Gefum okkur að einstaklingurinn sé núllstilltur, þ.e. hafi
nóg að bíta og brenna og þurfi ekki að hafa áhyggjur af grundvallar nauðsynjum.
Hann er reiðubúinn að takast á við heiminn og leita hamingjunnar.
Núna er lífið okkar frekar stutt, það getur verið mjög
erfitt, nóg getur nú út af borið. Mætti halda að við (mannkynið) myndum reyna
að sinna okkar grundvallarþörfum og njóta svo lífsins þar fyrir utan. Ekki
aldeilis. Við búum í samfélagi sem vinnur markvisst að því að halda okkur
óhamingjusömum. Í nafni hins frjálsa markaðar (og þúsund ára hefðarveldis) er
okkur talin trú um að við séum bara ekki nógu góð.
Konur sitja undir sjúklegum útlitskröfum sem þær munu aldrei uppfylla. Fyrirsæturrnar sem við eigum að líkjast líkjast sér ekki einu sinni
sjálfar. Búum til hið eftirsóknarverða
útlit með fiffi, svelti, lýtaaðgerðum og fótósjoppi og seljum svo konum þetta
útlit. Þær kaupa og kaupa og kaupa því þær munu aldrei, nokkurn tíma ná
takmarkinu. Þetta er hið stórkostlegasta sölutrikk fyrr og síðar. Illgjarnt og
viðbjóðslega brilljant.
Konur eyða ómældum tíma og fjármunum í þessa dauðadæmdu
leit. Fórna heilsu sinni og svo sannarlega hamingju.
Jane Fonda's Workout Book. |
Við skulum ekki ímynda okkur eitt einasta andartak að karlmennirnir
okkar séu undanþegnir óuppfyllanlegum kröfum. Útlitskröfurnar eru kannski ekki
jafn miklar, enn þá. Ég sá ekki betur en ungir karlmenn væru orðnir
þátttakendur í America‘s next top model.
Hafi ég einhvern tíma fyllst skelfingu yfir því hverjir stjórna útlitskröfum
heimsins þá var það þegar ég horfði einhvern tíma á slíka þáttaröð.
Drengirnir okkar sitja undir öðruvísi kröfum. Þeir eiga enn
í dag að harka af sér og mega síður sýna tilfinningar. Þá er enn litið til
þeirra sem helstu fyrirvinnu fjölskyldunnar svo sköffunar-krafan hvílir á þeim.
Möguleikar þeirra til að gera það sem þá langar virkilega til eru því
minnkaðir. Alveg eins og stúlknanna því þeim er sagt að þeir geti ekki hlutina.
Ungu mönnunum okkar líður alls ekki vel. Þeir misnota frekar
vímuefni, lenda frekar í slysum (og slagsmálum) og fremja frekar sjálfsmorð.
Þetta er ömurlegt. Af hverju gerum við unga fólkinu okkar þetta?
Við lofum auðhyggju og siðspillta framkonu. Að ljúga, svíkja
og stela er í góðu lagi en Guð forði okkur frá feitu eða ljótu fólki.
Nú er hægt að segja að fólk eigi bara ekkert að láta þetta hafa áhrif á sig. Það er bara auðveldar sagt en gert. Nýgengi átröskunarsjúkdóma var 2011 hátt í hundrað á ári. 550 konur fóru í brjóstastækkun 2010.
Þegar fólki er stöðugt sagt að það sé ekki nógu fallegt, sé ekki nógu gott, þá hefur það áhrif. Veldur fjölda fólks vanlíðan og fitar bankabækur annarra.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli