miðvikudagur, október 13, 2004

Í sumar vann ég sem ófaglærður starfsmaður á geðdeild. Undarlegt alveg að ég skyldi þurfa þess eftir þessi rífandi laun síðasta vetur. Það vill bara þannig til að í sumar duttu útborguð laun niður í 130 þús. sem ég efast nú samt ekki um að sumum finnist rosalega gott. En þegar það er búið að borga húsnæðislánin og hina og þessa reikninga og svo auðvitað fara í lúxusferð með Iceland Express til Svíþjóðar til vera við fermingu (einmitt, hvað er ég kvarta, lifi bara eins og drottning) þá var bara ekkert mikið eftir. Svo stóð auðvitað til að klæða ættaróðalið með bárujárni (já, ég sé það núna að ég veit greinilega ekki aura minna tal). Bárujárnið var reyndar valið vegna þess að það er ódýrast. Svo vissi ég að það myndi skella á verkfall.
En ég fann alla vega launaseðil frá því í sumar þegar ég vann sem ófaglærður starfsmaður, maður þarf ekki einu sinni að hafa grunnskólaprófið. Útborguð laun fyrir júlí voru 94.662,- Nú ber að hafa það í huga að skattkortið mitt var hjá Fræðslumiðstöð svo ofboðslega háu tekjurnar mínar þaðan yrðu ekki skattlagðar svo ég borgaði fullan skatt af spítala-laununum. Ég er nú ekki mjög skattfróð en í fyrra var persónuafslátturinn á mánuði 26.825,- Svo ef við mínusum það þá hefði ég átt að fá útborgað 121.487,- Vinsamlegast takið eftir að kennaralaunin án yfirvinnu eru 130.922,- og eins og ég hef komið inn hérna einhvers staðar þá er sú yfirvinna sem ég hef mjög sjaldgæf í kennarastéttinni eða einn kennari í hverjum skóla, félagsstarfskennarinn.
Mér finnst að sjálfsögðu rétt að taka fram að spítalavinnan er vaktavinna og þennan mánuð skipti ég á 6 dag- og/eða kvöldvöktum fyrir 6 næturvaktir en ég tók engar aukavaktir svo ég vann ekki meira en 100% vinnu þennan mánuðinn.

7 ummæli:

  1. Það örlar á hroka í þessum skrifum þínum.
    Ég stend með kennurunum í þessari deilu en mér finnst rétt að benda á að á geðdeildum og sambýlum er munurinn á launum þeirra sem hafa menntun á sínu sviði og ófaglærðra er svo lítill að fæstum finnst taka því að mennta sig.
    Fólk sem starfar á slíkum deildum á, tæknilega séð, að vera menntað (t.d. sem þroskaþjálfar), en landsspítalinn hefur einfaldlega enga burði til þess að fylgja því eftir vegna skorts á fólki með menntun á þessu sviði.

    SvaraEyða
  2. Það er ekki til að mér finnist ófaglærðir strafsmenn neitt öfundsverðir af launum sínum ég er aðeins að benda á að kennarar eru ekki ,,hátekjufólk".
    Ég er aldeilis búin að ná því að það að vilja fá menntun sína metna að verðleikum flokkast undir hroka að ýmsra mati.

    SvaraEyða
  3. Þú leggur mér orð í munn. Ég sagði ekki að kjarabarátta kennara væri hrokafull. Og ég tók það fram að ég stæði með kennurum í þessu máli.

    Þegar ég sagði að mér þætti örla á hroka í skrifum þínum átti ég einungis við að þú berð kennarastéttina saman við stétt sem er mun mun mun verr stödd heldur en kennarar.
    Það var ekki meining mín að móðga þig. Ef ég gerði það, þá biðst ég afsökunar.

    SvaraEyða
  4. Ég sagði aldrei að þú hefðir sagt að kjarabarátta kennara væri hrokafull. Það ert þú sem ert að leggja mér orð í munn hér.
    Svo skil ég ekki hvað er svona ,,hrokafullt" við samanburðinn. Ég vann þessa vinnu, ég var geðdeildarstarfsmaður í þrjú ár með námi. Heldurðu í alvöru að ég viti ekki hvað þetta er?
    100% vinna (engar aukavaktir) með vaktaálagi skilar 121.487,- 100% kennsla í dagvinnu með engri yfirvinnu skilar mér 130.922,- Hvernig færðu það út að ófaglærðir séu mun, mun verr staddir?
    Svo segir þú :,,munurinn á launum þeirra sem hafa menntun á sínu sviði og ófaglærðra er svo lítill að fæstum finnst taka því að mennta sig."
    Finnst þér þá ekki rétt að menntunin ætti að skila meiru svo fólk mennti sig frekar og verði kannski hæfari og betri starfsmenn? Þú lætur alla vega að því liggja þegar þú segir að það þyrfti fleiri faglærða inn á deildir en spítalinn hafi ekki bolmagn til að borga það. Til hvers í ósköpunum ætti fólk að mennta sig ef það skilar engu?
    Þannig að hvað ertu að segja? Þú styður kjarabaráttu kennara en finnst hrokafullt að mér finnist að háskólamenntað fólk eigi að hafa hærri laun en ófaglærðir þannig að hvernig í ósköpunum geturðu þá ,,stutt" kjarabaráttu kennara? Svo segirðu að menntunin skili engu svo það fólk sem ætti að vera á deildunum er ekki þar þannig í rauninni þyrfti menntunin að skila meiru. Sem er alveg nákvæmlega það sem mér finnst. Mér finnst að menntun eigi að skila sér í launum!
    Það þarf meira en þversagnakenndan málflutning til að móðga mig. Yfirlætisfullar afsakanabeiðnir komast hins vegar ansi nálægt því.

    SvaraEyða
  5. Við erum misjöfn eins og við erum mörg. Mér finnst það t.d. vera hroki að segja skammarlega lág laun annara vera ástæðu fyrir að þín eigin laun ættu að vera hærri. Eins finnst ekki öllum kurteisi eða nærgætni vera yfirlæti.
    Þér er frjálst að túlka orð mín eins og þú vilt þar sem þér líður greinilega betur þegar þér finnst allir vera á móti þér.

    SvaraEyða
  6. Ag, annað hvort ertu bara ekki að skilja það sem ég er að segja eða þú snýrð vísvitandi út úr.
    Ahugasamur, ef þú hefðir lesið aðeins meira af því sem ég hef skrifað þá vissirðu að ég hef þessa þrjá skólastjóralaunaflokka og þessi 130 þús eru með þeim. Það hefur líka margkomið fram að kennarar undir 45 ára aldri komast ekki nálægt þessum uppgefnu heildarlaunum.

    SvaraEyða
  7. PS.
    Ég er líka alveg sammála þér í því að laun ófaglærðra séu skammarlega lág. Persónulega finnst mér Ríkið hafa tvær frumskyldur; að mennta þegna sína og hjúkra þeim. En því miður þá virðast ráðamenn ekki vera sammála mér í því. Ég held líka að ef laun starfsmanna og faglærðra yrðu hækkuð þá myndi það að lokum koma út í sparnaði. Eins og staðan er í dag þá eru örar mannabreytingar, dýrmæt reynsla tapast og það er sífellt verið að þjálfa upp nýja starfsmenn.
    En leyfist mér þá að benda á með sömu rökum að þar sem ekki munar mjög miklu á launum kennara og ófaglærðra starfsmanna að laun kennara eru skammarlega lág. Ef við tökum þennan 130 þús. kall sem ég fékk fyrir júlí þá er auðvitað engin yfirvinna í því en inni mín laun kemur aukalaunaflokkur þar sem ég hef líka framhaldsskólakennararéttindi og þessir 3 skólastjórapottar. Jafnaldri minn sem kemur úr KHÍ og hefur kannski bara 2 skólastjórapotta hefur lægri laun en ég. Og hvað viðkemur minni yfirvinnu þá hef ég margoft komið inn á að það hefur enginn í mínum skóla jafnmikla yfirvinnu og ég. Þannig að jafnaldri minn (og allir yngri en 45 ára) úr KHÍ án yfirvinnu er að fá 130-140 þús útborgað á mánuði, líka á veturna.
    Hvað viðkemur því við hvern ég ber mig saman við þá útskýrist það einfaldlega af því að þetta er sú vinna sem ég vann í sumar og þeir launaseðlar sem ég hef í höndum.

    SvaraEyða

Færsla Lögreglunnar á Norðurlandi eystra

Það mun mér hæfara fólk fjalla um þessa færslu Lögreglunnar á Norðurlandi eystra en það eru nokkrir hlutir í þessu sem mig sem almennur áhor...