föstudagur, nóvember 24, 2017

Að sleppa tökunum

Ég hélt að örlögin væru ráðin. Ég hélt það virkilega. Að við myndum eldast saman í húsinu sem við byggðum saman. Að við myndum deyja á þessari þúfu og hvíla í Þóroddskirkjugarði hjá stúlkunni okkar. En það mun ekki verða. Enginn veit hvar hann dansar næstu jól.
Við verðum að fara.
Við viljum það ekki. Við viljum vera hér, lifa hér, ala upp börnin hér. En það er ekki hægt. Við verðum að fara.
Drengjunum okkar líður vel í skólanum sínum. Mér líður vel í vinnunni minni. Við búum mitt á milli. 
Sennilega er best að fara sem lengst.
Nýtt upphaf.
Við verðum saman. Við verðum alltaf fjölskylda. Við eignumst annað heimili þótt það sé ekki húsið sem við byggðum. Við deyjum þótt það verði ekki á þúfunni okkar. 
Það fýkur yfir sporin og minningin fölnar. 
En það er sárt núna.



mánudagur, nóvember 13, 2017

Ríkisstjórn með eða án VG

Vinstri hreyfingin-grænt framboð missti fylgismenn þegar hún "sveik" málstaðinn og samþykkti að sækja um aðild að ESB. Ég var ákaflega ósátt við það þá en nú segi ég sem betur fer því það er fullvissa mín að velferðarkerfið hefði verið skorið inn að beini á árunum eftir hrun ef VG hefði ekki verið í ríkisstjórn. Því hvaða flokkar hefðu verið í ríkisstjórn annars?
Nei, Sjálfstæðisflokkurinn er ekki "sætasta skvísan" á ballinu, við vitum það vel. En hver er hinn möguleikinn? Ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokki án VG. Er það virkilega betra? 
Nú er talað um að VG sé að leiða Sjálfstæðisflokkinn í ríkisstjórn. Ef VG gerir það ekki þá er VG að leiða ultra hægri stefnu í ríkisstjórn. Getur það mögulega verið betra?
Ég held að það sé betra að hafa taumhald á íhaldinu frekar en að leyfa því að leika lausum hala.






þriðjudagur, júní 27, 2017

Félagsheimili sveitarfélagsins.

Þingeyjarsveit á nú þegar þrjú vegleg félagsheimili og virðist vera bæta því fjórða við með breyttu fyrirkomulagi á Seiglu. Alla vega get ég ekki séð annað miðað við starfslýsingu forstöðumanns en það er auðvitað svo margt sem ég hvorki veit né skil.

Hins vegar gleður það mig mikið að byrjað er að sameina félagsheimilin undir eina yfirstjórn því væntanlegur forstöðumaður á einnig að reka Breiðumýri.
Mér þætti eðlilegt að öll yfirumsjón útleigu félagsheimila og annarra veislusala sveitarfélagsins væri á einni hendi. Ástæða þess er sú að nú sjá húsverðir eða skólastjórnendur um sitt húsnæði og viðkomandi hefur aðeins yfirsýn yfir sitt hús. Það er leitt ef sveitarfélagið missir af nýtingu húsnæðis vegna þess að eitt húsið er bókað og viðkomandi húsvörður/skólastjórnandi veit ekki að annað húsnæði er laust.
Þá vill nú brenna við að fólk vill leigja „sitt“ hús á „sínu“ svæði. Það getur verið erfitt fyrir húsvörð/skólastjóra að hafna slíkri beiðni vegna tengsla og tilfinninga viðkomandi við „sitt“ hús og „sitt“ svæði. Gömlu hrepparnir eru sameinaðir í einu sveitarfélagi og eiga þessi hús sameiginlega. Þau eru öll á „okkar“ svæði. Sumir eru því miður afskaplega meðvirkir gömlum hrepparíg. Þá hafa skólastjórnendur sveitarfélagsins yfrið nóg á sinni könnu og óþarfi að þeir séu að sýsla með veislusali líka.

Sveitarstjórnin virðist þó helst vilja selja eða leigja eitthvað af félagsheimilum sínum. 
Ég bý rétt hjá Ljósvetningabúð og það hryggir mig hve lítið húsið er notað. Ég hef upphugsað hin ýmsustu not fyrir húsið eins og t.d. svefnpokagistingu og tjaldstæði á sumrin og jafnvel eins og eina kántríhelgi. Mér þætti gaman ef flygillinn góði væri notaður meira og píanóleikurum boðið að spila. Hægt væri að halda alls konar tónleika frá kammermúsík upp í rokk. Af hverju geri ég þetta ekki mætti nú spyrja. Því er til að svara að ég treysti mér ekki til að spila með fjárhagsöryggi fjölskyldunnar. En ég er viss um að þetta er hægt.


miðvikudagur, júní 14, 2017

Mótvægisaðgerðirnar - útskýringar óskast.

Formáli.

Hitamálið í sveitarstjórnarkosningunum 2014 í Þingeyjarsveit var boðuð sameining beggja skóladeilda Þingeyjarskóla undir eitt þak. Flestum var ljóst að það þak væri í Aðaldal og hrikta myndi í stoðum Lauga. Til að vega upp á móti þeim víbringi setti Samstaða fram eftirfarandi kosningaloforð:

Sveitarstjórn skal fyrir þessar kosningar kynna íbúum með ítarlegum hætti hvað hvor kostur um sig hefur í för með sér, fjárhagslega, faglega og félagslega sem og hugmyndir um mótvægisaðgerðir við þeirri röskun sem niðurstaða kosninganna gæti haft í för með sér. (Sjá hér.)

Mótvægisaðgerðir eru tískuorð sem skaut upp kollinum í baráttunni um Kárahnjúkavirkjun og var upphaflega notað um neikvæð umhverfisáhrif.


Upphaf mótvægisaðgerða.

18. desember 2014 skipaði sveitarstjórn Þingeyjarsveitar í starfshóp um mótvægisaðgerðir. Voru valin til að sitja í hópnum Arnór Benónýsson og Heiða Guðmundsdóttir fyrir A-lista Samstöðu og Ragnar Bjarnason fyrir T-lista Sveitunga.

Þann 15. janúar 2015 á fundi sveitarstjórnar er starfshópnum sett erindisbréf. Þar segir:
Þar sem ljóst er að þessi breyting á skólahaldi í Þingeyjarskóla mun leiða af sér fækkun opinberra starfa í sveitarfélaginu telur sveitarstjórn mikilvægt að setja á stofn starfshóp til að leiða starf sem hefur það að markmiði að skapa tækifæri fyrir nýja starfsemi í sveitarfélaginu og eftir föngum styrkja umgjörð þeirrar starfsemi sem fyrir er. (Leturbreytingar mínar.)
T-listinn setti fram breytingartillögu sem innihleldur að miklu leyti þennan sama kafla með þó þeirri undantekningu að T-listinn vill að starfshópurinn sé í samstarfi við atvinnumálanefnd sveitarfélagsins.
Við fyrstu sýn virðist því aðaláherslan vera lögð á atvinnusköpun  í kjölfar fækkunar opinberra starfa og báðir listar sammála um það. Því mætti teljast afar skynsamlegt að starfshópurinn væri í samstarfi við atvinnumálanefnd. Hvers vegna Samstaða vill það ekki er illskiljanlegt.

Starfshópur um mótvægisaðgerðir varð ekki langlífur. Hann var lagður niður á fyrsta fundi sínum með vinnubrögðum sem geta ekki kallast neitt annað en valdníðsla.

Á fundi 5. febrúar var hópurinn formlega lagður niður og línur settar fyrir framhaldið. Það er athyglisvert að á þessum tímapunkti hefur áherslan þokast frá atvinnusköpun til nýtingar húsnæðisins. Einhvers konar bræðingur handverkshúss og nýsköpunarmiðstöðvar virðist þarna í deiglunni.

Verkefnisstjórinn og erindisbréf hans.

4. júní 2015 er ákveðið að ráða verkefnisstjóra mótvægisaðgerða. Þar er þessi umsnúningur orðinn endanlega ljós því í fundargerð segir:
„Að ráðinn verði verkefnisstjóri mótvægisaðgerða vegna skipulagsbreytinga á starfsemi Þingeyjarskóla með höfuðáherslu á framtíðarnotkun skólahúsnæðis Litlulaugaskóla. Starfshlutfall verði 50% og verkefnatíminn frá og með 15. júlí n.k. og út árið 2015“ (Leturbreytingar mínar.)
20. ágúst 2015 er svo samþykkt erindisbréf verkefnisstjórans. Miðað við orðalag bréfsins er verið að koma á nýsköpunarmiðstöð. Það er hið besta mál en þó er tvennt sem mér þykir athugavert.

1. Það er útibú frá Nýsköpunarmiðstöð á Akureyri og á Húsavík er Atvinnuþróunarfélag Þingeyinga. Á þessum stöðum er veitt að miklu leyti sama þjónusta fyrir utan áhersluna á nýtingu húsnæðisins.

2. Sé verið að koma upp nýsköpunarmiðstöð þá er það verkefni sem tekur tíma. Að ætla slíku verkefni hálft ár er vanáætlun í besta falli.

Í erindisbréfinu er lögð áberandi mikil áhersla á umsýslu húsnæðisins og notkunarmöguleika þess. Mín persónulega skoðun er sú að lofaðar mótvægisaðgerðir hafi verið smættaðar óhóflega ofan í eitt hús. Þá virðist mér einnig, og ég bið hluthafandi afsökunar á orðalaginu, að starfsheitið verkefnisstjóri mótvægisaðgerða sé af hálfu sveitarstjórnar aðeins upphafin nafngift húsvarðar.

Það sem upp úr stendur.

Staða verkefnisstjórans var lögð niður 1. júní síðastliðinn en þá hafði hann verið starfandi í tæp tvö ár. Verkefnisstjórinn gerði allt sem fyrir hann var lagt og meira til og vann gott starf eins og oddvitinn segir í samtalinu við 641.is.
Verkefnið var framlengt eins og sést um eitt og hálft ár. Aðallega þó vegna þess að verkefnisstjóranum var falið að pakka niður starfssemi Litlulaugaskóla og ganga frá húsinu! Afsakið mig en þykir þetta góð nýting á tíma verkefnisstjóra mótvægisaðgerða?

Ég tel að verkefnisstjórinn hafi náð að gera meira úr verkefni sínu en honum var ætlað. Honum var þröngt sniðinn stakkur og virðist ekki hafa haft mikinn stuðning sinna yfirboðara. Verkefnið Nærandi á Laugum varð til í Seiglu og er flott framtak. En hvað gerðist annað?

Jú, aðstaða er leigð út í húsinu. Þekkingarnetið og Urðarbrunnur eru í Seiglu en það var áður í framhaldsskólanum. Það má því segja að leigutekjur hafa færst til sveitarfélagsins. Snyrtipinninn leigir aðstöðu en hann leigði áður hjá einstaklingi á Laugum svo í raun er aðeins um tilfærslu tekna að ræða. Einstaklingur leigir skrifstofuaðstöðu, HSÞ og Skákfélagið leigja líka aðstöðu. Þannig að jú, sveitarfélagið fær leigutekjur til að reka húsnæðið. Allt var þetta fyrir á svæðinu.  Ekki er um neina nýja atvinnu að ræða.


Skýr framtíðarsýn.

Mér hefur alltaf þótt vanta skýra framtíðarsýn og áætlun um hvað mótvægisaðgerðunum var ætlað að ná fram. Í áðurtilvitnuðu viðtali segir oddvitinn að verkefnisstjórinn hafi lokið verkefni sínu en hvaða verkefni var það? Að búa til umgjörð um starfsemi í húsinu? Var það allt og sumt? Eru það mótvægisaðgerðirnar; að leigja út húsið?
Oddvitinn segir einnig að komið sé að kaflaskilum og verið sé að vinna að skipulagi framtíðar. Hverjir eru að vinna að því skipulagi? Ekki starfshópurinn, hann gat ekki unnið saman. Sveitarstjórnin? Var ekki svo mikil togstreita þar um verkefnið? Er einhver möguleiki að við íbúar megum fá að vita hvað stendur til? Megum við vita hverjir eru að ákveða það?
Er sveitarstjórninni einhver alvara um mótvægisaðgerðir eða var þetta bara málamyndagjörningur til að friða samfélagið?






mánudagur, maí 29, 2017

Vitur eftir á

Þann 20. maí síðastliðinn voru útskrifaðir 34 nýstúdentar frá Framhaldsskólanum á Laugum. Í skólaslitaræðu sinni kom skólameistari inn á stöðu framhaldsskólanna almennt en einnig sagði hann þetta:

Það er ekki sjálfgefið að skólahald verði á Laugum um aldur og ævi þrátt fyrir að það hafi verið hér lengi. Ein leið til að styðja við skólann er sú hugmynd að sveitarfélögin Þingeyjarsveit og Skútustaðahreppur ættu að sameinast um rekstur unglingadeildar grunnskólanna á Laugum í samvinnu við Laugaskóla. Ég hugsa reyndar að sveitastjórnirnar og þá væntanlega meirihluti íbúa deili ekki þessari sýn með mér. Enda er hún kannski hugsuð út frá hagsmunum Laugaskóla, þó svo að ég haldi að hagsmunir Laugaskóla og sveitarfélaganna hljóti óneitanlega að fara saman.

Þegar sameining Litlulaugaskóladeildar og Hafralækjarskóladeildar undir eitt þak var í burðarliðum voru margir (aðallega á skólasvæði Litlulaugaskóladeildar) sem bentu á þá hættu að fjara myndi undan Framhaldsskólanum á Laugum ef sameinaður skóli yrði staðsettur í Aðaldal. Ég viðurkenni fúslega að ég óttaðist það ekki enda hélt ég að flestir nemendur kæmu annars staðar frá. En reyndin er greinilega sú að nemendur á Laugum var grunnstoð skólans. 
Ég tek heils hugar undir með skólameistara þegar hann heldur að hagsmunir Laugaskóla og sveitarfélaga fari saman. Hvernig fer fyrir Þingeyjarsveit t.d. ef þessi "stóriðja" fer?
Þá er tvennt sem ég velti fyrir mér og verð að varpa fram:

1. a) Eru nemendur Þingeyjarskóla ekki að skila sér í Laugaskóla með sama hætti og nemendur Litlalaugaskóla gerðu og b) ef svo er af hverju ekki?

2. Ef forsvarsmenn Laugaskóla telja að það skipti máli að unglingadeild sé rekin á Laugum af hverju í ósköpunum lögðu Laugaskólamenn ekkert til umræðunnar á þeim tíma sem verið var að flytja skólann í burtu?






