Það er innbyggt í allar skepnur jarðarinnar að vilja halda
lífi. Það er grundvöllurinn fyrir öllu öðru. Til þess að við getum haldið lífi
þá verðum við að borða og njóta skjóls frá veðri og vindum. Almennt þekkjum við
ekki langvarandi hungur né hræðsluna við að hafa ekki þak yfir höfuðið. Engu að
síður er það blákaldur raunveruleiki fátækra kvenna í Reykjavík. Lög um
atvinnuleysistryggingar voru ekki sett fyrr en 1956 og þetta öryggisnet er alls
ekki sjálfgefið.
Nú þurfum við flest ekki að lifa frá degi til dags svo við
erum ekki meðvituð um þessa lífshvöt en það er nákvæmlega þetta sem stjórnar
okkur. Sérstaklega ef við eigum börn líka. Við erum á fullu að tryggja „okkur“
(mér og mínum) mat og húsaskjól núna og í nánustu framtíð. Og helst að reyna að
ná í örlítið meira, pínu svona varaforða til öryggis. Það er ekkert
launungarmál að ef það skellur á hungursneyð og valið stendur á milli þess að mín
börn eða þín fái að borða þá vel ég mín. Alltaf. Undantekningarlaust. Þú getur
reynt að halda því fram að þú myndir skipta jafnt á millii en þú gerir það ekki
þegar á reynir. Og það er fullkomlega eðlilegt. Þetta heitir sjálfsbjargarhvöt.
Það er mjög vont að vera ekki sjálfbjarga. Af því það er svo vont þá reynum við
að sannfæra okkur um að það sé viðkomandi sjálfum að kenna.
http://openforwardthinking.blogspot.com/ |
Sem betur fer eru flestar siðmenntaðar þjóðir með
velferðarkerfi og m.a. við Íslendingar. Hugsunin er afskaplega falleg. Það fólk
sem lendir í slysum eða veikindum á rétt á mannsæmandi lífi. Líka fólk sem
missir vinnuna einhverra hluta vegna. En af því að „þetta fólk“ lifir á
vinnunni „okkar“ og er þ.a.l. að taka eitthvað frá okkur þá leyfum við því
alveg að finna að þetta er ekki alveg í lagi. Af því að auðvitað, auðvitað
eru einhverjir að misnota kerfið. Örugglega meirihlutinn ef grannt er skoðað.
Hans Miniar Jónsson skrifaði góða
glósu nýverið á Facebook þar sem hann lýsir þessu. Hann talar um
ævintýrahugsun, sem er frábært hugtak, og lýsir sér svona:
Í ævintýrunum endar sagan svo að fólk fær það sem það á skilið, bæði hamingju og ríkidóma og við flest höfum heyrt ævintýrin jafnvel áður en við gátum skilið orðin. Við erum uppalin með þessa hugsjón að bara ef við erum góð þá verðum við rík og haminjusöm, og ef við erum vond þá missum við allt.
Innst inni, þótt við viðurkennum það auðvitað aldrei, þá
finnst okkur þetta vera viðkomandi sjálfum að kenna. Hann er að gera of mikið
úr veikindum sínum, hann hefur gert eitthvað til að verða rekinn eða nennir
hreinlega ekki að vinna. Þetta er einfaldlega
rangt. Það gerir það enginn að gamni sínu að fara á atvinnuleysisbætur. Það
er óendanlega
andstyggilegt
að eiga lífsviðurværi sitt undir Vinnumálastofnun.
En það er bara svo miklu auðveldara að hugsa svona. Það er
svo miklu þægilegra að geta sannfært sjálfa/n sig um að þetta sé bótaþeganum
sjálfum að kenna því það minnkar líkurnar á að þetta komi fyrir „mig“. Þá þarf heldur ekki að breyta neinu né rugga
bátnum. Það er svo erfitt að viðurkenna að í rauninni er það ekki góða hetjan
sem hefur það best heldur sá sem er með bestu pólitísku tengslin eða fæddist inn í rétta
ættbálkinn. Ef við horfumst í augu við það þá þurfum við líka að horfast í augu
við að meirihlutinn af okkur á engan séns á því að komast á topp
metorðastigans.
Fyrir einhverju síðan las ég bók eftir P.D. James þar sem
löggan var ung kona sem hafði barist í bökkum alla tíð ræðir við konu sem var
afskaplega lífshrædd. Unga konan skildi það ekki því hún hafði alltaf verið
önnum kafin við það að lifa af.
Ég ætla ekki að halda því fram að fátækt komi í veg fyrir
hamingju. Hins vegar tel ég ljóst að fólk sem er stöðugt upptekið við það eitt
að hafa til hnífs og skeiðar njóti ekki nándar nærri jafn mikilla lífsgæða og
annað. Það hefur einfaldlega ekki tíma til að leita hamingjunnar. Þá er skömmin
sem fylgir þessum aðstæðum, vegna fordóma samfélagsins, verulega íþyngjandi.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli