sunnudagur, nóvember 06, 2005

Þá er ég búin að afgreiða á barnum og syngja í messu sem kórfélagi. Afmælisbarnið skaffaði búsið og við bardömurnar helltum bara ókeypis víni. Samt var ekki örtröð á barnum! Þingeyingar eru lélegir drykkjumenn. Þykir mér það merkileg uppgötvun. Mér fannst veislan ekki skemmtileg en ég vil náttúrulega hafa dúndrandi rokk og hoppa og syngja úti á gólfi. Samt gerði ég mitt besta til að syngja og dansa á bak við barinn með rólegu þjóðlagasöngvurunum. Þegar ég fer að hugsa um það þá voru mestu lætin í mér í þessu partýi. Samstarfskona mín segir að annað fólk hafi skemmt sér vel, fólki finnist gaman að hittast og spjalla og þurfi ekkert endilega að hoppa við rokktónlist. Ég hef að sjálfsögðu enga trú á því:)
Það var sálumessa í dag og ég fór ekkert mikið út af laginu. Ég er frekar hrifin af þessum litlu sveitakirkjum og nándinni í guðsþjónustunni. Það þekkja allir alla í kirkjunni, presturinn var með stutta og hnitmiðaða predikun, fólk söng talsvert með. Þetta var alveg ljómandi.
Svo fékk ég góða heimsókn í dag úr Reykjavík. Það var gaman. Tókst að baka pönnukökur þótt ég eigi enga pönnukökupönnu. Því verður reddað í næstu kaupstaðaferð.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli