Söknuður

Það kemur einstaka sinnum fyrir að ég sakna Reykjavíkur. Að sjálfsögðu væri það ósköp notalegt að geta ,,skotist" út í búð eða ,,skroppið" í bíó. Jafnvel lifað af kraftmikið hjartaáfall. En það er ekki þess sem ég sakna. Sú Reykjavík sem ég sakna er ekki lengur til.
Þegar þessi tilfinning grípur mig þá fylgir henni angurværð og iðulega sveimar hugurinn til Menntaskólans í Reykjavík og svo Háskóla Íslands. Þegar hugurinn skreppur í þessi ferðalög þá er ég
á gangi í borginni á leiðinni til eða frá öðrum skólanum en þriðji punkturinn er Skólavörðustígur 23 þar sem afi og amma bjuggu.
Mig minnir að það hafi verið um það leyti sem ég var að fara í samræmdu prófin að pabbi stakk upp á því að afi myndi hjálpa mér með námið. Ég var nefnilega svarti sauðurinn í þeim efnum. (Djöfulleg samkeppni á ætternisstapanum.) Afi nýkominn á eftirlaun og þetta þótti pabba alveg heillaráð. Ég samþykkti þetta enda nýbúin að gera samning við foreldrana þess efnis að næði ég fjórum 9 á samræmdu þá fengi ég stærsta herbergið. (Tókst ekki, 3x8 og 1x7.)
En þar sem þetta samband var komið á þá hélt ég áfram að mæta á Skólavörðustíginn og læra.
 Afi gekk alltaf mikið og fór oft út að ganga með barnabörnin. Mér þykir ósköp ljúft að vita að Ármann Jakobsson gengur enn um Reykjavík með barn sér við hönd.
Við afi fórum líka oft út að borða í hádeginu og þá röltum við um Reykjavík. Það er sem sagt þetta rölt um gömlu Reykjavík sem ég sakna. Ég sakna þess að rölta um með afa. Ég sakna ömmu og pabba. Ég sakna gömlu Reykjavíkur og ég sakna ungu mín.
Þegar þetta gerist þá halla ég mér aftur með kaffibollann og leyfi mér að sakna... í smá stund.

Ummæli

Vinsælar færslur af þessu bloggi

Krossinn sem ég ber

Vandamál og lausnir