miðvikudagur, desember 19, 2018

Bótaábyrgð stjórnarmanna


Gefum okkur, algjörlega fræðilega samt, að meirihluti stjórnarmanna í fyrirtæki hafi ákveðið að selja allar eigur þess. Salan verður til þess að fyrirtækið er svipt rekstrargrundvelli sínum fyrir vikið og verður óstarfhæft. Stenst þetta? 
Á Skemmunni má oft finna áhugaverðar ritgerðir um hin ýmsustu mál  svo það liggur beint við að leita svara þar. Fljótlega rakst ég á ritgerðina Skyldur og refsiábyrgð stjórnarmanna í hlutafélögum eftir Ásu Kristínu Óskarsdóttur. Vert er að taka fram að lög um einkahlutafélög eru mjög sambærileg lögum um hlutafélög, oft á tíðum er um samhljóða ákvæði að ræða. Dómstólar hafa iðulega báða lagabálkana til hliðsjónar og vísa til félagaréttar.

Í leiðbeiningabæklingi Viðskiptaráðs um Stjórnarhætti fyrirtækja þar segir í gr, 2.1.1 um hlutverk stjórnar:
Að fara með æðsta vald í málefnum félags milli hluthafafunda, stuðla að viðgangi félagsins og hafa eftirlit með daglegum rekstri þess. (skáletrun mín.) (Viðskiptaráð Íslands, 2015, bls. 17)
Hugtakið viðgangur er skilgreint svona í Íslenskri nútímamáls orðabók Stofnunar Árna Magnússonar:
framfarir, þroski, velgengni (Stofnun Árna Magnússonar, án dags.)
Það er því ljóst að það samrýmist ekki hlutverki stjórnarmanna að svipta félag rekstrargrundvelli sínum. Sérstaklega ekki þegar fyrirtækið á ekki í nokkrum rekstrarvandræðum. Eða eins og Ása segir í ritgerð sinni:
Hlutverk stjórnar er meðal annars tilgreint í 68. gr. hfl. en stjórn hlutafélags fer með málefni félagsins, stjórnar því, og hefur það hlutverk að sjá til þess að skipulag félagsins og starfsemi þess sé í góðu horfi, allt með hagsmuni félagsins að leiðarljósi sbr. 1. mgr. 68. gr. hfl.” (skáletrun mín.) (Óskarsdóttir, 2011, bls. 14) (44. grein ehfl. er samhljóða 68. grein hfl. hvað þetta varðar.)
Stjórnarmenn hafa trúnðarskyldu gagnvart félaginu sem þeir eru stjórnarmenn í:
Trúnaðarskyldan er óskráð regla en í henni felst að í þeim tilfellum sem hagsmunir félagsins rekast á við hagsmuni stjórnarmanna, hluthafa eigi hagsmunir félagsins að ganga fyrir. bls. 42

Stjórnarmenn geta orðið skaðabótaskyldir gagnvart hluthöfum og hafa fallið um það nokkrir dómar. Skapast skaðabótaskylda vegna þess að stjórnarmenn hafa ekki látið hagsmuni félagsins ganga framar sínum:  
Stjórnkerfið í lögunum á að tryggja að engir aðrir hagsmunir en hagsmunir félagsins í heild séu í fyrirrúmi þegar ákvarðanir eru teknar um málefni félagsins.“ (Ása, bls. 80.) 
Sjá t.d. hrd. 393/2008 en þar segir:
Á grundvelli þeirra lagaákvæða er hér hafa verið rakin hvíldi sú skilyrðislausa skylda á ákærða sem stjórnarformanns og framkvæmdastjóra Rósvíkur ehf. að gæta að hagsmunum Rósvíkur ehf., (skáletrun mín.)
Hér má bæta við að: "framkvæmdastjóri hefur það meginverkefni að gæta hagsmuna félagsins í hvívetna." bls. 8 

Þá hafa stjórnarmenn einnig eftirlitsskyldu: „Í eftirlitsskyldu stjórnarmanna felst einnig skylda til að tryggja að eignir félagsins rýrni ekki óeðlilega mikið eða fari forgörðum. Má það sjá af niðurstöðu Hrd. í máli nr. 393/2008 frá 26. mars 2009: bls 17.

Það liggur alla vega alveg ljóst fyrir stjórnarmenn baka sér skaðabótaskyldu ef þeir selja eignir félags á undirverði. Þeir skapa sér einnig skaðabótaskyldu ef þeir láta persónulega hagsmuni ganga framar hagsmunum félagsins. Það má jafnvel deila um hvort þeir séu til þess bærir að sjá um slíka samningagerð skv. 48. grein ehfl. sem er svohljóðandi:

48. gr. https://www.althingi.is/lagas/hk.jpg Stjórnarmaður eða framkvæmdastjóri má ekki taka þátt í meðferð máls um samningsgerð milli félagsins og hans, um málshöfðun gegn honum eða um samningsgerð milli félagsins og þriðja manns eða málshöfðun gegn þriðja manni ef hann hefur þar verulegra hagsmuna að gæta sem kunna að fara í bága við hagsmuni félagsins. Skylt er stjórnarmanni og framkvæmdastjóra að upplýsa um slík atvik. 

