Helvítis kerlingin skal þegja II

Í fyrri pistli var spurt á hvaða vegferð þeir menn væru sem gætu ekki samþykkt sínar eigin tillögur. Reyndar veit ég á hvaða vegferð alla vega annar þeirra er. Þetta er hluti úr bréfi lögfræðings hans til þáverandi lögfræðings okkar:
Umbj. m. hefur falið mér að gera skýrt grein fyrir því við umbj. XXX að meðan allar bloggfærslur og samsvarandi færslur eru ekki teknar niður og skrifum hætt um málefni búsins verður ekki um frekara samstarf eða viðræður um lausn þessa máls að tefla. Gildir það jafnt um allar færslur á öllum miðlum. Þá fyrst þegar 4 vikur eru liðnar frá því bloggfærslur og aðrar samsvarandi færslur eru teknar niður og ekki hafa birtst að nýju eða aðrar nýjar færslur, þar sem fjallað er hvort heldur sem er með beinum eða óbeinum hætti um málefni umbj. m. og félagið og búrekstur, verður hægt að halda viðræðum áfram um lausn málsins. Birtist nýjar færslur eða finnist innan slíks tímabils, hefst nýtt 4 vikna tímabil þar sem umbj. m. mun ekki láta málið til sín taka eða veita atbeina sinn til lausnar málinu.
Það er algjört aðalatriði í huga þessa manns að hafa stjórn á þessari helvítis kerlingu. Hún skal þegja sama hvað það kostar. Hann verður, hann bara verður, að hafa dagskrárvaldið. Ef þetta gerist ekki algjörlega á hans forsendum þá gerist það ekki. Frekar skal hann búa einn og óhamingjusamur við hliðina á okkur árum saman frekar en að leysa þetta mál. Helvítis kerlingin hún skal hún skal hún skal hún skal hún skal þegja!

Ég hef margoft komið inn á það að bloggið er ekki ástæða fyrir einu eða neinu. Bloggið er viðbrögð við hans framkomu. Okkar hlið á málinu. Af hverju má okkar hlið ekki heyrast? Ef það sem við erum að segja er svona rangt þá ætti nú að vera hægur vandi að benda á það og sýna hvað við erum lygin og ómerkileg. Er tilfellið kannski það að við erum að fara rétt með? 

Samningaumleitanir eru yfirleitt á þann veg að ef aðili vill eitthvað frá öðrum þá verður hann að gefa eitthvað eftir í staðinn. Hvað haldið þið að mér sé boðið í staðinn fyrir að "taka allt niður alls staðar og halda kjafti í fjórar vikur"? Sem er honum greinilega mjög mikið hjartans mál.

Ekkert. 

Alla vega ekkert af því sem við viljum. Það sem við fáum í staðinn er að hann ætlar kannski að fara í viðræður um að selja undan okkur húsið svo hans eignir verði verðmeiri. En bara kannski.

Furðulegt að ég skuli ekki hlýða.

En auðvitað snýst þetta ekkert um bloggið. Þessi leiðindi voru búin að vera í gangi í níu mánuði áður en ég fór að blogga um þau. Hann var ekki til neinna viðræðna á þeim tíma heldur. Ef það væri ekki bloggið þá væri það bara eitthvað annað. Þetta snýst um vald. Að hafa okkur undir hælnum. Að ráða okkur og stjórna. Ef hann semur við okkur eða leysir þetta mál þá missir hann það litla vald sem hann hefur í heiminum.

Ég veit hins vegar ekki hvað hinum gengur til. Hvernig hann vinnur stöðugt gegn eigin hagsmunum og leyfir litla bróður sínum að blóðmjólka búið. Litli bróðir fær að skaffa sér hátekjulaun án samþykkis stjórnar. Auðvitað er enginn arður greiddur út því það fer allt í þessar launagreiðslur eins eigandans og hinir sitja eftir með ekkert. Litli bróðir má líka alveg búa leigulaust í húsi búsins þótt honum hafi verið gefið annað hús á lóðinni sem stendur autt. Búið er að grotna niður, með þessu áframhaldi verður það verðlaust eftir nokkur ár.
Síst af öllu skil ég hvernig hægt var, eftir áralangar kröfur um að vera keyptur út, að hafna fyrst 30 milljóna króna tilboði og svo 28 milljóna króna tilboði, af því það var "undir væntingum", og vinna svo við það að hreinsa draslið undan bræðrum sínum. Ég næ bara engan veginn upp í það.
Það býður enginn hærra á meðan búið er ekki á sölu. Það hlýtur hver heilvita maður að sjá það.*


Kosturinn við þessa samvinnu þeirra og samstöðu er sá að nú er hægt að fara að vinna með 18. grein laga um ehf.


 [18. gr. a.  Hluthafi getur krafist dóms fyrir því að félagið innleysi hlut hans í félaginu enda standi veigamikil rök til þess að honum verði gert kleift að losna úr félaginu vegna þess að:     

1. félagsstjórn, framkvæmdastjóri eða aðrir, sem fram koma fyrir hönd félags, svo og hluthafar, hafa brotið gegn ákvæðum 51. og 70. gr. um öflun ótilhlýðilegra hagsmuna;
    2. annar hluthafi í félaginu hefur misbeitt áhrifum sínum í félaginu;
    3. djúpstæður og langvarandi ágreiningur er milli hluthafans og annarra hluthafa um rekstur félagsins.
 Ef innlausn skv. 1. mgr. leiðir til umtalsverðs tjóns fyrir félagið eða leiðir með öðrum hætti til ósanngjarnrar niðurstöðu fyrir það skal ekki taka kröfu hluthafans til greina. Sama máli gegnir ef félagið finnur einhvern sem er reiðubúinn til að kaupa hlutina gegn greiðslu er svarar til innlausnarverðsins. [Ákvæði 4. mgr. 14. gr. gildir eftir því sem við á.] 1)2)

*Það hefði örugglega verið gott að hafa þessa peninga í vasanum við íbúðarkaupin. 

Ummæli

Vinsælar færslur af þessu bloggi

Blikar á ljáinn

161 fm einbýlishús, 1/3 í kúabúi og gistikot til sölu á 73,5 milljónir

Að semja við narsissista