Var með Silfur Egils sem undirspil þegar ég greini einhvern snilling segja að helmingur þjóðarinnar sé á Prósak og það dugi að éta þorskalýsi. Hann er ægilega hneykslaður á þessu sem og því að börn séu látin taka Ritalin.
Prósak er ákveðinn brautryðjandi sem gerði mörgum gott en hafði aukaverkanir. Það orðið gríðarleg þróun á þunglyndislyfjum þar sem aukaverkunum var eytt og Prósak nánast dottið upp fyrir. Ég vann á geðdeild í 3 ár og ég horfði á lyfin virka. Það kom inn fólk sem var svipbrigðalaust með hægar hreyfingar og leið djöfullega og gekk út tiltölulega hresst. Lyf virka ekki nema það sé unnið með þeim. Það að éta pillur og halda áfram að liggja inni í rúmi virkar að sjálfsögðu ekki. Lyfin gefa kraftinn til að rísa upp úr rúminu en einstaklingurinn sjálfur verður auðvitað að fara á fætur. Persónulega efast ég um að hálf þjóðin sé á þunglyndislyfjum en miðað við skammdegið sem við búin við finnst mér ekkert óeðlilegt að mörgum líði illa á sálinni, sérstaklega yfir vetrarmánuðina.
Hvað viðkemur Ritalini þá hafa líka orðið framfarir í þeim lyfjageira. Ég er jú grunnskólakennari og ofvirkni er raunverulegur sjúkdómur. Og í Guðs bænum, við þekkjum muninn á óþekkt og ofvirkni. Það gera foreldrar líka og að sjálfsögðu gera lækanarnir það líka. Það er ekki verið að gefa óþekkum börnum Ritalin. Ofvirkni lýsir sér nefnilega líka í einbeitingarskorti og athyglisbresti. Þetta hamlar að sjálfsögðu námi mjög mikið. Ég hef séð börn byrja á Ritalini og líða betur. Ég hef spurt þau, af því að innst inni er ég á móti því að gefa börnum lyf, og þau segja oftast að sér líði betur. En þessi lyf eins og öll önnur virka misjafnlega á fólk. Lyf eru hækjur, þau hjálpa á tíma sem er erfiður. Það er ekki meiningin að fólk sé á lyfjum alla ævi. Það er líka mikilvægt að fólk læri að eiga við sinn sjúkdóm og læra inn á sjálft sig.
En að bölsótast út í lyf í sjónvarpssal. Ég frábið mér svona helvítis heimsku.

Ummæli

  1. Einn fyrrverandi nemandi minn var mjög greinilega ofvirkur. Óhemju skemmtilegur og klár strákur en ekki séns að hann einbeitti sér að nokkrum sköpuðum hlut í meira en 3 mínútur í einu. Foreldrarnir voru harðir á þessari línu - ekki dæla mín börn full af lyfjum. Nema hvað, á samræmdu prófunum fékk hann að fara á ritalín eða eitthvað því skylt. Kom fram frá því að læra og sagði við mömmu sína: "Mamma, ég þekki bara ekki þessa tilfinningu. Ég get sest niður og lesið í heilan klukkutíma!" Stórkostleg upplifun fyrir barnið. En fékk hann að halda áfram á lyfjunum?

    dream on!

    SvaraEyða
  2. Þetta er einmitt gott dæmi um það sem lyfjafordómar geta haft í för með sér.

    SvaraEyða

Skrifa ummæli

Vinsælar færslur af þessu bloggi

Krossinn sem ég ber

Vandamál og lausnir