Um þetta hefur fallið dómur hrd. 464/1998 en þar segir:
Í héraðsdómi var J, sem var stjórnarformaður í P ehf., sagður hafa brotið gegn 48. gr. og 1. mgr. 51. gr. ehfl.71 með því að afsala sjálfum sér vörubifreið frá félaginu, þar sem hann ritaði undir bæði sem kaupandi og seljandi. Fór Á sem einnig var hluthafi í P ehf. í mál til að fá greiddar skaðabætur. Dómurinn tók efnislega afstöðu í málinu varðandi söluna á bílnum og taldi að J hafi brotið umrædd ákvæði ehfl. þegar hann seldi sjálfum sér bílinn. Að öðru leyti var ekki tekin afstaða til málsins í héraðsdómi og var því var vísað frá dómivegna vanreifunar á skaðabótakröfu Á og var sú niðurstaða staðfest í Hæstarétti.Af dóminum má ráða að stjórnarmenn þurfa að gæta þess að taka ekki þátt í gerð samninga þegar þeir hafa persónulegra hagsmuna að gæta. Er ekki ólíklegt að Á hefði getað fengið skaðabætur frá J hefði skaðabótakrafan verið betur rökstudd og málinu ekki verið vísað frá vegna vanreifunar.  (bls.34)

Ég hef ekki fundið hvort kaupendur geti orðið skaðabótaskyldir við svona aðstæður en ljóst er að slíkum gjörningum hefur verið rift. Væntanlega hafa kaupendur borið af því einhvern málskostnað. Mér finnst líka mjög líklegt að fólk sem veit að það er að semja við menn sem hafa ekki hæfi til að semja geti verið gert skaðabótaskylt líka. 
Fólk sem brýtur almenn hegningarlög eins og t.d. 264. grein getur hreinlega farið í fangelsi.
[264. gr. a.  Hver sem gefur, lofar eða býður manni, sem stjórnar [innlendu eða erlendu] 1) fyrirtæki í atvinnurekstri, [þar á meðal fyrirtæki að hluta eða í heild í opinberri eigu], 2) eða innir af hendi störf á vegum þess, gjöf eða annan ávinning, sem hann á ekki tilkall til, í þágu hans eða annarra, til að fá hann til að gera eitthvað eða láta eitthvað ógert í bága við starfsskyldur hans skal sæta fangelsi allt að [5 árum], 1) eða sektum, ef málsbætur eru.  Ef maður, sem stjórnar [innlendu eða erlendu] 1) fyrirtæki í atvinnurekstri, [þar á meðal fyrirtæki að hluta eða í heild í opinberri eigu], 2) eða innir af hendi störf á vegum þess, heimtar, tekur við eða lætur lofa sér eða öðrum gjöfum eða öðrum ávinningi, sem hann á ekki tilkall til, og gerir með því eitthvað eða lætur eitthvað ógert í bága við starfsskyldur sínar, skal sæta fangelsi allt að [6 árum], 1) eða sektum, ef málsbætur eru.] 3)

En þetta kemur auðvitað allt í ljós fyrir dómi😊






föstudagur, nóvember 30, 2018

Bréf til ykkar


Mig hefur langað til að tala við ykkur í nokkurn tíma en hef ekki fengið mig til að hringja.  Ég hef líka beðið eftir því að þið hefðuð samband því mér myndi finnast það eðlilegt í stöðunni. En enginn hefur samband við neinn. Mér skilst að þið teljið mig „snarbilaða konu sem þurfi að rassskella“ svo ég tel símhringingu ekki vænlega til árangurs. Sennilega hafið þið ekki haft samband við mig af sömu ástæðu. Ég veit ekki hvort þið teljið manninn minn snarbilaðan líka

Kannski trúið þið því að ég sé „snarbiluð kona“ það er jú hin einhliða frásögn sem þið hafið hlustað á. Kannski viljið þið trúa sögunni, það hentar ykkur að trúa henni. Það er auðveldara að líta fram hjá væntingum og löngunum bilaðs fólks. Eða vonds fólks. Kannski er ég snarbiluð, kannski er ég vond.  En hvað sem því líður þá er frásögnin sem þið hafið hlustað á ekki rétt. Sagan sem er sögð er í öllum meginatriðum röng. Við vitum það, við höfum heyrt af því sem er borið  út hér á milli bæja. Þið eruð ekkert ein um það að trúa hinni einhliða frásögn.  Við getum bara ekki leiðrétt þetta allt saman, þetta er svo yfirgengilegt og endalaust.

Þegar við vildum fara þá var okkur haldið. Þegar við viljum vera þá er reynt að flæma okkur á brott. Það er stöðugt reynt að svipta undan okkur fótunum. Þetta hefur verið og er gríðarlega lýjandi og þið eruð að reyna að nýta ykkur aðstæður. Það verður ekkert fram hjá því horft. Ég get skilið það að ákveðnu leyti en ekki öllu. Þetta er fjölskyldumál. Þið væruð þau fyrstu sem við myndum hafa samband við fyrir utan fjölskylduna. En núna eruð þið að gera þetta miklu erfiðara en það þarf að vera. Ég bið ykkur að gera það ekki. Ekki taka þátt í þessari aðför.

Við viljum búa hér á Hálsi. Við viljum hafa lifibrauð okkar af búskap. Okkar langar að ala drengina okkar upp hér í sveitinni, á jörð afa síns og ömmu. Ef einhver skilur það þá eruð það þið.


Leyfið okkur það.

fimmtudagur, nóvember 29, 2018

Hversu mikið er hægt að hata eina konu?

Við erum búin að fá bankalán og getum keypt búið.
Hann vill selja allt sitt. Bara ekki okkur.
Barnabörn foreldra hans fá aldeilis að gjalda móður sinnar.


