiri um það leyti sem ég var í framhaldsskóla enda byrjuðu þá að heyrast raddir þess efnis að: ,,Menntunin er nú ekki allt." Þessi mikla menntun kvenkynsins hefur ekki skilað sér í auknum launum og eru konur enn þá hálfdrættingar á við karlmenn í launum.
Nú er sem sagt þessi umræða komin upp að skólakerfið henti drengjum ekki nógu vel af því að stúlkurnar eru að standa sig betur. Sér í alvöru enginn að það er eitthvað rangt við þessa umræðu? Af hverju mega stúlkurnar ekki standa sig betur? Þegar stúlkur stóðu sig verr þá var hlegið og hæðst að allri umræðu um kynbundna slagsíðu í skólakerfinu. Ég lifði þá tíma að það var beinlínis ,,ókvenlegt" að vera góð í raungreinum. Slæmt gengi stúlkna í raungreinum var alltaf afsakað með því að þær voru bara ekki nógu klárar. Og nú má velta fyrir sér af hverju raungreinum er gert svona hátt undir höfði.
Rannsóknir sýna að drengir fá 90% af athygli kennarans. Rannsóknir sýna líka að þótt stúlkur rétti oftar upp hönd þá eru drengir oftar spurðir. Mér finnst þessi umræða fáránleg. Skólakerfið hefur ekki breyst að neinu ráði seinustu 50 eða 60 ár. Skólastofa, kennari, bekkur og bækur. Hvað hefur breyst? Jú, það má ekki lengur lemja börn. Voru það barsmíðarnar sem hentuðu drengjunum svona vel? Ég efast um það. Svo eru konur í meirihluta starfsliðsins. Hvað á að gera? Setja kynjakvóta? Það er allt í lagi mín vegna. Ég treysti auðvitað á að þá verði settir kynjakvótar víðar. Eins og t.d. í stjórnunarstöðum.
Það sem hefur breyst sem ég tel að hafi mesta þýðingu er sjálfstraust stúlknanna og sú vitneskja þeirra að þær megi gera eitthvað annað í lífi sínu en verða heimavinnandi húsmæður. Mér finnst það alveg með ólíkindunum að konur megi bera skarðan hlut frá borði árum, áratugum og öldum saman og það sé allt í lagi en þegar stúlkur skara fram úr drengjum í einhvern tíma þá er rokið upp til handa og fóta og allt sett í gang til að ,,leysa vandann."
Að þessu sögðu þá ætla ég aðeins að deila reynslu minni úr grunnskólanum. Ég verð ekki vör við þennan mun í skólanum mínum. Besti nemandinn minn er drengur. Af fjóru hæstu nemendunum í skólanum eru tveir drengir og tvær stúlkur. Af þremur meðlimum spurningaliðsins okkar sem varð hverfismeistari um daginn er ein stúlka og tveir drengir. Ræðumaðurinn okkar var stúlka. Í liði Breiðholtsskóla sem var keppt við voru þrír drengir og ræðumaðurinn drengur. Í beinu framhaldi má benda á kynjaskiptinguna í Gettu betur keppninni.
Hins vegar vil ég taka það fram að ég hugsa ekki um nemendur mína sem stráka og stelpur. Þeir eru einstaklingarnir Jón og Gunna, Siggi og Stína. Ég verð ekki heldur vör við svona kynbundna hugsun hjá öðrum kennurum þótt hún hljóti eflaust að sleppa inn einhvers staðar. Við erum jú bara mannleg. Reyndar til að gæta allrar sanngirni þá var stelpustóð í skólanum í fyrra sem var með svolítið vesen og var tekið á.
Því miður sýnir samanburður við aðra skóla á samræmdum prófum að skólinn minn kemur ekki nógu vel út. Það eru ýmsar ástæður fyrir því sem ég ætla ekki að tíunda hér. En það liggur ljóst fyrir að bóklegt nám hentar ekki öllum. Og ég vil halda mig við einstaklingsmuninn hér, því þótt tölfræði sýni lítillega að stúlkur séu almennt betri í þessu en drengir almennt betri í einhverju öðru þá sýnir tölfræðin að einstaklingsmunurinn er mun meiri.
Nú hefur verið rætt talsvert um einstaklingsmiðað nám. Einstaklingsmiðað nám inni í bekk gengur ekki upp. Á fyrsta árinu mínu reyndi ég að verða við þessu og var komin með þrefalt námsefni í gang þegar ég sá að ég hafði hvorki tíma né orku til að standa í þessu. Ég sagði Gerði fræðslustjóra frá þessu á fundi nýverið og hún var alveg sammála mér. Enda stendur til að leggja niður bekkjarkerfið. Það breytir að sjálfsögðu öllu. Þá myndi hver einasti kennari í skólanum, list- og verkgreinakennarar líka, vera með 15 nemendur í umsjón og útbúa ásamt nemandanum og foreldrum hans námsáætlun fyrir nemandann.
Í fyrra var ég þátttakandi í teymi sem var að þróa samstarf bók-, list- og verkgreina. Við gerðum tilraun í samfélagsfræðinni hjá mér þar sem krakkarnir máttu skila verkefni um Jón Sigurðsson hvernig sem þau vildu, bara ekki skriflega. Ég kenndi báðum 8. bekkjunum þá og leyfði þeim að flæða yfir bekkjarlínur. List- og verkgreinakennararnir og tölvukennarinn voru með í þessu. Verkefnin sem ég fékk voru kvikmynd, útvarpsþáttur, tréristur, minningabók, vefsíður, flettiplakat og myndasaga. Að öðrum ólöstuðum þá ætla ég að segja frá myndasögunni. Drengurinn sem teiknaði hana er mjög listrænn og teiknaði mjög skemmtilega. Jón og Ingibjörg voru skopparar og mikill húmor í sögunni. Það eru alveg hreinar línur að þessi drengur veit allt um Jón Sigurðsson og ég er sannfærð um að hann lærði meira með þessari aðferð. Ég er reyndar sannfærð um að flestir lærðu meira. Ég var með vefsíðu um þetta en svo var skipt um vefþjón svo síðan er ekki lengur á vefnum. Ég get samt örugglega sett hana upp aftur.
Einstaklingsmiðað nám miðar að því að koma til móts við nemandann þar sem hann er sterkur og leyfa honum að nálgast námsefnið á sínum forsendum. Námsefnið er það sama og niðarstaða námsins verður svipuð þótt leiðin að markmiðinu sé margvísleg.
Í Fellaskóla stendur til að opna Listasmiðju sem ég held að muni nýtast okkur frábærlega í einstaklingsmiðuðu námi. Því miður stendur okkur fjárskortur fyrir þrifum. Og ég held að hann standi ansi mörgum grunnskólum fyrir þrifum. List- og verkgreinar sitja á hakanum af því að þær eru dýrari en þær bóklegu. List- og verkgreinar eru þær greinar sem margir krakkar myndu njóta sín mjög vel. Í Fellaskóla er mikið tónlistarlíf, alla vega tvær hljómsveitir starfræktar, mikill áhugi á leiklistinni og margir mjög drátthagir. Þessa getu getur maður nýtt til náms eins og ég sagði áðan. Nú ætlum við 8. bekkjar kennarar í íslensku að samhæfa okkur og fara í Gunnlaugs sögu Ormstungu á sama hátt, leyfa þeim að skila hvernig sem er. Og ég hef fyllstu trú á að það verði mjög skemmtilegt.
Tilgangurinn með þessum langa pistli er sá að mér finnst kynbundin umræða vera á villigötum. Ég vil beina athyglinni að einstaklingnum og leyfa öllum að njóta sín.
laugardagur, febrúar 05, 2005
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Færsla Lögreglunnar á Norðurlandi eystra
Það mun mér hæfara fólk fjalla um þessa færslu Lögreglunnar á Norðurlandi eystra en það eru nokkrir hlutir í þessu sem mig sem almennur áhor...
-
Ég birti hér nokkrar færslur af Facebook, lítillega uppfærðar. I. Framboðið sjálft. Af því að fólk hefur verið að lýsa undrun sinni á þeir...
-
Fyrir nokkrum árum síðan setti ég fyrirspurn inn á Turn-it-in grúppu á Facebook. Turn-it-in er forrit sem við kennarar notum til að sjá hv...
-
Það mun mér hæfara fólk fjalla um þessa færslu Lögreglunnar á Norðurlandi eystra en það eru nokkrir hlutir í þessu sem mig sem almennur áhor...
Flott grein og gaman að lesa þessar pælingar hjá þér. Verð samt að viðurkenna að ég hef haft talsverðar áhyggjur af stöðu drengja í skólakerfinu undanfarin ár. Það er ekki bara hérlendis heldur um allan heim sem drengir eru að dragast aftur úr stúlkum í námi. Ég hef velt fyrir mér hverjar skýringarnar gætu verið.
SvaraEyðaa)Stúlkur eru bara klárari
b)Stúlkum er sinnt betur í skólakerfinu
c)Skólakerfið er miðað að stúlkum í ríkara mæli en drengjum
d)Það er eitthvað í samfélagsgerðinni sem virkar letjandi gagnvart því að drengir leggi sig fram í námi e)Ekkert af þessu.
Ég er sammála þér í því að við gefum drengjum oft meiri gaum í kennslu (bæði á jákvæðan og neikvæðan hátt) og skólakerfi sem hentaði drengjum á árum áður virðist ekki henta þeim í dag. Þannig má segja að liðir b) og c) eigi ekki við. Það er sjálfsagt hægt að deila um það hvort stelpur séu klárari en við skulum ganga út frá því að kynin séu ákaflega svipuð að greind svo skýring a)á ekki við heldur. Ég hallast frekar að því að þetta séu samfélagsleg uppeldisáhrif sem virki svona neikvætt á drengi. Oft á hér veik föðurímynd sök, skortur á jákvæðri fyrirmynd. Strákar hafa samt meira sjálfsálit ( sem engin innistæða virðist vera fyrir?) og finnst þeir kannski ekki þurfa að vinna eins mikið fyrir hlutum og stúlkur virðast gera. Sjálfsagt er hægt að finna fleiri skýrirngar en ég læt öðrum það eftir.
