mánudagur, janúar 13, 2003

Sjálfspíningarhvötin náði hámarki núna um helgina þegar ég dustaði rykið af lóðunum og reyndi svo að lofta þeim. Þar sem ég veit ekki almennilega hvað ég á af mér að gera nú þegar ég hef lagt allar syndir á hilluna þá datt mér í hug að hreyfa mig. Datt líka í hug að það gæti verið gott fyrir bakið að hita svolítið upp og teygja. Svo ég hoppaði og skoppaði um alla íbúð á laugardag og reyndi að rifja upp teygjuæfingar frá því í fornöld. Ekki veit ég hvað nágrannar mínir hafa haldið um fílaballettinn en þeir vita að ég er skrítin svo ég hef ekki miklar áhyggjur. Svo setti ég langminnstu lóðin á stangirnar, þetta eru handlóð sko, og jafhattaði þeim með erfiðismunum. Ég var niðurbrotin kona á sunnudeginum af harðsperrum. Er hins vegar ekki frá því að bakið sé pínulítið betra svo kannski get ég bara komið mér hjá því að fara til læknis. Ætli að ég neyðist þá ekki til að taka til í íbúðinni, ég var í stórslysahættu í þessu hindrunarhlaupi.
Úlla fannst það ekkert merkilegt að ég hefði sett það á alheimsnetið að ég saknaði hans, sagði að þetta væri ,,bara bloggsíða". Svo ég hætt við að hafa saknað þín, svínið þitt!
Nú á að verðlauna góðu börnin fyrir að hafa mætt í skólann svo við erum að fara í keilu. Það var aldrei sagt í Háskólanum í kennslufræðinni að maður þyrfti að kunna að skauta, skíða, synda og keila til að geta verið kennari. Ég sé fram á stórkostleg fjárútlát í námskeið.


Talandi um sundið að þá er orðið tímabært að ég geri syndajátningu á gamalsaldri. Ég kann ekki að synda. Gat einhvern veginn bara aldrei lært það. Skrópaði náttúrulega mikið í gaggó. Þegar ég var í 9. bekk (sem er núna 10.) þá áttum við að klára 9. stigið, Ég mætti einu sinni og þá átti að synda yfir laugina á tíma. Ég fór af stað, drukknaði úti í miðri laug, svamlaði upp á bakkann og fór heim án þess að kveðja kóng eða prest. Þegar einkunnaafhendingin var um vorið þá kom það í ljós að ég hafði ekki einasta náð 9. stiginu heldur fékk ég líka 9 í einkunn! Ég rúllaði blaðinu að sjálfsögðu saman og læddist út.
Ég var auðvitað voða fegin í menntó að þurfa ekki að fara í sund en sit núna uppi með það að vera ósynd með öllu. Hins vegar er ég alveg sannfærð um að ég hafi einhvern tíma séð að það væri gamalmennasundkennsla einhvers staðar og stefni þangað.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Færsla Lögreglunnar á Norðurlandi eystra

Það mun mér hæfara fólk fjalla um þessa færslu Lögreglunnar á Norðurlandi eystra en það eru nokkrir hlutir í þessu sem mig sem almennur áhor...