Vilji gömlu mannanna

Vilji gömlu mannanna var alveg skýr og skjalfestur. Þeir vildu að börn Gunnars tækju við á Hálsi. Marteinn er barn Gunnars. Synir Marteins eru barnabörn Gunnars.



sunnudagur, nóvember 11, 2018

Háls


Árið 1922 keyptu hjónin Marteinn Sigurðsson frá Hrafnsstöðum og Aðalbjörg Jakobsdóttir frá Skriðulandi landið sem við búum nú á, Háls í Kinn.



Marteinn og Aðalbjörg

Sigurður og Aðaljörg eignuðust 5 syni; Helga, Sigurð, Jakob, Gunnar og Hrólf.
Aðalbjörg lést því miður langt fyrir aldur fram 1953, rétt tæplega 58 ára gömul. Marteinn hins vegar náði 95 ára aldri og lést 1986.
Þessi mynd er í sérstöku uppáhaldi. Sjáið hendina.

Eins og gefur að skilja kynntist ég þessu fólki aldrei en litla stúlkan okkar Marteins er jörðuð hjá þeim.  Mér finnst gott að hugsa til þess að þau gæti hennar.
Sigurður kynntist Helgu, stúlkunni á næsta bæ, Garðshorni. Þau byggðu sér hús úr landi Garðshorns sem þau nefndu Kvíaból. Landið hefur verið sameinað aftur undir nafni Kvíabóls. Sonur Sigurðar rekur þar nú ásamt fjölskyldu sinni  myndarbú eins og þekkt er.
Jakob fékk hlut móður sinnar í Skriðulandi og bjó þar frá 1950-1952 er hann flutti alfarinn til Reykjavíkur ogt eignaðist þar börn og buru.
Þegar Aðalbjörg lést stofnuðu Marteinn og synir hans er heima sátu, Helgi, Gunnar og Hrólfur með sér félagsbú utan um Háls.
Um 1960 kom ung kona frá Rauðá sem ráðskona í Háls. Hún hét Þórhildur Vilhjálmsdóttir, kölluð Tóta. Tóta féll fyrir Gunnari og eignuðust þau með tíð og tíma fimm börn. Er Marteinn, maðurinn minn, þeirra elstur.

 Þrátt fyrir að vera bráðhuggulegir menn þá gengu Helgi og Hrólfur ekki út. Eitthvað unnu þeir fjarri Hálsi og skoðuðu heiminn en komu svo aftur heim. Þeir tóku ástfóstri við börn Gunnars enda bjuggu þeir í sama húsi fram til 1986 og fylgdu þeim til vits og ára. 1986 keyptu þeir ásamt föður sínum gamla vinnuskúra frá Kröflu og útbjuggu úr þeim huggulegt hús.


Helgi og Hrólfur

Gunnar Marteinsson x2
Árið 1994 útbjó Hrólfur erfðaskrá þar sem arfleiddi börn Gunnars að öllum sínum eigum eftir sinn dag. 2005 var gengið svo frá málum að yngri kynslóðin tók við Hálsi. Ekki öll reyndar því tvö vildu ekki vera með heldur: „..þau börn Gunnars sem vildu hafa lifibrauð sitt af búskap á Hálsi.“

Árið 2006 kynnumst við Marteinn. Ég var svo heppin að ná að kynnast Tótu tengdamóður minni og þeim Helga og Hrólfi.  

Tóta. Mjög sterkur ættarsvipur.



Árið 2008 vorum við hjónin svo lánssöm að eignast dreng. Að sjálfsögðu kom ekkert annað til greina en að skíra hann Gunnar og koma upp öðrum Gunnari Marteinssyni á Hálsi.
Árið 2012 var guð okkur aftur góður og gaf okkur annan dreng. Hann er mikill bóndi í sér og alveg sérstaklega hrifinn af kindunum.

Hér er gott að ala upp börn, fjarri ys og þys þéttbýlisins. Ég veit ekki hvort þeir vilja verða bændur en hér eru rætur þeirra. Þeim líður vel í skólanum sínum og eiga þar vini. Kannski vilja þeir gera eitthvað annað er þeir eldast en ég vona að þeir fái að alast hér upp, fái að halda rótum sínum og bæti vonandi við blómum er fram líða stundir.





laugardagur, nóvember 03, 2018

Góðir vinir II


Eins og kom fram í fyrra bloggi tel ég (með vísan til ýmissa skilgreininga) að góður vinur sé sá sem ber umhyggju fyrir vini sínum og hefur velferð hans að leiðarljósi. Eins og þar sagði gerist stundum að einstaklingur vill eitthvað sem er honum ekki gott og því vinarbragð að reyna að leiða vin sinn á rétta braut.

Stundum gerist það að einstaklingur giftist hroðalegum maka. Maka sem beitir kannski andlegu og/eða líkamlegu ofbeldi. Nú eru góð ráð dýr; við vitum að þrábarðar konur (oftast konur sem verða fyrir líkamlegu ofbeldi) eiga mjög erfitt með að koma sér út úr aðstæðunum. Þær minnast mannsins sem þær urðu ástfangnar af og vona að birtist aftur. Þær skammast sín líka fyrir þá stöðu sem þær eru í.
Í svona aðstæðum ætti að vera nokkuð þorandi að fullyrða að hjónabandið sé ekki gott og konu og börnum hollast að koma sér í burtu.