þriðjudagur, maí 16, 2017

Litla bleika kúlutjaldið

Við hjónakornin kynntumst um vorið 2006 og hófum þá tilhugalífið. Um sumarið komst unnusti minn að því að ég hefði aldrei sofið í tjaldi og ákvað, eins og góðum unnusta sæmir, að bæta úr því hið snarasta. Þannig að einhvern tíma um sumarleytið 2006 keyrðum við turtildúfurnar af stað með litla, bleika rúmfatalagerskúlutjald systur hans í farteskinu á vit ævintýranna. Bleika kúlutjaldið truflaði mig ekkert enda er ég bæði víðsýn og ósnobbuð.
Einhvers staðar á leiðinni stoppuðum við í kaupfélagi og ástmögurinn keypti þessa líka stóru fínu vindsæng fyrir okkar að sofa á og tilheyrandi pumpu. 
Svo keyrðum við á tjaldstæðið í Fellabæ og slógum upp tjaldi. Ókey, við erum að tala um 2006. Það var ekki eitt einasta tjald á tjaldstæðinu, bara misrisastórir tjaldvagnar og húsbílar. Víðsýna, ósnobbaða konan sá það, hún tók eftir því en það skipti hana engu máli. Snerti hana ekki. Svo byrjaði elskhuginn að pumpa í vindsængina, pumpan tengd í bílinn og svo drundi í henni. Svona "já, halló! Sjá okkur örugglega ekki allir?"drunur. Dýnan var stór og fín og blasti við að það yrði gott að sofa á henni. Eini gallinn var að hún komst ekki inn í bleika, litla kúlutjaldið. Bóndanum fannst það sko ekki mikið mál heldur skellti dýnunni beint á jörðina og tjaldaði ofan á dýnuna. Svo fór hann og spjallaði aðeins við kunningjakonu sína sem var þarna með börnunum sínum á stórum húsbíl.
Á þessum tímapunkti þurfti konan að horfast í augu við þá staðreynd að hún væri kannski ekki jafn víðsýn og ósnobbuð og hún hélt að hún væri. Það var eitthvað í þessu sem truflaði konuna svolítið.. Kannski aðallega innsýnin í eigin forpokuðu sál😳

Seinna keypti ég minni dýnur sem pössuðu í kúlutjaldið og nú eigum við tjald sem rúmar fínu dýnuna. Þetta átti bara að vera svona atburður sem myndi gleymast með tíð og tíma. Nema hvað að nokkrum árum seinna byrja ég að kenna í framhaldsskóla. Þar var sonur kunningjakonunnar. Og hann mundi...

Því miður fundum við ekki þetta tjaldstæði.



mánudagur, maí 15, 2017

Tæknifrúin: Net-eyðublöð

Ég eins og flestir kennarar hef stuðst talsvert við jafningjamat í kennslunni. Gallinn var að klippa niður miða eða prenta út fjöldann allan af blöðum og svo að taka saman niðurstöðuna. En þar sem að ég hef google reikning eins og flest allir android notendur þá hef ég notast við google forms í tilgangi. Í fyrsta lagi þá þarf ekki að eyða pappír, nemendur geta fyllt út í síma/tölvu og forritið heldur utan um niðurstöðurnar. Svo get ég vistað niðurstöðurnar og látið nemendurna fá þær. En það er auðvitað hægt að nota þetta í hvers konar spurningalista sem er.

Ég bjó hérna til smá sýnishorn.



Microsoft hefur verið að koma sér inn á þennan sama markað og google docs hefur átt og það sem Microsoft OneDrive hefur fram yfir er að notandinn (ég) á allt efnið mitt á meðan eignarhaldið hjá google er eitthvað á reiki.

Vinnan mín var að færa sig yfir í Microsoft en ég er ekki búin að færa efnið mitt yfir enn svo ég kann ekki almennilega á Microsoft Forms og veit ekki alveg hvort það fylgir ókeypis með Outlook. En ef fólk er að byrja þá held ég að ég mæli frekar með Microsoftinu.

miðvikudagur, apríl 19, 2017

Skóladagar

Skv. grunnskólalögum nr. 91/2008  eiga nemendur rétt á 180 skóladögum að lágmarki. Því til viðbótar er kveðið á um að kennsludagar séu eigi færri en 170. (Af 180 skóladögum eiga 170 að vera kennsludagar.)
Nú má spyrja hvaða munur sé á kennsludögum og skóladögum. Menntamálaráðuneytið setur fram  álit í Nánari skilgreiningu á skóladögum í grunnskólum

Ráðuneytið áréttar að árlegur lágmarksfjöldi kennsludaga skuli vera 170 og að óheimilt er að telja sem kennsludaga aðra en þá daga sem nemandi starfar í skólanum eða í vettvangsferðum utan skóla að lágmarki í sambærilegan tíma og gert er ráð fyrir í stundaskrá.

Skv. þessu eru kennsludagar þeir dagar sem nemendur eru í skólanum og: "...að  kennsludagur sé skóladagur þar sem fram fer skipulagt starf nemenda undir leiðsögn kennara. "


Þetta þýðir að skertir dagar eins og skólasetningardagar, skólaslit eða foreldradagar eru ekki kennsludagar þótt þeir séu skóladagar. (Skertir dagar mega heldur ekki vera fleiri en 10.)

Ég veit ekki hreinlega hvort dagar þar sem nemendur eru ekki skólanum, eins og t.d. námskeiðsdagar starfsfólks,  geti talist sem skóladagur.* En hann er alveg örugglega ekki kennsludagur.

Ráðuneytinu er alveg sérstaklega í nöp við svokallaða tvöfalda skóladaga og sagði í álitinu dagsettu 16. apríl 2012 að ekki væri heimilt að tvítelja tiltekna skóladaga. Hins vegar kemur fram í Nánari skilgreiningum að:

Í kjölfar þess álits var athygli ráðuneytisins vakin á því að Kennarasamband Íslands og Samband íslenskra sveitarfélaga hefðu litið svo á að fara mætti með aðra skóladaga sem samið var um í kjarasamningum 2001 með öðrum hætti en lögbundna kennsludaga. Þessir aðilar líta áfram svo á að þrátt fyrir að með setningu grunnskólalaga 2008 hafi verið bætt við 10 skóladögum, hafi ekki verið ætlunin að hrófla við túlkun á því með hvaða hætti mætti skipuleggja þessa daga. Í fyrra áliti ráðuneytisins var ekki fjallað sérstaklega um að munur væri á kennsludögum og öðrum skóladögum. Í viðræðum við framangreinda aðila hefur nú komið fram sú ósk að ráðuneytið líti öðrum augum á þessa aðra skóladaga með því að staðfesta að heimilt sé að tvítelja tiltekna skóladaga eða dreifa skólastarfinu á nokkra daga, t.d. foreldraviðtölum, ef um slíkt er samkomulag í viðkomandi skólasamfélagi. Óskað var eftir að ráðuneytið heimili að langur skóladagur gæti þá flokkast sem einn kennsludagur og að auki sem annar skóladagur, þ.e. sem einn af öðrum skóladögum sem kveðið var fyrst á um í kjarasamningum og síðan lögbundnir 2008. Einnig að heimilt yrði að telja viðburð að afloknum kennsludegi með sama hætti, þ.e. einn kennsludag og einn annan skóladag.  

Þetta þýðir að tvöfaldur dagur er ekki tvöfaldur kennsludagur. Hann telst þó líklega sem tvöfaldur skóladagur.

Þessar reglur um skóladaga tiltaka lágmarksfjölda daga nemandans í skóla og námi. Þetta er að sjálfsögðu gert til að tryggja jafnrétti barna til náms. 
Hins vegar er ekkert sem bannar að hafa fleiri daga í skóladagatali sé vilji til þess í skólasamfélaginu. T.d gæti verið skynsamlegt á svæðum þar sem veður eru oft válynd að hafa tvo aukadaga í skóladagatali, þ.e. 172 kennsludaga svona upp á að hlaupa komi óveður eða eitthvað annað óvænt upp á. Gerist ekkert slíkt þá fá nemendur í versta falli meiri kennslu. Ég hef reyndar ekki skoðað hvernig slíkt snýr að kjarasamningum kennara.

