mánudagur, október 03, 2005
Þar sem rúnturinn Aðaldalur-Reykjavík-Aðaldalur er talsverður spotti þá var kominn tími á að smyrja bílinn. Ég rúlla til Húsavíkur og inn þar sem ég sé fyrstu smurstöðina. Nei, þá eru menn löööngu hættir að smyrja þar en mér er bent á Bílaþjónustuna ehf. sem er rétt hjá. Ég fer þangað en enginn er inni svo ég fer alla leið inn á kaffistofu þar sem allir sitja í kaffi. Ég spyr hvort það sé hægt að fá smurningu á bílinn hjá þeim. Já, klukkan fjögur. Þá vantaði klukkuna tuttugu mínútur í. Ég fer út í Kaskó og versla sem tekur ekki nema tíu mínútur, þá dóla ég eitthvað og fer svo aftur á smurstöðina þegar klukkuna vantar 5 mínútur í. Aftur inn á kaffistofu þar sem allir eru í kaffi. Ég ákveð að reyna að slá á létta strengi og segi ,,Hva, voðalega gengur klukkan hægt hjá ykkur. Mín er orðin 5 mínútur í." Eina sem ég fæ við þessu er eitthvert ,,Jájá" svo er bara þögn og svipur. Mjög ákveðinn svipur. Ég hrökklast náttúrulega bara út svo ég sé ekki að trufla fólk í kaffitímanum með einhverju ómerkilegu eins og því að borga í laununum þeirra. Þar sem ég veit ekki um neina aðra smurstöð í bænum ákveð ég að láta mig hafa það og bíða. Rétt eftir fjögur, þegar útvarpið er búið að hringja inn fréttir, er opnað. Svo er bíllinn smurður, örugglega ágætlega. Þegar ég fer að borga þá spyr ég smurmanninn og gjaldkerann hvort það sé almennur siður í bænum að allir sitji í kaffi á sama tíma, ég sé nýflutt norður og þekki ekki allar venjur. Jú, jú, það er víst tilfellið, allir í kaffi milli hálffjögur og fjögur. Nema í búðunum þar sem er skipst á að fara í kaffi. En svona sé þetta í öllum þjónustufyrirtækjum. Ég segist ekki kannast við þetta úr Reykjavík en það sé gott að vita þetta. Þá segir maðurinn að þeir þurfi að vinna svo lengi til sex og sjö á kvöldin og þurfi því pásu. Skil það, mér finnst bara undarlegt að það þurfi allir að vera í pásu á sama tíma. Læt hins vegar ónefndan þann möguleika að kannski myndi upsskiptur kaffitíma auka framleiðni svo þeir þyrftu ekki að vinna svona lengi. Svo spyr ég hvort það sé önnur smurstöð í bænum. Sem betur fer er það. En ,,það er örugglega svona þar líka." Það getur vel verið það er bara gott að hafa val. Það var augljóst að viðmælendum mínum fannst eitthvað að sér vegið enda get ég líka sett upp svip og ákveðna tóna í röddina. Hin smurstöðin selur líka dekk svo ég get keypt nagladekkin hjá þeim. Því ég mun ekki ónáða Bílaþjónustuna aftur með viðskiptum mínum. Hvorki í kaffitímanum né á öðrum tímum.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Færsla Lögreglunnar á Norðurlandi eystra
Það mun mér hæfara fólk fjalla um þessa færslu Lögreglunnar á Norðurlandi eystra en það eru nokkrir hlutir í þessu sem mig sem almennur áhor...
-
Ég birti hér nokkrar færslur af Facebook, lítillega uppfærðar. I. Framboðið sjálft. Af því að fólk hefur verið að lýsa undrun sinni á þeir...
-
Fyrir nokkrum árum síðan setti ég fyrirspurn inn á Turn-it-in grúppu á Facebook. Turn-it-in er forrit sem við kennarar notum til að sjá hv...
-
Það mun mér hæfara fólk fjalla um þessa færslu Lögreglunnar á Norðurlandi eystra en það eru nokkrir hlutir í þessu sem mig sem almennur áhor...
Glööötuð þjónusta. Ég hefði verið búin að slaufa þessu. Hefði rúntað í annað bæjarfélag og látið smyrja bílinn þar. Isss... vantar alveg smá þjónustulund til Húsavíkur. Þekki reyndar nokkra jeppamenn þarna, þeir eru voða liðlegir. Líka skemmtilega klikkaðir og það bætir upp ýmislegt.
SvaraEyðaÉg vissi ekki hvort það var önnur smurstöð í bænum og var komin talsvert yfir á mælinum. Ég hef aldrei fengið annað en kurteisi og elskulegheit á Húsavík og því kom mér þetta á óvart. Sagði þessa sögu í dag og margir sem kannast við heilaga kaffitímann. Samt sem áður get ég alveg þolað kaffitímann, það var dónaskapurinn sem fór í pirrurnar.
SvaraEyðaÉg veit að ég gæti verið að fara á hálan ís.. en það verður bara að hafa það.
SvaraEyðaer þetta ekki spurning um menningarárekstra? Þeir hafa haldið að þú værir dæmigerður dóni frá sunnan sem virðir ekki hin heilaga kaffitíma. Kemur með heimtufrekju inná tíman þegar þeir eru að slappa af, það gæti verið ástæðan fyrir því að þeir hafa verið með dónaskap. Kannski ekki gert sér grein fyrir því að þú værir fávís um þessa siði?
Þeir höfðu bara enga hugmynd um að ég væri að sunnan. En ef þeir vissu það þá ættu þeir þess heldur að átta sig á að mér væri ókunnugt um siðinn. Auk þess var ég mjög kurteis í upphafi.
SvaraEyðaEn ég hef rætt þetta við heimafólk hér og því finnst heilagi kaffitíminn frekar hallærislegur og dónaskapurinn er víst alræmdur. So you see, it's not only me:)