En hvað þegar kemur að andlegu ofbeldi? Það er erfiðara viðureignar. Hvað nú ef vinirnir sjá það skýrt og greinilega að einstaklingur er kúgaður af maka sínum en hann sjálfur áttar sig ekki á því? Hvað þá? Stundum áttar fólk sig á því seinna að það var beitt andlegu ofbeldi. Eiga vinir bara að bíða eftir þeirri uppljómun eða eiga þeir að skerast í leikinn?

Hvað ef maður er kúgaður af eiginkonu sinni? (Það er talið algengt að karlmenn séu kúgaðir af eiginkonum sínum. Þykir stundum mjög fyndið.) Það er mjög erfitt fyrir kúgaðan eiginmann að viðurkenna slíkt enda er karlmennskan vandmeðfarin. Hver væru hin réttu viðbrögð vina við slíku ástandi?  Sennilega væri skynsamlegt að ræða við manninn og athuga hvernig hann upplifir sambandið. Er eiginmaður kúgaður ef hann upplifir sig ekki kúgaðan? Heldur hann kannski bara að hann sé ekki kúgaður? Á þá að reyna að eyðileggja sambandið?  T.d. að bera út um víðan völl hversu ómöguleg þessi kona er? Kenna henni um allt sem aflaga fer? Hvísla með klofinni eiturtungu að hún fari á bak við hann og leyni hann upplýsingum? Reyna að hunsa hana og hvæsa svo á hana að hún þurfi að taka töflur? Láta hafa eftir sér að "þessi kona sé bara snarbiluð og það þurfi bara að flengja hana." Af því að kona sem vill ekki láta valta yfir sig á skítugum skónum hlýtur auðvitað að vera geðveik og ofbeldi gagnvart konum er svo sniðugt. Hvaða tilgangi þjónar slíkt? Er verið að „bjarga“ eiginmanninum frá þessari hryllilegu konu? Hvað ef hann á bara freka kerlingu og er hæstánægður með hana? Er þá verið að „bjarga“ honum? Frá hverju?   

Ef „vinir“ bera umhyggju fyrir einstaklingi þá reyna þeir sennilega fyrst að komast að því hvort hann sé yfir höfuð óhamingjusamur í sambandi sínu áður en þeir leggja sig í líma við að eyðileggja það fyrir honum.
Nema auðvitað þeim gangi eitthvað annað til...

fimmtudagur, nóvember 01, 2018

Yfirlýsing


Að gefnu tilefni viljum við, hjónin á Hálsi, taka eftirfarandi fram:
Hús okkar, stundum nefnt Villa Nova, er ekki til sölu. Það er ekki hluti af einhverju pakkatilboði annarra til að selja Hálsbú ehf.
Við höfum ekki veitt neinum umboð til að sjá um sölu fasteignar okkar né beðið um að slíkur möguleiki sé kannaður. Sé einhver að ráðslaga með sölu fasteignar okkar þá ber að varast viðkomandi, hann fer með svikum.
Vilji einhver endilega gera okkur tilboð er lágmarkskurteisi að athuga um áhuga okkar á slíku.
Að öðru leyti frábiðjum við okkur öll tilboð.  Alveg sérstaklega óumbeðin „tilboð“ upp á meðgjöf með fasteigninni.

Marteinn Gunnarsson
Ásta Svavarsdóttir.

miðvikudagur, október 31, 2018

Leiðrétting misskilnings (eða lygar)

Síðastliðinn fimmtudag héldu eigendur Hálsbús ehf. fund. Þar setti ónefndur eigandi (ekki Marteinn) fram þá hugmynd að allt hér yrði selt í einum pakka, m.a. húsið okkar. Einhverra hluta vegna virtist ekki vera hægt að ræða neina aðra möguleika. Kom þetta okkur heldur á óvart. 
Marteinn svaraði þessu engu og gaf heldur lítið fyrir.  Áttum við að fá hálfan mánuð til að velta þessu fyrir okkur. Í dag liggur fyrir af hverju þessi hugmynd kom fram. 
Mig langar þá að gefa hér opinbert svar við þessari hugmynd:

Vissulega er búið söluvænlegra þegar fína húsið okkar og ferðaþjónustan sem við höfum byggt upp fylgir pakkanum. En þar sem báðir meðeigendurnir neituðu sífelldlega að ljá okkur stærri lóð svo húsið okkar yrði söluvænlegra eða við gætum byggt upp ferðaþjónustu til að sjá fyrir okkur þá höfum við nákvæmlega engan áhuga á að gera þeirra hluti söluvænlegri og verðmeiri.

Við viljum ekki selja húsið okkar. Við viljum vera hér. Ef einhver vill kaupa þetta hús þá er algjört lágmark að það tilboð sé ekki undir kostnaðarverði. Hvað þá langt undir kostnaðarverði😡 Og kannski sýna þá lágmarkskurteisi að tala við okkur um það en ekki einhvern annan.

Húsið okkar er ekki kaupauki með þessu búi.



Hvað er þetta plott búið að vera lengi í undirbúningi?

fimmtudagur, október 18, 2018

Góðir vinir

Því fer fjarri mér að halda því fram að hamingjan sé eingöngu fólgin í því að eiga maka og börn. Við lifum á tíma offjölgunar mannkyns og alveg orðið tímabært að breyta lífsmynstri okkar á einhvern hátt. Hins vegar sýna rannsóknir að félagsleg tengsl skipta gríðarmiklu máli í lífi okkar. Samvera og samkennd með öðru fólki lengir lífið og bætir heilsu. Einmanaleikinn beinlínis drepur.
Vinir skipta okkur því miklu máli og mikilsvert að eiga góða vini.
En hvernig er góður vinur?