Rétt er þó að hafa í huga að grunnskólalögin fjalla um rétt barna til náms, ekki um kvaðir hinna fullorðnu. Okkur ber hins vegar skylda til að tryggja þennan rétt og sinna honum.
Hvet ég foreldra til að skoða skóladagatöl barna sinna og hafi þessi tvö álit frá ráðuneytinu til hliðsjónar.
Einn og einn dagur skiptir ekki máli en safnast þegar saman kemur. Ef það vantar t.d. eina 5 kennsludaga á ári þá er það heil kennsluvika. Á 10 ára grunnskólagöngu barnsins verða þetta 10 vikur eða heilt misseri. Það hlýtur að muna talsvert um það.




* Þetta er komið á hreint. Námsskeiðsdagar starfsfólks þar sem nemendur eru ekki í skólanum teljast ekki sem skóladagar.

sunnudagur, apríl 09, 2017

Vegna Vaðlaheiðarganga

Varúð: Mjög persónuleg færsla.

Ég bý vitlausu megin við Víkurskarðið. Á veturna gerist það iðulega að skarðið er illfært og all oft ófært.

Sumarið 2007 var ég gengin 24 vikur á leið þegar barnið hætti að hreyfa sig. Litla stúlkubarnið mitt var dáið.
Ég varð ófrísk aftur ári síðar og var sett í byrjun nóvember. Meðgangan gekk vel á allan hátt en ég þarf væntanlega ekki að taka fram að ég var frekar stressuð. Vegna forsögu minnar var ég metin sem áhættumeðganga og læknirinn minn sagði að ekki kæmi til greina að ég gengi með allan tímann og alls ekki fram yfir. Ég lagðist því inn á fæðingardeild föstudaginn 24. okt. 2008 þar sem framköllun fæðingar var ákveðin næsta mánudag. 
Við hjónin vorum lengur á leiðinni en til stóð því Víkurskarðið var lokað og við þurftum að fara Dalsmynnið. Maðurinn minn kom síðan aftur til mín á sunnudeginum því veðurútlit var víðsjárvert.
Þetta gekk allt vel hjá okkur og líka hjá Húsavíkurhjónunum sem áttu barn sama dag þótt þau hafi þurft að keyra í gegnum storminn og snjóhríðina.

Fjórum árum seinna varð ég aftur ófrísk. Orðin fjórum árum eldri og með sjaldgæfan sjálfsofnæmissjúkdóm í ofanálag. Aftur var ég metin áhættumeðganga og þurfti að fara reglulega, yfir Víkurskarð, í vaxtarsónar. Þá voru auknar líkur á að barnið myndi fæðast fyrir tímann vegna sjúkdómsins.

Þetta fór allt vel og ég á tvo flotta stráka. En það er ekki góð tilfinning að búa við þær aðstæður þegar svona stendur á að geta ekki treyst því að komast á sjúkrahús.

Í mínum huga snúast Vaðlaheiðargöng ekki um að stytta leiðina til Akureyrar um 9 mínútur. Þau snúast um miklu meira.

mánudagur, apríl 03, 2017

Að kunna að gleðjast

Ég vildi bara benda á að við í Þingeyjarsveit höfum ýmislegt til að gleðjast yfir. Það má vel vera að hvorki Bárðardalur né Útkinnarvegur séu malbikaðir og að löggan reyni að svipta okkur bílprófinu alveg villivekk á Skjálfandabrúnni. Það má ekki alltaf einblína á þetta neikvæða, það verður líka að gleðjast yfir því sem við fáum. Og við fengum þetta líka fína himpigimpi á t-gatnamótin við Tjörn. Ég held ég hafi bara aldrei séð svona fínt skilti né vel föndraða eyju.


Hátækni umferðar-öryggisgræja.

sunnudagur, mars 26, 2017

Jafnrétti er byggðamál

Þann 17. nóv. 2016 var haldinn 52. fundur í Félags- og menningarmálanefd Þingeyjarsveitar. Á þeim fundi var fjallað um jafnréttismál i sveitarfélaginu og eftirfarandi fært til bókar:

5. Jafnréttismál.
Umræður um jafnréttismál í sveitarfélaginu og hvernig best sé að auka umræðu og fræðslu. Nefndin beinir því til fræðslunefndar að fengnir verði utanaðkomandi fyrirlesarar til að auka við jafnréttisfræðslu í skólum sveitarfélagsins og tekið verði tillit til þess í fjarhagsáætlanagerð fyrir næsta ár.


1.des samþykkti sveitarstjórn fundargerðina og vísaði til fjárhagsáætlunar.

5. des var haldinn fundur í Fræðslunefnd Þingeyjarsveitar í Stórutjarnaskóla og segir í fundargerð:

6. Jafnréttisfræðsla í skólum sveitarfélagsins
Margrét sagði frá því að gert sé ráð fyrir peningum í fjárhagsáætlun Félags- og menningarmálanefndar fyrir árið 2017 til jafnréttis-/kynjafræðslu í grunnskólum sveitarfélagsins.
Fræðslunefnd hvetur skólastjóra til að nýta sér þetta.

Þetta er bæði þarft og gott framtak og þakka ég fyrrnefndum nefndum og sveitarstjórn fyrir.
Ég hlakka til að sjá hvernig skólarnir nýta sér þetta góða tækifæri.
Stórutjarnaskóli á góðan að í Ingólfi Ásgeiri Jóhannessyni ef skólann vantar ábendingar og örugglega Þingeyjarskóli líka.



laugardagur, mars 25, 2017

Huglægt mat á hæfni - Baksleikjuviðbit

Í vikunni var ég á fræðslufundi um stofnanasamninga. Hafi ég skilið rétt þá voru stofnanasamningar teknir upp fyrir u.þ.b. 20 árum þegar ríkið ákvað að reka stofnanir sínar eins og fyrirtæki. Með stofnanasamningum átti að færa meira vald til stjórnenda og gefa þeim tækifæri á að "verðlauna" duglega starfsmenn. Inni í stofnanasamningum eiga að vera hvatakerfi og starfsþróunaráætlanir.
Vandinn við verðlaunakerfið er hið huglæga mat. Þess vegna kallaði Ögmundur Jónasson þetta "baksleikjuviðbit" á sínum tíma.
Ég vil taka fram að ég er hlynntari stofnanasamningum eftir fræðsluna en áður enda var komið inn á vandann við huglægt mat á hæfni og hvernig hægt væri að bregðast við honum.

Nú mætti halda að það væri frekar auðvelt að meta það hver er góður starfsmaður og hver er síðri. Það má vel vera ef matskvarðarnir eru til staðar. 

Um þetta hefur vissulega verið deilt en í nýlegum dómi Hæstaréttar nr. 376/2016 segir:
Þótt ákvörðun um þetta ráðist þannig að meginstefnu af mati forstöðumanns eru valinu settar skorður af grunnreglum stjórnsýsluréttar. Ein þeirra er réttmætisreglan, en samkvæmt henni verða stjórnvöld ávallt að reisa matskenndar ákvarðanir á málefnalegum sjónarmiðum. 

Það hafa verið settir upp kvarðar um hvernig meta beri hæfni eins og t.d. KSAO.

  • Þekking er fræðileg eða hagnýt og byggir á formlegri eða óformlegri menntun (e. knowledge, K).
  • Leikni er getan til að beita aðferðum, verklagi eða rökréttri hugsun á meðvitaðan máta (e. skills, S).
  • Færni er getan til að beita aðferðum eða verklagi á ómeðvitaðan máta. Færnin er lærð á ómeðvitaðan máta og getur jafnvel verið meðfædd (e. abilities, A).
  • Aðrir eiginleikar eru persónubundnir þættir svo sem félagsleg færni, jákvæðni, seigla, persónuleiki einstaklings, jafnaðargeð, áræðni og/eða sjálfstraust (e. other characteristics, O).
Það er þetta síðasta, aðrir eiginleikar (other characteristics) sem hafa verið misnotað og það verulega
gróflega. T.d. þegar hæfari einstklingur er ekki ráðinn í starf vegna þess að litið var til "persónulegra eiginleika" en ekkert gefið upp um hvaða eiginleikar það eru né hvernig þeir ættu að vera. Það að ráðningaraðila sé persónulega í nöp við viðkomandi er ekki málefnalegt sjónarmið.
Það er oft talað um "samskiptahæfni" en svo er sú færni ekki skilgreind nánar. Ég hef alltaf talið mig vita hvað felst í þessu hugtaki en á námskeiðinu á fimmtudaginn setti fyrirlesarinn fram allt aðra skilgreiningu sem snerist meira um að ná fram markmiðum en vera "kammó". Ég varð eiginlega furðu lostin.
Þessi nýja skilgreining minnti mig á sögu sem mér var sögð fyrir ekki ýkja löngu:
Það er maður á Suðurlandi sem er mjög vel menntaður í menntunarfræðum og stjórnsýslu. Gallinn er bara að hann er alveg ómögulegur í samskiptum, hann getur ekki unnið með neinum. Þessi maður sækir um öll stjórnunarstörf í skólum sem eru auglýst. Hann er allatf hæfasti umsækjandinn en aldrei ráðinn því allir vita að hann er ómögulegur í samstarfi. Hann kærir alltaf og fær bætur og lifir á þeim.
Fyrsta tilhneiging er væntanlega að trúa sögunni, sérstaklega ef hún er sögð af fólki sem við þekkjum. En auðvitað er sagan bara flökkusaga sem við áttum okkur á þegar við skoðum hana nánar. Sérstaklega þegar við heyrum hana aftur í lítillega breyttri útgáfu. Væntanlega eiga flest byggðalög sér svona sögu um þennan algjörlega óhæfa einstakling sem getur í raun ekki verið í vinnu með öðru fólki. Samt er þessi einstaklingur svo vel menntaður með mikla reynslu að hann á rétt á öllum stöðum! Það er innbyggð þversögn í sögunni.
Sagan, sem og aðrar útgáfur hennar, þjónar þeim tilgangi einum að réttlæta þann gjörning að stöður séu ekki auglýstar. Það sé í rauninni skömminni skárra að rétt ættaði einstaklingurinn eða sá rétt tengdi fái stöðuna frekar en "sá óhæfi" sem fái bætur ef hann er ekki ráðinn á kostnað byggðalagsins eða sé ráðinn og fái tíma til að skemma út frá sér, verði að losa sig við og svo væntanlega að borga bætur hvort sem er.
Ég geri ráð fyrir að "óhæfi einstaklingurinn" sé oftast nafngreindur í sinni byggðalagssögu sem ýtir undir trúgildi hennar. Þegar kemur svo að því að útskýra hvað þá skilgreina í hverju þetta óhæfi hans liggi þá verður fátt um svör.
Nema valinn sé raunverulega óhæfur einstaklingur sem söguhetja sem veldur ekki stöðunni. Þá á enn eftir að útskýra hvernig hann getur mögulega dæmst hæfastur í umsókn og þar með fengið stöðuna. Og af hverju eiga allir hinir að gjalda þessa eina? Nema auðvitað þessi rétt tengdi ættingi.

"Ah yes, but you see, “quality” is the new racism. It’s a code word. “Not good enough” is a code word for the exclusion of parties that used to be excluded on a more candid basis."
                   Barbara Kirshenblatt-Gimblett




mánudagur, mars 20, 2017

Tilgangur lífsins. Eða: Hvar eru lyklarnir?

Fyrir einhverju síðan heyrði ég viðtal í útvarpinu við einn af þessum spekingum og var verið að ræða um miðla og trúna á þá. Þessum spekingi fannst trúin á miðla alveg fáránleg og helstu rökin sem hann setti fram voru þau að ef látið fólk gæti haft samband við lifendur þá væri það ekki að koma einhverjum ómerkilegum upplýsingum eins og þeim hvar lyklarnir væru á framfæri. Það myndi upplýsa lifendur um eitthvað stórkostlegt eins og innstu rök tilverunnar.
Afstaða mín gagnvart hinu yfirnáttúrulega er talsvart sú sama og gagnvart draugum; ég hef alls enga trú á að þeir séu til en ég mun aldrei fara í draugahúsið á Tjörnesi að næturlagi.
En hvað sem því líður þá fór þetta í taugarnar á mér.



Hverfum til baka nokkur þúsund ár. Því hefur verið haldið fram að það fólk sem sóttist alltaf eftir einhverju betra hafi verið fólkið sem lifði af. Eins og t.d. indóevrópumaðurinn á sínu ferðalagi frá Kákasus. Fólkið sem leitaði betri lífsskilyrða og lifði því af. Þess vegna sé þörfin eftir einhverju betra, stærra og meira bundið í erfðaefnið okkar. 



En hvað ef það er ekkert stærra betra eða meira? Og af hverju ætti að vera eitthvað stærra, betra eða meira? Af hverju er þetta bara ekki skrambi gott? 

Þegar kona stendur fyrir framan læstar dyr í ausandi rigningu þá er það bara talsvert issjú hvar helv.. lyklarnir eru.


laugardagur, mars 18, 2017

Bestu vinir Kinnar

Ég verð að viðurkenna það; stundum finnst mér halla á okkur Kinnunga í sameinaðri Þingeyjarsveit. Við höfum engan skóla, engan yfirmann (bara hálfan deildarstjóra), sveitarstjórnin vill endilega selja okkar félagsheimili en ekki önnur. Þannig að já, ég hef verið dálítið hvekkt. En svo áttaði ég mig á því um daginn að þótt sveitarstjórnin í Þingeyjarsveit kunni ekki að meta okkur þá kann ríkisstjórnin og Vegagerðin það svo sannarlega. 
Síðastliðið sumar var gert við Skjálfandabrúna við Ófeigsstaði (Kinnarbrúna). Brúin er víst ekki upp á sitt besta samt sem áður svo til að tryggja öryggi Kinnunga er búið að lækka hámarkshraðann töluvert. Það er nefnilega meiri hristingur eftir því sem hraðar er keyrt og meiri líkur á að brúin hrynji því hraðar sem er farið. Þess vegna má aðeins keyra á 30 km/klst yfir brúna. Og til að tryggja öryggi okkar enn frekar þá er lögreglan iðulega á ferli og sektar þessa óábyrgu ökumenn eða hreinlega sviptir þá ökuleyfi. Að sjálfsögðu, það er til lítils að sækja vinnu eða nauðsynjar til Húsavíkur ef maður ætlar bara að hrynja ofan í Skjálfanda.  Það er þá betra að sitja heima og svelta, það segir sig alveg sjálft.


Ríkisstjórninni og Vegargerðinni finnst líka alger óþarfi að setja bundið slitlag á Bárðardalsveginn. Enda er það alger óþarfi fyrir fyrir nokkrar holur. Mér finnst liggja alveg ljóst fyrir að ef það springur tvisvar á sama sjúkrabílnum þegar hann er að flytja sjúklinng á milli heims og heljar á sjúkrahús þá hljóti nú bara að vera illa léleg dekk undir sjúkrabílnum ef hann þolir ekki nokkrar holur. 


Ég verð bara að segja það að ég er þakklát ríkisstjórninni og Vegagerðinni fyrir umhyggju hennar í garð okkar Kinnunga. Það virkilega hlýjar hjartarótunum.




föstudagur, mars 03, 2017

Á listin að gjalda mannsins?

Eitt af því fyrsta sem mér var kennt í bókmenntafræðinni forðum daga var að höfundurinn væri dauður. Roland Barthes gaf út formlegt dánarvottorð 1967 í grein sinni La mort de l'auteur. Greinin var þýdd og gefin út í greinasafninu Spor í bókmenntafræði 20. aldar sem ég keypti og las auðvitað samviskusamlega. 
Kenningin gengur út á það að ekki eigi að greina verk ævisögulega, þ.e. að ævi og persóna höfundarins skipti litlu sem engu máli þegar kemur að túlkun verksins.
Í bókmenntafræðinni horfðum við á myndina The Fearless Vampire Killers sem Roman Polanski leikstýrði og lék í. Myndin gerir grín að blóðsugusögum og -bíómyndum og mér þótti hún frekar fyndin á þeim tíma.


Á þessu bókmenntafræðilega hryllingsskeiði horfði ég líka á Rosemary's baby og fannst hún góð sem slík.
Á þessum tímapunkti, um miðjan tíunda áratuginn, var það ekki í einhverju hámæli að Polanski hafði nauðgað ungri stúlku. Ég hreinlega man ekki hvort ég vissi um það eða hvort það var gert lítið úr því. En það var seinna sem þessi umræða varð meira áberandi og almenn samúð fluttist til stúlkunnar.

Vissulega er maðurinn perraskratti og glæpamaður. En á ég að hætta að horfa á myndirnar hans?
Hvar endar maðurinn og listamaðurinn tekur við? Eða er þetta sami maðurinn? 
Ég hreinlega veit það ekki.

Nú hefur mér alltaf leiðst þessi ímynd um listamanninn sem leyfist allt og kemst upp með allt af því að hann er svo mikill listamaður. Að því leyti tengi ég saman listamanninn og einstaklinginn. 
Ég er mikill Bubba aðdáandi en mig hefur aldrei langað að hitta Bubba því ég held að hann sé hundleiðinlegur. Ég vil ekki að maðurinn Bubbi eyðileggi fyrir mér listamanninn Bubba.
Þegar ég stóð fyrir framan Mónu Lísu í Louvre hér um árið þá fann ég sterkt til þess að ég væri nálægt verki sem Da Vinci hefði sjálfur snert.

Þannig að þið sjáið að ég sjálf hef enga hugmynd um hvar aðgreiningin liggur. 

Woody Allen, Roman Polanski og Casey Affleck eru bara peð í listasögunni og í rauninni lítill missir þótt ég sniðgengi allar þeirra myndir. 

En ég velti samt fyrir mér hvort ég eigi að gera það því ég veit ekki hvort listamaðurinn og maðurinn séu eitt og hið sama.

Get ég notið listaverks ef listamaðurinn er ógeð? Bukowski var ógeð. Á ég að afskifa hann?




Það er vissulega vont að verðlauna fólk sem við vitum að hefur brotið af sér. En hvar liggja mörkin? Á að fordæma verk sem eru framleidd eftir að glæpurinn er framinn? Eða á að fordæma öll verkin?

Ég er ekki að taka afstöðu, ég hreinlega veit ekki hvað mér á að finnast.

miðvikudagur, febrúar 22, 2017

Typpamyndir

Ég lenti í þeim ósköpum í gær að heyra viðtalið við Óttar Guðmundsson um typpamyndirnar í beinni. Það er búið að svara hinni skelfilegu fullyrðingu sök fórnarlamba hrellikláms annars staðar og betur en ég get. 
Hins vegar minnti viðtalið mig á hugrenningar sem ég hafði fyrir um ári síðan þegar Free the Nipple gjörningnum var nýlokið og ég las erlenda grein um þann stórmerkilega sið margra karlmanna að senda konum typpamyndir af sér.
Biðst afsökunar á fitufordómunum
sem þessi mynd endurspeglar.
Það sem mér fannst merkilegt var að á sama tíma og konur upplifa það sem skömm að birtar séu nektarmyndir af þeim og eru að berjast gegn því þá eru karlmenn að taka og birta myndir af sér alveg óbeðnir. Já, ég set þetta undir sama hatt því yfirleitt hafa stúlkurnar tekið myndirnar sjálfar og sent þær alveg eins og strákarnir. Það sem gerist hins vegar er að sumir strákar deila myndunum eða setja þær á hefndarklámsíður. Stúlkur gera það síður við typpamyndirnar.
Það sem mér þótti merkilegt var þessi ofboðslegi munur á sjálfsöryggi kynjanna í skinni sínu. Stúlkurnar upplifa það sem skömm að líkami þeirra birtist nakinn á meðan sumir piltanna gera sér far um að senda myndir af sínu heilagasta sem víðast. 
Bara þetta finnst mér segja okkur ótrúlega margt um stöðu kynjanna og hefði viljað sjá kannað nánar og á talsvert faglegri hátt en þetta viðtal í gær.

Nýverið gluggaði ég í bók Óttars Hetjur og hugarvíl. Ég varð fyrir talsverðum vonbrigðum með greiningar geðlæknisins, karlarnir voru flestir siðblindir og konurnar með jaðarpersónuleikaröskun. Engin tilraun var gerð til að taka tillit til þeirrar menningar sem þessar sögupersónur áttu að hrærast í. Ef heiður fjölskyldunnar er ofar öllu þá er sá einstaklingur sem sinnir ekki hefndarskyldunni í slíku samfélagi aumingi. Ef hann sinnir henni þá er hann siðblindur að mati Óttars. Frekar klént, verð ég að segja.
Eitthvað virðist Óttar karlinn eiga erfitt með að átta sig á tíma og tímabilum því í gær vitnaði hann stöðugt í kynlífsbók Krafft-Ebing frá 1886 sem hlýtur að mega teljast úrelt. Óttari var tíðrætt um "öðruvísi kynlífshegðun eða svokallaðar pervertasjónir." Eiginlega þætti mér gaman að vita hvað nákvæmlega flokkaðist undir eðlilegt kynlíf í huga geðlæknisins ef svona ótrúlega margt flokkast undir pervertasjónir en  það er önnur saga
.
Óttar er sannfærður um að það að senda typpamynd sé á pari við sýniþörf eða gamla flassarann. Ok, nú er ég enginn Krafft-Ebing né Óttar en ég er nokkuð viss um að kikkið sem flassarinn fékk var við sjokkviðbrögðin sem hann fékk. Nú er ég ekki að afsaka typpamyndirnar en yfirleitt eru þær sendar til stúlkna sem typpalingurinn hefur áhuga á. Sumir þeirra halda raunverulega að konan vilji myndina. Aftur, ekki að afsaka þetta, en ég held að þetta snúist að mörgu leyti um fyrrnefnda staðreynd að karlmenn eru miklu sáttari við sig og útlit sitt en konur og dettur ekki í hug að það sé eitthvað ógeðfellt við líkama þeirra. Margir karlar skilja ekki þá veröld sem konur búa í og skilja ekki að konur upplifi typpamyndina þeirra sem ofbeldi.


