mánudagur, júní 30, 2014

Tilgangur lífsins



Já, það er von að þið hváið, ef þetta er ekki menntaskólastöff þá veit ég ekki hvað. Enda var málefni krufið í botn aftur á bak og áfram margt kvöldið í kjallaranum í Álfheimum í góðum félagsskap yfir rauðvínsglasi (flöskum reyndar) og undirleik Leonard Cohen. 
En það er stundum gott að dusta rykið af gömlum hugsunum og skoða þær aftur. Auk þess sem þetta þjónar sem formáli að öðru.
Gallinn við að vera Hinn viti borni maður er að við gerum okkur grein fyrir þessu algjöra
tilgangsleysi lífs okkar. Stundum hef ég velt því fyrir mér hvort þessi þörf fyrir tilgang hafi komið með Guði eða hvort Guð hafi verið skapaður vegna þessa tilgangsleysis. Þessu hefur örugglega verið svarað einhvers staðar, einhvern tíma, einhvern veginn.
Það breytir því þó ekki að þegar Nietzsche tilkynnti andlát Guðs steyptist yfir (suma alla vega) ægilegt tilgangsleysi.
Það er óneitanlega erfitt að horfast í augu við að allar okkar siðareglur, allar okkar hugmyndir um lífið og tilveruna eru okkar (og langalangalangalangaafa og –ömmu) og einskis annarra. Það er ljótt að drepa hvert annað af því að við ákváðum það. Við hefðum alveg getað ákveðið að það væri í góðu lagi líka. Enginn Guð, enginn æðri máttur, bara ég og þú. Skrambi scary.
Og hver er þá tilgangurinn með öllu þessu veseni í þessum volaða táradal ef það er enginn að telja stigin? Engir uppsafnaðir Vildarpunktar í Paradísarferðina?
Það er auðvitað ósköp notaleg tilhugsun að til staðar sé æðri vera (hún Guð finnst mér þægileg tilhugsun) sem skilur mig. Veit að ég er ágæt inn við beinið og hleypir mér inn í Himnaríki þegar þar að kemur. Þar sem ég fæ að sveima um í hvítum kyrtli og spila á hörpu... til eilífðarnóns... Ég skal viðurkenna að ég skil ekki alveg þessa löngun í eilíft líf. Mig grunar að það verði leiðigjarnt til lengdar. Og þótt „ég“ endurfæðist aftur og aftur þá er það auðvitað ekki „ég“ fyrir fimm aura heldur einhver allt önnur manneskja. Sálin á að ná fullkomnun og þá gerist hvað? Er loksins sátt við að deyja? Alla vega, skil þetta ekki alveg.
Það er samt dálítið óhuggulegt að horfast í augu við hyldýpi tilgangsleysisins, að þetta sé allt og sumt og ekkert bíði nema gröfin og ormarnir.
En flest sættum við okkur við þetta á einhverjum tímapunkti, að það sé ekki áfangastaðurinn heldur ferðalagið og finnum okkur tilgang.
Eftir að hafa velt þessu fyrir mér í gegnum tíðina þá hef ég komist að þeirri niðurstöðu eins og Julia Lennon að tilgangur lífsins sé að vera hamingjusöm. Ég segi ykkur seinna hvernig á að höndla hamingjuna.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Færsla Lögreglunnar á Norðurlandi eystra

Það mun mér hæfara fólk fjalla um þessa færslu Lögreglunnar á Norðurlandi eystra en það eru nokkrir hlutir í þessu sem mig sem almennur áhor...