Sunnudagshugvekjan.

Einu sinni var gamall prestur úti á landi. Hann bjó við fjörð og var hægt að stytta sér leið yfir fjörðinn þegar var fjara. Einu sinni sem oftar ákveður séra Jón að stytta sér leið yfir fjörðinn. Gallinn var hins vegar sá að séra Jón var orðinn aldurhniginn og hæggengur og byrjaði að flæða að á meðan hann var enn að ganga yfir. Þegar sjórinn var kominn upp að læri kom að bátur og séra Jóni er boðið far. ,,Nei" svarar séra Jón ,,Guð sér um sína" og heldur göngu sinni áfram. Þegar sjórinn er kominn upp að bringuspölum kemur annar bátur og séra Jón innilega hvattur til að þiggja far. ,,Nei" svarar séra Jón aftur ,,Guð sér um sína". Endar með að flæðir alveg að og séra Jón drukknar.
Séra Jón fer auðvitað beint til himnríkis og er hleypt inn. Nema hvað að hann er illa pirraður og heimtar viðtal við Guð prontó sem hann fær. Þegar hann kemur fyrir Guð er hann fúll og spyr hvað það eigi eiginlega að þýða að láta dyggan þjón til 50 ára bara drukkna si sona eins og ekkert sé. Þá segir Guð: ,,En Jón minn, ég sendi tvo báta."


Mér var sagður þessi brandari í menntó fyrir mörgum árum síðan og þó svo ég muni brandara illa þá hef ég alltaf munað þennan. Hann segir nefnilega talsvert mikið.
Um daginn var ég að horfa á Hildago og í einu atriðinu lendir keppandi í kviksyndi. Aðalhetjan kemur að en sá í kviksyndinu segist ekki vilja neina hjálp, Guð ætli honum að deyja þarna. Ég sat heima hjá mér og spurði sjónvarpið af hverju í ósköpunum maðurinn héldi að Guð hefði sent manninn til hans ef hann ætti að deyja þarna.
Eins og allir vita þá var ég með ægilega pest fyrir stuttu. Ekkert þráði ég heitar en til væri lyf við pestinni sem gæti læknað hana. Svo ég fór að spá af hverju sumt fólk neitaði læknishjálp af trúarástæðum. Hver heldur það eiginlega að hafi fundið upp lyfin? Þegar maður er veikur er þá ekki lyf eða aðgerð sem getur bætt líðanina eða jafnvel bjargað lífi manns kraftaverk?
Af hverju ætlumst við til að kraftaverk séu stór í sniðum? Af hverju á Guð að koma á brennandi eldvagni með halastjörnurnar á eftir sér til að við föttum að góðir hlutir eru að gerast? Stundum eru bestu hlutirnir ósköp einfaldir og smáir.

Ummæli

Vinsælar færslur af þessu bloggi

Krossinn sem ég ber

Vandamál og lausnir