Er mjög hrifin af þessu sem þið í Fellaskóla virðist vera að gera fyrir ykkar unglinga. Ég held að einstaklingsmiðað nám hljóti að vera svarið í skólakerfinu en er það nóg ef samfélagið styður ekki með markvissum hætti við það sem er verið að gera þar?
....sorry hvað þetta er mikil langloka :-)
Ekkert að afsaka, mjög góðir punktar. Ég hef enga trú á því heldur að stelpur séu eitthvað klárari en strákar en gætu mögulega verið samviskusamari. Ég held líka að það væri gott að hafa fleiri karlmenn inni í grunnskólanum, bæði upp á jákvæðar fyrirmyndir og fjölbreytni.
SvaraEyðaEn þegar upp er staðið þá á kyn, trú og litarháttur ekki að skipta máli. Og það er markmiðið sem við eigum að stefna að.
Hæ Ásta.
SvaraEyðaÉg les bloggið hennar mömmu, þar sem þú sást þér fært að kommenta áður en þú ákvaðst að málfrelsi þitt væri fótum troðið þar svo þú ákvaðst að blogga einfaldlega sjálf um nokkurnveginn sama mál, án þess að leyfa þeim sem eiga ekki blogspot-blogg að kommenta.
Ég hef sjálfur 10 ára reynslu af grunnskóla og tæplega 4ra ára af framhaldsskóla. Mín reynsla er sú að grunnskólinn er einfaldlega hannaður fyrir stelpur, það er að ótrúlega mörgu leyti miklu betra fyrir stelpur að ná háum einkunnum í grunnskóla. Það er nefnilega til eitthvað sem heitir "skólaeinkunn". HEimskulegasta fyrirbæri í heimi. Ef maður getur svarað prófinu kann maður fagið. Ef maður getur það ekki, kann maður það ekki. Það er ekki flóknara en það. Stelpur fá hins vegar hærri skólaeinkunn vegna þess að þær gera blóm og blúndur á spássíuna á sínum verkefnum, og tala með rödd sem lætur þær hljóma eins og þeir séu álíka greindar og meðalagúrka.
Ég skil ekki umræðu um kynjabundinn mismun á launum. Karlar og konur eru í sömu verkalýðsfélögum. Af hverju ættu konur að hafa lægri laun? Ef þær eru jafn hæfar í störfin, væri ekki betra fyrir atvinnurekendur eða ríkið að ráða fleiri konur og losa sig við þá karla sem eru ekki eins hæfir í störfin? Ef það er vandamál að það séu fleiri karlar í stjórnunarstöðum, af hverju koma konur sér ekki bara í stjórnunarstörfin? Þær hafa nákvæmlega jafna möguleika til þess. Ekki kannski jafn mikinn áhuga, en jafna möguleika.
Hvort sem þú verður vön við kynbundna hugsun í þínum skóla eða ekki þá er alveg staðreynd að hún er til staðar. Strákar sem dragast afturúr í námi eru upp til hópa einfaldlega "afskrifaðir" og sagt eitthvað á þá leið að "þeir fari þá bara í iðnnám", eins og það sé eitthvað ómerkilegra en annað nám. Grunnskólinn miðast allur að því að drulla nemendum yfir 5 á einhverjum samræmduprófum og viðhorfið innan hans er að eina leiðin til að það rætist úr fólki er að það taki stúdentspróf.
Ekki reyna að halda því fram að það sé einhverskonar jafnrétti kynjanna ríkjandi í grunnskólabekkjum þessa lands. Það er einfaldlega bara della, það sjá það allir að stelpur geta komist upp með miklu meira en strákar.
Ég þakka þeim er lásu, góðar stundir.
Sammála Ástu og Pullu að mörgu leyti. Þetta eru áhugaverðar pælingar. Ég held að því miður komi a.m.k. sumir kennarar ekki eins fram við kynin. T.d. var ég með raungreinakennara í 7. bekk sem sagði það fullum fetum að hann teldi ekki að kvenfólk hefði neitt að gera í raungreinum. Ekki var það mjög hvetjandi fyrir okkur stelpurnar. Ég fékk alltaf 10 í stærðfræði en fann ekki fyrir mikilli hvatningu til að halda áfram í stærðfræði eða raungreinum.
SvaraEyðaMér leiðast líka þessar staðalmyndir um þægar stelpur og óþekka stráka. Margar stelpur eru verulega bældar í skólanum, sem er ekki betra. Þó að þær fái hærri einkunnir, þá er sjálfstraust þeirra mun minna en strákanna. Ég sé ekki að umhverfið henti þeim betur en strákunum, þegar það skilar þeim með nákvæmlega ekkert sjálfstraust út í lífið.