Það eru til margar skilgreiningar á góðum vini en lokaniðurstaðan er yfirleitt sú að góður vinur er sá sem ber umhyggju fyrir viðkomandi og hefur velferð hans að leiðarljósi. 

Stundum gerist það að einstaklingur vill gera eitthvað sem er bara alls ekki gott fyrir hann, við getum í ljósi umræðunnar nefnt fíkniefnaneyslu sem dæmi. Góður vinur myndi nú líklega reyna að koma í veg fyrir neysluna frekar en að útvega efnin. Neytandinn væri auðvitað engan veginn ánægður með slíkt og ég skil vel þá löngun að vilja standa með vini sínum hvað sem á gengur en þarna reynir á; hvernig vinur ertu í raun? 



Það er fullkomlega eðlilegt að fólk vilji ekki umgangast ákveðna einstaklinga enda sumt fólk ákaflega niðurdrepandi og leiðinlegt. En fólk sem þjáist af djúpu þunglyndi t.d. hefur þá tilhneigingu að einangra sig og forðast félagsleg samskipti. Það er mjög slæmt fyrir þunglyndissjúklinga að einangra sig og eykur aðeins á vanlíðan. Að ýta undir slíkt er að sjálfsögðu ekki mikið vinarbragð. En þarna er auðvitað komin klemma;  með því að þrýsta á viðkomandi getur  hann túlkað slíkt sem virðingarleysi við óskir sínar og slitið samskiptin við vininn. En það myndi gerast hvort sem væri. Fólk sem ýtir öllum frá sér ytir vinum sínum frá sér líka að lokum.

Nú þarf einstaklingurinn ekki endilega að þjást af þunglyndi en hefur, einhverra hluta vegna, ákveðið að flæma fólk frá sér. Eins og áður sagði; fullkomlega eðlilegt að vilja ekki umgangast suma og lífið getur sannarlega orðið betra ef ákveðið fólk er ekki lengur á umgangslista viðkomandi. En ef viðkomandi einstaklingur er meira og minna einn allan daginn, alla daga, þá myndu raunverulegir vinir sjá einhver varúðarmerki á slíkri hegðun. Eins og áður sagði: einmanaleikinn drepur.

Ef einstaklingur er t.d. blindaður af heift, óhamingju, brundfyllisgremju eða öfund og reynir að koma einhverju skammtímasjónarmiði til leiðar
en hugsar ekkert lengra en það þá er líklegt að ætla að raunverulegir vinir myndu setjast niður með viðkomandi og reyna aðeins að ræða við hann. Spyrja t.d. hvað honum gangi til, hverju hans sé að reyna að koma til leiðar og af hverju? Og ef hann komi þessu nú til leiðar hvað ætlar hann að gera eftir það? Hvernig sér hann framtíðina fyrir sér?  Hafi viðkomandi einhverja framtíðarsýn þá má alveg skoða þá framtíðarsýn og velta fyrir sér hvort það sé virkilega besta leiðin fyrir hann. Leiði niðurstaðan t.d. til þess að hann verði enn þá meira einn allan daginn, alla daga þá er það hreint ekki ákjósanlegasta niðurstaðan.

En svo skilgreina auðvitað ekki allir vináttuna eins.





miðvikudagur, október 17, 2018

mánudagur, júlí 30, 2018

laugardagur, júní 30, 2018

Óskum eftir til leigu.

Óskum eftir húsi til leigu í Þingeyjarsveit, helst á skólasvæði Stórutjarnaskóla, frá og með haustinu.

föstudagur, maí 04, 2018

Sápukúlan


Árið 1984 gekk skáldasaga George Orwell 1984 í endurnýjun lífdaga, að sjálfsögðu. Framleidd var bíómynd þar sem John Hurt lék  Winston. 1984 var ég táningur og sá auðvitað myndina, líklega vegna þess að framleiðendur fengu Eurythmics til að sjá um tónlistina þótt sú yrði ekki lokaniðurstaða. Myndin var dökk og drungaleg og var var mjög ánægð að búa ekki í svona samfélagi og að Orwell skyldi skjátlast í framtíðarsýn sinni..



Í stuttu máli þá gerist 1984 í framtíðarsamfélagi þar sem Stóri bróðir og Flokkurinn, ræður öllu og stjórnar. Alls staðar hangir uppi svokallað víðvarp sem er skjár sem bæði sendir stöðugt út og fylgist með fólki. Hægt er að lækka í víðvarpinu en ekki alveg og aldrei er hægt að slökkva á því. Slagorð Flokksins eru:


Stríð er friður / Ánauð er máttur / Fáfræði er styrkur




Líður svo tíminn eins og hann hefur tilhneigingu til og haustmorgun einn 2016 sit ég í eldhúsinu mínu að borða hafragrautinn og skruna fréttir þegar ég sé að Donald Trump hefur verið kjörinn forseti í bandaríkjahreppi. Ég var 99% sannfærð um að þetta gæti ekki gerst.

