Af afturgöngum og upprisnum næturvörðum
Hún Harpa linkaði á mig um daginn. Ég var í eyðu í vinnunni sá nýjan link á (galopna) teljaranum mínum og smellti mér á honum til baka. Við þá heimsókn komst Harpa að þeirri niðurstöðu (ég er svo linkaflink að það hálfa væri hellingur) að ég hefði dvalið langdvölum á blogginu hennar að næturlagi. Olli það henni talsverðum vonbrigðum því hún hafði gert sér í hugarlund einmana, rómantískan næturvörð. Skil ég vonbrigðin fullkomlega enda einmana, rómantískur næturvörður mun meira sjarmerandi en reiður, feminískur grunnskólakennari. Hins vegar get ég glatt Hörpu með því að ég er hreint ekki þessi leynilesari því að ég sef alveg ágætlega á næturnar, takk fyrir, og er þar fyrir utan ekki í vinnunni á næturna. Því þótt ég hafi komið í gegnum Reykjavík City Hall í þetta skipti þá geri ég fastlega ráð fyrir að nokkur þúsund aðrir borgarstarfsmenn ferðist um vefinn í gegnum Reykjavík City Hall og rómantíski næturvörðurinn gæti því enn verið einn af þeim. Þar fyrir utan er heima-vefþjónn minn frá einkafyrirtæki en ekki RCH. Svo ekki þarf að slá af næturvörðinn mín vegna.
Hins vegar segir Harpa líka að í þessari heimsókn minni hafi ég skilið eftir lykilorð og þá fer málið að verða frekar dularfullt. Þar sem ég var í vinnunni þá er þetta lykilorð annað hvort tilheyrandi Fellaskóla eða nákvæmlega þeirri tölvu sem ég var í. Þótt mér finnist nú gaman í vinnunni þá eyði ég ekki nóttunum þar og reyndar á enginn að vera í skólahúsinu um nætur. Svo hver er þessi dularfulli næturgestur? Er þetta einhver óboðinn gestur sem heldur til í skólahúsinu? Ég verð þá að láta skólastjórann vita af þessu svo hann geti gert viðeigandi ráðstafanir.
Reyndar er annar möguleiki í stöðunni sem mér finnst mun skemmtilegri og finnst persónulega slá út rómantíska næturvörðinn.
Ég er með tölvu í stofunni minni sem ég nota við vinnu mína og vefflakk ef svo ber undir. Þessa dagana hins vegar eru samræmd próf og stofan er notuð undir þau svo ég er hálfheimilislaus og á flakki. Í eyðunni minni settist ég við tölvu hægra megin í vinnuherberginu og fór í heimsókn til Hörpu úr þeirri tölvu.
Fyrir nokkru var mér sagt frá baðverði í skólanum sem ku hafa séð meira en fólk flest. Var hann svo sem ekki að flíka því fyrr en í eitt skipti að hann spyr fólk hvaða gráhærði maður þetta sé sem væri alltaf að reykja pípu niðri í vinnuherbergi. Kemur heldur á fólk því þá var búið að banna reykingar í húsinu og enginn gráhærður maður við kennslu. Hins vegar hafði reykherbergið verið þar sem nú er vinnuherbergi og gráhærður kennari sem reykti pípu verið þá við störf í skólanum. Þessi kennari var hins vegar látinn. Ekki urðu fleiri varir við ferðir þessa framliðna kennara þótt ýmsir þættust finna pípureykingalykt á stundum. Þetta rifjaðist upp fyrir mér núna því þessi kennari mun víst alltaf hafa setið í þessu horni þar sem tölvan sem ég notaði er staðsett nú. Það skyldi þó aldrei vera að þessi gráhærði kennari sitji á síðkvöldum í horninu sínu með pípuna sína og ferðist á veraldarvefnum.
laugardagur, maí 14, 2005
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Færsla Lögreglunnar á Norðurlandi eystra
Það mun mér hæfara fólk fjalla um þessa færslu Lögreglunnar á Norðurlandi eystra en það eru nokkrir hlutir í þessu sem mig sem almennur áhor...
-
Ég birti hér nokkrar færslur af Facebook, lítillega uppfærðar. I. Framboðið sjálft. Af því að fólk hefur verið að lýsa undrun sinni á þeir...
-
Fyrir nokkrum árum síðan setti ég fyrirspurn inn á Turn-it-in grúppu á Facebook. Turn-it-in er forrit sem við kennarar notum til að sjá hv...
-
Sl. föstudag var ung kona á bar. Sennilega drakk hún of mikið og drapst inni á einu klósettanna. Þegar dyraverðir ætluðu að loka staðnum s...
Sjáðu til, ég les bloggið þitt stundum og sé enga ástæðu til að fyrirverða mig fyrir það eða fela. Mér finnst þú alveg ágætlega skemmtileg þótt ég sé ósammála þér um ýmislegt. Yfirleitt kem ég í gegnum mikkavef en eins og þú segir þá skiptir þetta auðvitað ósköp litlu. En ég er ekki að skrökva neinu í færslunni hér á undan. Mér var alla vega sagt þetta og eldri kennarar kannast við þennan baðvörð og þessa frásögn.
SvaraEyðaMailið mitt er astasvavars@hotmail.com og ég mér finnst þetta mjög athyglisvert með linkana því ég fer oft af teljarasíðunni minni inn á önnur blogg!