Ég ætla að demba mér í frásögnina af viðskiptunum við Og Vodafone þar sem það er sálarhjálparatriði að skrifa sig frá pirringi.
Fyrir einhverjum árum síðan þegar ég ákvað að nútímavæðast og nettengjast valdi ég ADSL pakka frá Og Vodafone. Það var allt hið ágætasta mál og minnir mig að mánaðaráskriftin hafi verið ca. 3000 krónur. Svo fór Og Vodafone að hringja í mig og bjóða mér að færa heimasímann til sín og GSM símann. Allt hljómaði þetta ágætlega og ég færði öll mín viðskipti til þeirra. Nú í lok sumars flutti ég út á land þar sem engin ADSL tenging er til staðar. Þannig að ef ég vil hafa netsamband þarf það að vera innhringisamband. Ég hringdi reglulega í Og Vodafone til að ganga frá þessu, segja upp ADSL áskrift og spyrjast fyrir um kostnað, hraða og þvíumlíkt. Allt var þetta klappað og klárt og ekkert vandamál. Ég set inn innhringinúmerið hjá Og Vodafone. Mínútan kostar 2 krónur og ekkert upphafsgjald. Mér reiknast það til að ég megi vera á netinu í um klukkutíma á dag og þá borgi ég 3750 fyrir mánuðinn. Helst þarf ég að vera styttri tíma á netinu en innhringisambandið er muuun hægara en ADSL. Af því að það er ekkert upphafsgjald hjá Og Vodafone þá er ég ekkert að sitja í beit við tölvuna í klukkutíma. Ég kíki kannski í korter og svo tíu mínútur og seinna 20 mínútur. Svo kemst ég nú að því að ef ég tek símalínuna ekki úr sambandi þá hringir tölvan stundum sjálf inn og er eitthvað að dunda á netinu. Ég var nú sem betur fer frekar fljót að fatta þetta. Alla vega allt í orden.
Í lok september fæ ég hins vegar rúmlega 13 þúsund króna reikning frá Símanum. Reikningurinn er skelfilega hár og undarlegur að því leyti að mín viðskipti eru ekki hjá Símanum. Ég hringi þangað og bíð í hálftíma og fæ þá þær fréttir að mín notkun sé hjá þeim, ég þurfi að tala við Og Vodafone, þeir hafi ekki tilkynnt um að notkunin mín væri hjá þeim. Ég hringi í Og Vodafone sem telur að Síminn hafi stolið notkuninni minni. Það liggur ljóst fyrir að Síminn er með örlítið hærra mínútugjald en það sem skiptir mestu máli er upphafsgjaldið hjá þeim. Ég var búin að nota netið á þeim forsendum að ég væri ekki að borga neitt upphafsgjald af því að það er ekki hjá Og Vodafone. Hins vegar er þjónustufulltrúinn það elskulegur að hann lætur Og Vodafone taka á sig helminginn af reikningnum þar sem þetta eru náttúrulega mistök annars hvors símafyrirtækisins þótt þau bendi á hvort annað. En þar sem þessi reikningur var fyrir ágúst þá var búin að stunda netið á sama hátt bróðupart september mánaðar, á algjörlega röngum forsendum. Svo þjónustufulltrúinn segir mér að hafa bara samband þegar sá reikningur berst. Ég verð að klára mánuðinn hjá Símanum en um mánaðrmót sept-okt. Þá færist notkunin yfir til Og Vodafone. Út september passa ég mína netnotkun og ef ég fer á netið þá bara einu sinni á dag til að spara upphafsgjald. Svo kemur reikningur frá Símanum upp á rúmar 7 þúsund krónur. Ég hringi í vinsamlega þjónustufulltrúann. Þá hafði yfirmaðurinn farið yfir þetta og fannst endurgreiðslan ,,mjög rífleg”. Já, já. Ég þarf að faxa nýja reikning sundurliðaðn. Mér finnst svo sem alveg skiljanlegt að þau vilji sjá reikninginn, þau hafa ekkert nema mín orð fyrir upphæðunum. Ég faxa sunduliðaða partinn en það er þá ekki nóg. Hann þarf að vera algjörlega sundurliðaður svo þau sjái nákvæmlega hversu oft ég hef hringt í innhringinúmerið þeirra. Það er alveg sjálfsagt að verða við þessu nema hvað ég þarf að hringja í þjónustunúmer Símans til þess og þar er heil-löng bið. Þannig að ég er orðin frekar óánægð með vesenið svo ekki sé talað um kostnaðinn sem ég þarf að standa í vegna þeirra mistaka. Þjónustufulltrúinn skilur það svo sem alveg en vill auðvitað standa á sínu og segir, alla vega tvisvar, að þau séu ,,að reyna að koma til móts við mig.” Ég bendi á að þau séu klárlega að reyna að koma sér undan því núna með yfirlýsingum um ,,ríflega endurgreiðslu". Þjónustufulltrúinn sér þá yfirlýsingu ekki á sama hátt og ég. Undarlegt þar sem það er ekki hægt að skilja hana nema á einn veg.
Persónulega finnst mér að fyrirtækið sem klúðrar málinu, og það var Og Vodafone því ég marghringdi vegna uppsetningar á módaldinu og með öðrum fyrirspurnum og allir alltaf með það á tæru að ég væri áskrifandi þeirra, eigi að gera meira en bara reyna að lagfæra sín mistök og koma eitthvað meira en pínulítið til móts við mig. Þannig að ef niðurstaðan verður mér ekki þóknanleg þá mun ég segja upp viðskiptum mínum við þetta fyrirtæki. Grunnlínan er hvort sem er frá Símanum, GSM sambandið hérna frá Og Vodafone er lélegt og það er búið að setja upp emax tölvusamband í skólanum sem ég gæti mögulega orðið áskrifandi að.
laugardagur, nóvember 05, 2005
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Færsla Lögreglunnar á Norðurlandi eystra
Það mun mér hæfara fólk fjalla um þessa færslu Lögreglunnar á Norðurlandi eystra en það eru nokkrir hlutir í þessu sem mig sem almennur áhor...
-
Ég birti hér nokkrar færslur af Facebook, lítillega uppfærðar. I. Framboðið sjálft. Af því að fólk hefur verið að lýsa undrun sinni á þeir...
-
Fyrir nokkrum árum síðan setti ég fyrirspurn inn á Turn-it-in grúppu á Facebook. Turn-it-in er forrit sem við kennarar notum til að sjá hv...
-
Ágæti Ingi Freyr. Ég las pistil þinn Það sem við tölum um þegar við tölum um mafíósa í Skagafirði sem birtist á vef Stundarinnar nýlega...
Er það nú "þjónusta" ! Gangi þér vel í baráttunni!
SvaraEyða