Fáfræði er styrkur.
Nú búum við í upplýsingaheimi þar sem allar upplýsingar og allar staðreyndir eru við fingurgómana á okkur. Hins vegar hafa samskiptaforrit og tölvufyrirtæki skapað ákveðinn einkaheim fyrir hvern og einn. Smátt og smátt lesa forritin í hegðun okkar og halda að okkur því sem okkur líkar. Smátt og smátt hætti ég að sjá innleggin hjá hægrisinnuðum vinum mínum á facebook því ég læka aldrei innleggin þeirra. Smátt og smátt sýnir google mér bara hámenningarlegar og vinstrisinnaðar niðurstöður þegar ég leita að einhverju. Ég trúi auðvitað að heimurinn sé loks að verða viti borinn, það eru allir bókmenntasinnaðir vinstrimenn á netinu. Alnetið hefur með einhverju mystísku algrími búið til sápukúlu utan um mig þar sem ég flýt um í sælu fáviskunnar um raunverulegt ástand veraldarinnar. Þar til auðvitað sápukúlan mín steytir á staðreyndum og ég skell harkalega niður. Donald Trump er forseti Bandaríkjanna hversu óskiljanlegt sem mér þykir að sitjandi í sápuslettunum. En herra Algrímur er fljótur til bjargar og blæs sápukúluna mína upp aftur.  Trump er óvinsælasti forseti fyrr og síðar. Hann vann með Rússum, hann verður bráðum settur af... Meinið er bara að það er ekki að gerast og mér hefur jafnvel dottið í hug að það muni ekki gerast. Af því að litla sápukúlan mín sem svífur um í alsælunni lokar á óþægilegar staðreyndir. Og er það bara ekki hið besta mál má spyrja. Engar deilur og ekkert ergelsi. Friðsælt og hamingjuríkt líf í fáfræðinni. Jú, auðvitað, fyrir utan pínu ponsu atriði: Raunveruleikann. En hann er ofmetinn hvort sem er.


Nýmál.
Á Eyjaálfu þar sem Winston býr er unnið hörðum höndum að því að búa til svokallað Nýmál eða New Speak.
'You haven't a real appreciation of Newspeak, Winston,' he said almost sadly. 'Even when you write it you're still thinking in Oldspeak. I've read some of those pieces that you write in The Times occasionally. They're good enough, but they're translations. In your heart you'd prefer to stick to Oldspeak, with all its vagueness and its useless shades of meaning. You don't grasp the beauty of the destruction of words. Do you know that Newspeak is the only language in the world whose vocabulary gets smaller every year?' 
...
'Don't you see that the whole aim of Newspeak is to narrow the range of thought? In the end we shall make thoughtcrime literally impossible, because there will be no words in which to express it. Every concept that can ever be needed, will be expressed by exactly one word, with its meaning rigidly defined and all its subsidiary meanings rubbed out and forgotten. Already, in the Eleventh Edition, we're not far from that point. But the process will still be continuing long after you and I are dead. Every year fewer and fewer words, and the range of consciousness always a little smaller. Even now, of course, there's no reason or excuse for committing thoughtcrime. It's merely a question of self-discipline, reality-control. But in the end there won't be any need even for that. The Revolution will be complete when the language is perfect. Newspeak is Ingsoc and Ingsoc is Newspeak,' he added with a sort of mystical satisfaction. 'Has it ever occurred to you, Winston, that by the year 2050, at the very latest, not a single human being will be alive who could understand such a conversation as we are having now?' (Orwell, 1948.)

Nýmál og tvíhugsun hefur nú þegar rutt sér til rúms.
Orðaforði ungmenna fer síminnkandi. Við fullorðna fólkið þurfum sífellt að þýða okkur fyrir ungdómnum. „Af hverju þarf mörg orð um sama hlutinn?“ spyrja þau. Af því að þegar orðunum fækkar þá verður hugsunin fátækari. Þá á elítan auðveldara með að stjórna okkur. Og hún reynir svo sannarlega.
Það er nú þegar byrjað að tala um „alternative facts” eins og það sé ekkert tiltökumál. Það er byrjað að gráta um falsfréttir og ekki bara vinur minn Trumpurinn heldur íslensk elíta líka. Fréttir eru ekki lengur að reyna að greina frá staðreyndum heldur eru samsæri og árásir. Að endingu má ekkert segja.
Winston vinnur við að „leiðrétta“ fréttir. Breyta sögunni.

https://kjarninn.is/skyring/2017-10-02-wintris-greiddi-ekki-skatta-i-samraemi-vid-log-og-reglur/


Ánauð er máttur
Ég fer út að ganga og stilli MapMyWalk í símanum. Þegar ég kem heim pósta ég göngutúrnum á Facebook. Ég fer til Reykjavíkur og stilli áfangastaði mína í Google Maps. Google gleymir engu. Ég ljóstra upp öllum mínum hjartans málum á Facebook. Ég skoða Bebe eight bluetooth hátalara á Amazon og næstu vikurnar sprettur hann upp á öllum síðum.
Við búum nú þegar í heimi Orwells, við búum á Eyjaálfu. En það skelfilega er að við fórum þangað sjálf, við skoppuðum uppnumin af gleði inn í þennan heim með nýju, skínandi tækin okkar. Við borguðum okkur inn, hvorki meira né minna. höfum bara enga hugmynd hvar við erum stödd. Blekkingin er fullkomnuð. Við erum hamingjusamir þrælar. Ánauð er máttur.




sunnudagur, mars 25, 2018

Kostaboð til vina og vandamanna

Ágætu vinir og vandamenn. Sú skemmtilega hefð hefur myndast hér á Hálsi að hver þriðjungseigandi getur boðið vinum sínum og vandamönnum til ókeypis dvalar í húsi búsins. Meirihlutavilji skiptir engu máli. Svo ef einhver vill koma í sveitina þá er það guðvelkomið.

