fimmtudagur, maí 15, 2014

Skólastefna Sveitunga - Lengi getur vont versnað

Það eina sem er verra en skólastefna Samstöðu er skólastefna Sveitunga.
Til er orðatiltæki sem er einhvern veginn á þá leið að fólk eigi að læra af reynslunni. Fólk er misduglegt við það en að læra nákvæmlegt ekkert er frekar sjaldgæft. Það tekst þó stundum eins og eftirfarandi stefnuyfirlýsing ber með sér.
Undanfarin tvö ár hefur Þingeyjarskóli verið rekinn í sveitarfélaginu. Einhvers konar hálfkáks sameining Hafralækjarskóla og Litlulaugaskóla, tvær starfsstöðvar undir einum stjórnanda. Reynslan af því er ömurleg. Hún er hreint hörmuleg. Hún er svo ömurleg að það er verið að kaupa utanaðkomandi hjálp fyrir starfsfólkið því líður svo illa. Samt er þessi sameining algjörlega byggð á hagsmunum starfsfólksins. Ef það er eitthvað sem er öruggt í lífinu fyrir utan dauðann og skattana þá er það þetta:
Það er ekki hægt að reka skóla í Þingeyjarsveit á nokkrum starfsstöðvum undir einum stjórnanda.

Stefna Sveitunga.

Því óvissuástandi sem nú ríkir varðandi skólastarf í Þingeyjarsveit þarf að linna.
Deili ekki við ykkur þarna. 
Verulegur ágreiningur er innan sveitarfélagsins varðandi stefnu í fræðslumálum.
Þess vegna kjósum við fulltrúa til að taka erfiðar ákvarðanir fyrir okkur. Furðulegt að ekki einn einasti frambjóðandi skuli átta sig á þessu,
 Ein forsenda þess að breytingar heppnist vel er að þær séu vel ígrundaðar  og nauðsynlegra upplýsinga sé aflað.
Mikið rétt. Það er búið að ræða þetta fram og til baka í mörg ár og skrifa ÞRJÁR skólaskýrslur um málið. Einhvern tíma verður að hætta að ígrunda og taka ákvörðun.
Nokkrir valkostir eru fyrir hendi varðandi framtíð skólastarfs í Þingeyjarsveit og því er hafnað íbúakosningu í hluta sveitarfélagsins um einungis tvo valkosti þar sem fleiri möguleikar virðast til staðar.
Sammála því enda er ég sannfærð um að íbúakosning meðal hluta útsvarsgreiðenda sé kolólögleg.
Stefnt skal að því að sameina alla grunnskóla sveitarfélagsins (að meðtöldum leikskóladeildum, þremur eða fleiri og tónlistardeildum) í eina stofnun,  með einum yfirmanni.
Fínt.
Í framhaldi af því þarf að gera kostnaðargreiningu á þeim valkostum sem fyrir hendi eru, leggja mat á félagsleg áhrif þeirra og taka tillit til hagsmuna barna í sveitarfélaginu.
Guð minn almáttugur! Hvaða endalausa ákvarðanafælni er þetta? Það er búið að ræða þetta ofan í kjölinn. Nokkrum sinnum! En þið fáið samt stóran plús fyrir að nefna börnin. Samstaða virðist ekki átta sig á að það eru börn í skólanum líka.
Einnig þarf að meta með hvað hætti hin mismunandi skólastig geta best stutt hvert annað.
Skoða þarf eftirtalda valkosti sérstaklega.

  • Einn skóli  með þremur starfstöðvum og litlum breytingum öðrum en þeim að  kennarar væru ráðnir að sameiginlegum skóla (sem gæti leitt til betri nýtingar á starfsliði).                       Bíddu, bíddu nú við! Við erum með reynslu af Þingeyjarskóla sem er rekinn með tveimur starfsstöðvum. Það gengur mjög illa. Hverjar, nákvæmlega, eru líkurnar á því að þetta gangi betur með þremur starfsstöðvum?

  • Einn skóli á þremur starfstöðvum en 8. – 10. bekkur á einum stað. (Áfram reknar leikskóladeildir á þremur til fjórum stöðvum og tónlistardeild á hverri starfstöð.)                 Sama athugasemd og að ofan.

  • Einn skóli á tveimur starfstöðvum.                                                                                            And, yet again.
Niðurstöður ofangreindra athugana á valkostum skal kynna íbúum sveitarfélagsins á fyrstu mánuðum ársins 2015. Stefnt skal að því að framtíðarstefna í skólamálum sveitarfélagsins  liggi fyrir á árinu 2015.
Já, já, allt í lagi, tímamörk eru alltaf ágæt.

Það eru tveir kostir í viðbót sem þyrftu nauðsynlega að vera í stefnunni.
  • Sameina Þingeyjarskóla strax undir eitt þak, því það fyrirkomulag er ekki að virka. (Please, stop flogging that dead horse.)
  • Sameina skólana á einum stað undir einum stjórnanda. Það er nefnilega eina fyrirkomulagið sem er líklegt að gangi. Skólar sem hafa verið sameinaðir á sama stað, ganga vel.    
                Og nú ætla ég að upplýsa um leyndarmálið mikla sem engin(n) virðist átta sig á:

Það skiptir engu máli hvar skólinn er.

4 ummæli:

  1. Sæl Ásta.
    Ummælum mínum við aðra bloggfærslu hjá þér varðandi rakalausar fullyrðingar var ekki beint gegn þér sérstaklega eða einhverju sem kom fram í þeirri færslu. Ég sé hins vegar þegar ég les þessa færslu þína hér ýmislegt sem mig langar til þess að gera alvarlegar athugasemdir við. Fyrst skal taka það fram að þó svo að nafn mitt sé ekki að finna á framboðslista Sveitunga þá tek ég þátt í vinnu með þeim sem þar bjóða sig fram. Ég kom þannig að vinnu við punkta um skólamál sem settir voru fram fyrir umræðufund sem haldinn var í Dalakofanum um síðustu mánaðarmót en ég kom ekki að vinnu við skólastefnu Sveitunga eins og hún lítur út í dag. Ég mun því frekar beina sjónum mínum að öðru en því að verja stefnu framboðsins enda lít ég svo á að það sé frekar hlutverk þeirra sem eru í framboði.

    Ég hef lýst því yfir víða að við sameiningu Hafralækjarskóla og Litlulaugaskóla hafi verið gerð mörg mistök Og ég tel að sá vandi sem upp hefur komið við þetta rekstarfyrirkomulag megi að stærstum hluta rekja til þeirra. Engu síður verð ég að gera athugasemd við það þegar þú fullyrðir að reynslan af þessu sé "ömuleg" og "hörmuleg". Ég tel líka engar forsendur til þess að fullyrða, þrátt fyrir þann vanda sem er í Þingeyjarskóla, að ekki sé hægt að reka skóla í Þingeyjarsveit á nokkrum starfstöðvum undir einum stjórnanda. Það er nefnilega hægt að gera margt öðruvísi en gert hefur verið í tilfelli Þingeyjarskóla.
    Niðurstöður úr nýlegri könnun sem sálfræðingur gerði hjá starfsfólki Þingeyjarskóla styðja ekki þær fullyrðingar þínar að starfsfólkinu líði almennt illa. Koma sálfræðingsins í skólann finnst mér hins vegar fela í sér viðurkenningu núverandi meirihluta í sveitarstjórn (þau samþykktu jú fjárveitingu á vinnu hans) á því að alvarlegir misbrestir hafi verið á framkvæmd sameiningarinnar.

    Þær skólaskýrslur sem gerðar hafa verið hafa, að ég tel, sýnt svo ekki verður um villst að það skiptir töluverðu máli hvar skóli er, og ekki síður hvar hann er ekki. Það litla fylgi sem það framboð fékk sem þú tókst þátt í fyrir síðustu sveitarstjórnarkosningar gefur líka vísbendingu um það að fólkið í sveitarfélaginu vill ekki þá lausn að öll börnin séu í skóla á einum stað (þó svo að kannski megi reikna það út að það sé peningalega ódýrast). Hlutverk fulltrúa er vissulega að axla ábyrgð og þora að taka ákvarðanir en það er líka hlutverk þeirra að hlusta á fólkið sem veitti þeim umboð sitt.

    Hvernig væri að við reyndum öll að beina athyglinni að jákvæðum og góðum atriðum í viljayfirlýsingum þeirra sem eru að bjóða sig fram til sveitarstjórnar í stað þess að rífa það allt niður. Ég held líka að þá verði ábendingum okkar betur tekið varðandi það sem ekki er nú nógu gott.

    SvaraEyða
  2. Þessi ummæli hafa verið fjarlægð af höfundi.

    SvaraEyða
  3. Starfsfólk skólans hefur sjálft sagt mér að því líði illa. Mikil veikindaforföll styðja það. Foreldrar hafa sjálfir sagt mér að þeir og börn þeirra séu óánægð með ástandið í skólanum. Það er gott að það er minnihlutinn. Af hverju í ósköpunum er sálfræðingur að vinna með starfsfólkinu fyrst öllum líður svona vel?
    Að endingu minni ég á að ég er að skrifa á mitt persónulega blogg, ekki fréttamiðil, og hef fullt leyfi til að tjá mínar skoðanir og hugsanir. Þeir sem eru ósáttir við það geta sleppt því að lesa bloggið.

    SvaraEyða
  4. Þá eru niðurstöður komnar í hús og ljóst að íbúar Þingeyjarsveitar hafa hafnað þremur starfsstöðvum. Ég vona að nýkjörnir fulltrúar hlusti á fólkið sem veitti þeim umboð sitt.

    SvaraEyða

Færsla Lögreglunnar á Norðurlandi eystra

Það mun mér hæfara fólk fjalla um þessa færslu Lögreglunnar á Norðurlandi eystra en það eru nokkrir hlutir í þessu sem mig sem almennur áhor...