Sem færir mig að næsta atriði sem truflar mig en það er sú fullvissa læknisins að limurinn, eða tillinn eins og hann vildi nefna hann, sé ógnandi, að hann einn og sér sé einhvers konar táknmynd vopns. Það var alveg ljóst í hans huga að þegar konur sáu óumbeðna mynd af karlmannslim þá væri konan að taka þátt í ofbeldiskynlífi. Ég ætla ekki út í hugtakaskýringar en ég er þess fullviss að fyrirbærið ofbeldiskynlíf sé ekki til. 
Leyfið mér að útskýra þetta með vopnið betur. Myndi einhverjum detta það í hug að óumbeðin mynd af brjóstum eða píku sé ógnandi? (Svona ef út í það er farið; hefur einhverjum dottið í hug að allar þessar beru konur út um allt séu flassarar?) 
Kynlíf er frábært svo í rauninni ætti limurinn að tákna unað en ekki ógn. Hins vegar er það þannig að t.d. bannmerkingar í bíó eru strangari ef limur sést á tjaldinu. (Var það alla vega hér í denn.) Þá er einhverra hluta vegna allt í lagi að flagga berum konum stöðugt en guð forði okkur frá því að ber karlmaður sjáist einhvers staðar. Kannski skýrir það af hverju karlmenn eru svona ánægðir með sig en konur óánægðar, það eru ekki nándar nærri sömu útlitskröfur í almannarýminu til karla og kvenna. Það kvað svo rammt að þessum heilaþvotti að ég hef heyrt fleiri en eina fullorðna konu og fleiri en tvær fullyrða að kvenlíkaminn séu miklu fallegri en karllíkaminn. Really?! (Þarf víst ekki eldri konur til 😩 )
Það er í rauninni afar sorglegt að við séum á þeim stað enn í dag að kynferðislega virk kona sé eftirsóknarverð en kynferðislega virkur karlmaður ógnandi. En auðvitað er það vegna valdamisræmisins sem enn gætir á milli kynjanna. Limurinn sjálfur er ekki ógnandi, karlmaðurinn sjálfur er hvorki ljótur né ógnandi. Vald karlmannsins í heiminum, sem grundvallast á líkamlegum styrk hans, er hins vegar ógnandi.


þriðjudagur, janúar 31, 2017

Stéttarfélag kennara bregst umbjóðendum sínum

Eins og áður hefur verið greint frá á þessari síðu sendi ég fyrirspurn á Ólaf Loftsson formann Félags grunnskólakennara í ágúst síðastliðnum. Fyrirspurnin snerist um hvort Þingeyjarskóla hafi borið að auglýsa starf teymisstjóra og myndmenntakennara við skólann en hvorirtveggja voru ráðnir við skólann fyrir skólaárið 2015-2016.  Báðir sinna enn stöðum sínum sem heldur hafa tútnað út.
Samskiptin voru nokkuð harðorð af beggja hálfu en enduðu með því að Ólafur sagðist ætla að setja lögfræðing félagsins í málið.
Eins og áður sagði óskaði ég eftir niðurstöðu úr úttekt lögfræðingsins í október síðastliðnum. Enn hefur ekkert svar borist.

25. janúar síðastliðinn ákvað ég að reyna aftur og sendi afrit af fyrirspurninni til Þórðar Hjaltested formanns KÍ,  Önnu Rósar Sigmundsdóttur lögfræðings KÍ og Hermanns Aðalsteinssonar ritstjóra 641.is. Ég sendi með afrit af samtali okkar Ólafs ef hann væri búinn að gleyma að hann hafði sagt beinum orðum að hann ætlaði að láta lögfræðing félagsins skoða málið. Enn hefur ekkert svar borist.

Krafan sem ég er að gera er sú að hann standi við orð sín. Hann sagðist ætla að biðja lögfræðinginn að skoða þetta.
Ef lögfræðingurinn hefur skoðað þetta og komist að þeirri niðurstöðu að allt sé í lagi með vinnubrögðin þá er eðlilegt að svara því til og rökstyðja.

Mér dettur ekki í hug nema ein skýring á þessari þögn og hún er sú að Félag grunnskólakennara ásamt formanni og lögfræðingi KÍ séu að hylma yfir eitthvað.


Ólafur Loftsson (2. f..h.) undirritar samninginn sem inniheldur
m.a. klausu um auglýsingaskyldu starfa.

mánudagur, janúar 30, 2017

Fyrirmynd í þágu stórbúa

Landssamband kúabænda (LK) og Samtök afurðastöðva í mjólkuriðnaði (SAM) hafa ákvarðað sameiginlega stefnu um Fyrirmyndarbú LK og SAM. Með þeirri stefnu sem sett er í Fyrirmyndarbúinu og þeim starfsreglum sem því eru sett, vilja kúabændur og mjólkuriðnaðurinn tryggja að íslenskum neytendum standi ávallt til boða íslenskar mjólkurafurðir sem eru traustsins verðar.
Þetta er lofsvert framtak á allan hátt. Nema hvað að stjórn Auðhumlu ákvað á fundi sínum þann 24. nóv. sl. að verðlauna þau bú sem stæðust kröfur Fyrirmyndarbúsins með 2% hækkun á afurðir.
Auðhumla er samvinnufélag bænda svo það fé sem hún úthlutar er úr sameiginlegum sjóð eiganda. En það má alveg leiða að því rök að fjárhagslegur hvati til að gera vel sé sá hvati sem þarf. 
Markmið fyrirmyndabúsins eru góð og vel úr garði gerð. Hins vegar eru nokkur atriði sem vekja þann grun að verið sé að hygla nýjustu róbótafjósunum á kostnað eldri og minni búa, sérstaklega básafjósa.

Nautaeldi er tekið með í úttektinni. 
Róbótafjósin eru stærri og þurfa almennt ekki að hafa nautaeldi með. Nautaeldið er yfirleitt í hrárra húsnæði, þ.e. húsnæði sem ekki hefur hingað til verið gerðar sömu kröfur til og til fjósanna. Húsnæði nautaeldisins getur því dregið niður heildareinkunn húsakosts.

Mottur
Algengustu básafjósamotturnar eru dæmdar ónothæfar fyrirfram því þær eru taldar of harðar. Svona mottur hafa hingað til verið taldar góðar og eru framleiddar í básafjós og standast kröfur MAST.

Útivist kúa.
Í kynningarbæklingi fyrirmyndarbúsins segir á bls.6:  LK og SAM eru sammála um að leggja sérstaka áherslu á:... að gripir njóti útivistar samkvæmt gildandi reglum.
Þegar gátlistinn er skoðaður kemur hins vegar berlega í ljós að útivist gripa hefur ekkert gildi. 
Þetta þýðir að fræðilegur möguleiki er á því að bú sem sinnir ekki útivist gripa sinna getur orðið fyrirmyndarbú. Eru það búin sem SAM og LK vilja hygla?

Útivist gripa býður upp á meiri vinnu og meiri átroðning á umhverfi. Gripirnir bera líka með sér fræ og bera á í kringum húsin. Það hlýtur að liggja ljóst fyrir að erfiðara er að halda nánasta umhverfi útivistarfjósa stöðugt fullkomlega snyrtilegu. Auðvitað er hægt að eitra í kringum húsin en er það virkilega það sem við viljum?

Eins og gátlistinn er uppsettur núna er ekki hægt að sjá annað en að SAM og LK séu að hygla stærri búunum og reyna að losa sig við litlu búin.






sunnudagur, janúar 29, 2017

Fljótum ekki sofandi að feigðarósi

Í desember síðastliðnum var samþykktur nýr kjarasamningur hjá grunnskólakennurum. Samningurinn hefur ekki miklar launahækkanir í för með sér en þó eitthvað og þurfa sveitarfélögin að leggja meira til. Og mikið rétt, í fundargerð sveitarstjórnar Þingeyjarsveitar frá því 15. des. sl. er viðauki til fræðslumála upp á 30 milljónir.
Nú virðist sveitarfélagið vera ansi ríkt, það er alla vega hægt að hækka laun sveitarstjórnarfulltrúa verulega og borga frænkum þeirra tvöföld laun í heilt ár. Þá mætti sveitarstjórinn okkar í sjónvarpið og neitaði því ekki að Þeistareykir myndu og væru nú þegar byrjaðir að mala gull fyrir sveitarfélagið.
Þannig að launahækkanir kennara ættu ekki að valda okkur miklum áhyggjum. Hins vegar hafa kennarar látið í veðri vaka að þeir séu hreint ekki sáttir og séu aðeins að safna kröftum til að sækja frekari hækkanir.
Í kosningabaráttunni 2014 var Stórutjarnaskóli ekki í eldlínunni og lofað að hann yrði friðhelgur allt kjörtímabilið. Ég hef rökstuddan grun að ætla að hann verði ekki jafnfriðhelgur næsta kjörtímabil.
Þegar Þingeyjarskóli hóf starf undir sameinuðu þaki var farið í talsverðar framkvæmdir. Á síðu skólans sjálfs segir: „miklar endurbætur.“  Kostnaður endurbótanna var þvílíkur að meirihluti sveitarstjórnar firrtist ákaflega við fyrirspurnum þar um og braut sínar eigin siðareglur og hjólaði í íbúa í sveitarfélaginu.



 Í fundargerð fræðslunefndar frá í haust segir:
Framkvæmdir voru í matsal skólans í sumar, m.a. var hljóðvist bætt, lýsing endurnýjuð, málaðir veggir og skipt um ofna. Vatnstjón varð vegna leka viku fyrir skólasetningu. Enn er vinna í gangi við lagfæringar.
 Næsta fundargerð fræðslunefndar er líka spennandi:

Einnig kemur hann [skólastjóri Þingeyjarskóla] á framfæri nauðsyn þess að uppfæra tölvukost skólans og óskar eftir því að gert verði ráð fyrir kostnaði vegna þess í fjárhagsáætlun eignasjóðs fyrir næsta ár. Áætlunin gerir ráð fyrir 1,5 milljón til endurnýjunar á tölvubúnaði á næsta ári en tvöfalda þyrfti þá upphæð til að flýta endurnýjun.  
Fræðslunefnd telur mikilvægt í ljósi þess að ljósleiðari verði á næstunni tengdur inn í skólann að farið verði í endurnýjun á tækjabúnaði til að möguleikar hans nýtist sem best. 
Jóhann ræddi líka formið á sundkennslu á yngsta stigi og möguleikana á að kenna þeim börnum sund í lauginni við skólann. Telur hann það æskilegt. Fram fór umræða um kosti og galla og einnig um viðhaldsþörf á sundlauginni.  
Fræðslunefnd tekur undir sjónarmið skólastjóra og telur æskilegt að yngstu börnunum væri kennt sund í lauginni við skólann. Nefndin leggur til að fram fari kostnaðarmat á þeim endurbótum sem þarf að gera á lauginni til að það geti orðið.
Uppfæra tölvukostinn? Ekkert mál. Laga sundlaugina? Elskan mín, hvað vantar þig mikið?

Hefur Stórutjarnaskóli jafn greiðan aðgang að fjármagni? Ég veit það ekki. En ég veit að einhverjar ef ekki flestar töflurnar í Stórutjarnaskóla eru ónýtar og búnar að vera lengi. Þingeyjarskóli er með snjalltöflur. Snjalltöflur, takk fyrir. Nemendur unglingastigs Þingeyjarskóla fengu snjalltölvur, ekki nemendur unglingastig Stórutjarnaskóla.

Í fyrra vorum við nokkrir foreldrar að kvarta undan heimasíðu Stórutjarnaskóla en hún er óneitanlega barn síns tíma. Hún dugar ekki fyrir myndir svo þær eru settar á aukasíðu. Ekki er til fjármagn til að uppfæra síðuna. Síðan hafa síður Þingeyjarskóla og sveitarfélagsins verið uppfærðar.
Ég held að það sé alveg ljóst hvað er að gerast. Það er verið að leika sama leik og auðvaldið leikur til að einkavæða velferðarkerfið. Stjórutjarnaskóli er skorinn inn að beini, viðhaldi og innkaupum frestað á meðan mokað er í Þingeyjarskóla. Svo þegar líður að kosningum þá verður talað um þörfina á sameiningu vegna launahækkana kennara og bent á að allar aðstæður séu betri í Þingeyjarskóla.
Persónulega er mér alveg sama hvar skólinn er. Það skiptir mig hins vegar öllu hvernig skólinn er.  Ég ætla að segja það hreint út: Að mínu viti er Stórutjarnaskóli miklu betri skóli en Þingeyjarskóli. Ef sameiningin verður á þá leið að Stórutjarnaskóli fer með manni og mús í Aðaldalinn þá er það allt í lagi mín vegna. En það er bara ekki það sem gerist. Við höfum aldeilis tekið eftir að fulltrúar Aðaldælinga sinna hagsmunagæslunni vel. (Já, ég veit, við erum sameinuð, blabla. Það er  auðvelt að vera stórlyndur þegar maður situr með öll tromp á hendi.)

Svona talandi um launakostnað þá var annað sem ég fann þegar ég skoðaði nýju (en illa uppfærðu) síðu Þingeyjarskóla. Í fyrra voru átta umsjónarkennarar! Átta af 11,5 stöðugildi kennara í skólanum. Það er alla vega einn launaflokkur tveir launaflokkar fyrir umsjón. Átta umsjónarkennarar fyrir ca. sextíu börn.  Ef ég man rétt þá eiga líka að vera starfandi þrír verkefnastjórar/stigsstjórar/teymisstjórar í skólanum. Það eru sem sagt fjórir stjórnendur og átta umsjónarkennarar. Í Stórutjarnaskóla eru tveir stjórnendur og fjórir umsjónarkennarar. Langar einhvern að reikna út launakostnað grunnskóladeildanna?

Það er engum vafa undirorpið í mínum huga að Hollvinasamtök Stórutjarnaskóla verða að átta sig á að framtíð skólans er komin á óvissustig.








mánudagur, janúar 23, 2017

Fyrirmyndar-starfsmaðurinn

Ímyndum okkur fyrirtæki, segjum fyrirtæki í framleiðslu. Það eru þó nokkrir starfsmenn í fyrirtækinu en fer þó sífækkandi. Fyrirtækið sér að það hefur fjárhagslega burði til að hækka laun allra starfsmanna um 2% en ákveður að nýta möguleikann sem hvata til að efla ímynd fyrirtækisins. Það er settur upp mælikvarði til að meta starfsmenn og svo geta starfsmenn sótt um að fara í matið. Þeir starfsmenn sem standast matið fá 2% launahækkun.
Kvarðinn er eftirfarandi:

  • Vinna starfsmannsins.
  • Ánægja viðskiptavina með afurð.
  • Útlit starfsmannsins.

Svo er afurðasérfræðingurinn Jón Arnarson fenginn til að meta starfsmennina. 
Nú gerist það að nokkrir starfsmenn standast ekki mat Jóns vegna útlits. Afurðin þeirra er góð, viðskiptavinir eru sáttir, það eru bara slitnu fötin. Viðskiptavinir mega vissulega koma í heimsókn í fyrirtækið og þeir gætu mögulega gengið fram hjá vinnuaðstöðu þeirra og séð fötin. En starfsmennirnir telja að föt þeirra hafi ekki áhrif á gæði vinnu þeirra og huglægt mat Jóns á útliti þeirra eigi ekki að stjórna launum þeirra, og vilja áfrýja málinu. Það er ekki hægt. Þeir geta hins vegar beðið um endurmat en það er Jón sem mun sinna því.

Væru launþegar sáttir við þetta?



Færsla Lögreglunnar á Norðurlandi eystra

Það mun mér hæfara fólk fjalla um þessa færslu Lögreglunnar á Norðurlandi eystra en það eru nokkrir hlutir í þessu sem mig sem almennur áhor...