Munið svo að svíkja hvorki undan skatti né út bætur.

Ábendingar

Hér er hægt að senda ábendingar til TR með því að fylla út formin hér að neðan.




fimmtudagur, mars 22, 2018

Sögur og ævintýr


Öll höfum við gaman að góðum sögum og vel þekkt er að góð saga á aldrei að gjalda sannleikans. Góð ævintýri hafa góða hetju, vondan skúrk og nokkra atburði sem árétta góðmennsku hetjunnar og illmennsku skúrksins.
Eitt gott ævintýri fjallar um samskipti Litla prinsins og Vondu nornarinnar.
Einu sinni var konungsríki í fjöllunum. Þar bjuggu Litli prinsinn og Stóri prinsinn. Vond og lævís norn læsti klónum í Stóra prinsinn og hafði hann algjörlega á valdi sínu.Vonda nornin vildi endilega selja skoðunarferðir um höllina til að fá meira gull. Tókst henni að plata báða prinsana til þess með því að segjast ætla að sjá um mestallt.
Í sögunni eru margir atburðir en við skulum skoða tvo.

Atburður I.
Vonda nornin fór í fýlu og sendi Litla prinsinum uppsagnarbréf þar sem hún hættir að sinna skoðunarferðunum um höllina og Litli prinsinn situr í súpunni með skoðunarferðirnar og þarf að sinna öllu.

Atburður II.


Nokkru seinna koma gestir í skoðunarferð. Litli prinsinn er ekki heima svo Vonda nornin sendir honum skeyti eftir skeyti til að spyrja hann hvort höllin sé tilbúin undir skoðunarferð. Svona skeytasendingar eru auðvitað ekkert nema ofbeldi og áreiti.

Þessir tveir atburðir eru til þess fallnir að sýna fram á illmennsku Vondu nornarinnar og gera það í sjálfu sér á grundvelli ævintýrisins.
En af því að ég er með BA í bókmenntafræði þá finnst mér gaman að kafa aðeins nánar í sögur og frásagnir. Og ef nánar er rýnt í þessa atburði rekast þeir hvor á annars horn. Fyrst vonda nornin er búin að segja upp og gefa skít í skoðunarferðirnar af hverju er hún að skipta sér af því hvort allt sé tilbúið fyrir skoðunarferð? Af hverju er vonda nornin að taka á móti gestum í skoðunarferð yfir höfuð? Getur verið að vonda nornin átti sig ekki á því að hún hefur sagt upp? Hvernig er hægt að segja upp vinnu án þess að vita það? Hvaða yfirgengilega forheimska er nú það?
Ef sagan myndi nú sem snöggvast breytast í raunveruleikaþátt þar sem persónur fá að tjá sig.




Núna er auðvelt að segja að auðvitað ljúgi helvítis skepnan, þetta er jú nornarkvikindi. En kannski, svona í anda góðra vinnubragða, er hægt að athuga málið betur.
Innan sögunnar er talað um skriflega uppsögn, svo í heimi sögunnar liggja fyrir áþreifanleg sönnunargögn. Því ætti að vera hægur vandi að framvísa bréfinu. Hvað stendur svo í bréfinu þegar það birtist? Jú, vonda nornin segir í bréfinu að Litli prinsinn geti hirt þrifin.
Skoðum þetta örlítið nánar. Vonda nornin er reið yfir því að Litli prinsinn komi fram við hana aðeins og eingöngu sem ræstitækni. Þegar hún segir að hann geti hirt þrifin þá lítur hann svo á að hún sé búin að segja sig frá öllu uppátækinu. Hmmm, hann sem sagt lítur á hana aðeins og eingöngu sem ræstitækni…. Gæti verið að hún fari með rétt mál?

Skoðum núna seinni atburðinn. Ef Litli prinsinn er algjörlega tekinn við rekstrinum af hverju er hann ekki heima til að taka á móti skoðunarhópnum? Treystir hann á Vondu nornina að redda málinu? Af hverju ætti hún að gera það ef hún er hætt? Og hvernig í ósköpunum nær hún að senda fullt af skilaboðum? Skyldi það vera vegna þess að hann svarar ekki skilaboðum frá henni? Þannig að skoðunarhópurinn stendur við dyrnar, sá eini sem veit hvort allt sé tilbúið er Litli prinsinn og hann hefur ekki látið vita. Svo hunsar hann skilaboðin. Hvað á Vonda nornin að gera? Senda hópinn inn í óundirbúna skoðunarferð? Ef hún væri hætt  þá myndi hún auðvitað gera það. En hún hagar sér eins og hún sé ekki hætt þótt hún vilji ekki tvíþrífa. Og Litli prinsinn treystir því að hún taki á móti hópnum þótt hann segi öllum öðrum að hún sé hætt. Þetta gengur ekki alveg upp, er það?
Kannski fjallar ævintýrið ekkert um Litla prinsinn og Vondu nornina heldur Vinnuhjúin og Tröllið í fjöllunum.


þriðjudagur, mars 20, 2018

Vinfengisógn

Af engri sérstakri ástæðu var ég að skoða siðareglur starfgreina sem hafa með fjármuni fólks og fyrirtækja að gera.
Í siðareglum endurskoðenda fann ég þessa klausu:

Vinfengisógnun - getur skapast þegar endurskoðandi hefur átt í löngu og nánu sambandi við viðskiptavin eða vinnuveitanda. Endurskoðandi hefur því of mikla samúð með hagsmunum hans eða gagnvart viðtöku verkefna frá honum.

Vinfengisógnun er skemmtilegt og lýsandi orð og lýsir ákveðinni hættu sem getur skapast þegar tengsl aðila fara út fyrir hið viðskiptalega samband. Mörk vináttunnar og hinna viðskiptalegu tengsla geta orðið ansi óljós. 
Í slíkum tilfellum hlýtur viðkomandi að verða að velja annað hvort. Það hlýtur að vera hin siðferðislega rétta afstaða.



Til upplýsingar





Þessu var ekki svarað.




mánudagur, febrúar 26, 2018

Gamlir taktar.

Mér til mikillar gleði hefur Örn Byström tekið að sér að veita sveitarstjórn Þingeyjarsveitar nauðsynlegt aðhald þar sem ég hef misst all verulega dampinn. Örn sendi sveitarstjórninni nokkrar fyrirspurnir um daginn á staðarmiðlinum 641.is. Mér til nokkurar furðu svaraði meirihlutinn fyrirspurnunum.
Það er tvennt í þessum svörum sem vekur athygli mína. Í fyrsta lagi varðandi rekstur Stórutjarnaskóla næsta kjörtímabil.

Það er stefna meirihluta sveitarstjórnar að reka tvo grunnskóla í sveitarfélaginu. Þingeyjarskóla á Hafralæk og Stórutjarnaskóla við Stórutjarnir. Auk þess að reka áfram þær þrjár leikskóladeildir sem nú eru starfandi og þær tvær tónlistardeildir sem nú starfa. Stefnan er að búa nemendum og starfsfólki í þessum stofnunum sem best starfsumhverfi og erum við reiðbúin til að leggja nokkuð til að svo verði.Er hún fullmótuð til framtíðar spyrð þú. Þetta er sú stefna sem við höfum fylgt og munum fylgja í aðdraganda kosninga og á næsta kjörtímabili fáum við til þess stuðning.
Samkvæmt þessu get ég treyst því að Stórutjarnaskóli verði rekinn næstu fjögur árin. Já, ég vil að börnin mín gangi í Stórutjarnaskóla. Nei, það er ekki víst að við búum hér mikið lengur. Þessi tilkynning veldur þó því að við viljum alla vega ekki fara langt. 

Þá er það hitt sem vekur athygli mína en það er svarið við kostnaði við Þingeyjarskóla.
Upphafleg kostnaðaráætlun við breytingar vegna sameiningar starfsstöðva Þingeyjarskóla var 40.000.000 en endanlegur kostnaður, að frádregnu eðlilegu viðhaldi burtséð frá sameiningu , er rúmar fjörutíu og níu milljónir.
Sko, ef það á að halda tveimur skólum gangandi í sveitarfélaginu þá verður að halda þeim báðum gangandi. Það dugar ekki að halda þeim báðum opnum og dæla svo bara peningum í annan en ekki hinn.
Ég rak nefnilega augun í fundargerð sveitarstjórnar fyrir stuttu en þar kom fram eftirfarandi:

2. Fundargerð Fræðslunefndar frá 30.11.2017Lögð fram fundargerð Fræðslunefndar frá 30. nóvember s.l. Margrét gerði grein fyrir fundargerðinni sem er í fimm liðum.
Varðandi 4. lið fundargerðar; Málefni frá skólastjóra, þá skilur sveitarstjórn áherslur skólastjóra en gert er ráð fyrir 8 millj.kr. í viðhaldskostnað skólahúsnæðis í fjárhagsáætlun 2018-2021. Ragnar tekur undir sjónarmið skólastjóra og telur að fjárveiting til viðhalds skólahúsnæðis Stórutjarnaskóla eigi  að vera 10 millj.kr. Sveitarstjórn staðfestir fundargerðina að öðru leyti og vísar henni til gerðar fjárhagsáætlunar 2018-2021. 
Ég þykist svo sem ekki vera með þetta á hreinu en sýnist á öllu að ætlað framlag til viðhalds sé átta milljónir en Ragnari og væntanlega skólastjóranum finnist að það eigi að vera 10 milljónir. Meirihlutinn virðist hafna því. Þetta er heldur óljóst en konu gæti dottið í hug að hér sé verið að tala um 8 milljónir á þessum þremur árum.
Ég leitaði að fundargerð Fræðslunefndar frá 30.11.2017 til að fá skýrari svör.
Ég hef séð knappar fundargerðir en þetta er nú svona með því knappasta.

4. Málefni frá skólastjóra  
Ólafur lagði áherslu á það að árlegt fastaframlag til viðhalds á húsnæði þyrfti að hækka í að minnsta kosti 10 miljónir.
Þó kemur fram að um árlegt framlag er að ræða og að skólastjóri telur að  það þurfi að hækka í að minnsta kosti 10 milljónir. Þetta eru aukalega 6 milljónir á þessum þremur árum sem virðist nú ekkert óskaplega mikið svona í stóra samhenginu, sérstaklega þegar kona sér tölurnar við breytinguna á Þingeyjarskóla.

Annars bara góð.


Færsla Lögreglunnar á Norðurlandi eystra

Það mun mér hæfara fólk fjalla um þessa færslu Lögreglunnar á Norðurlandi eystra en það eru nokkrir hlutir í þessu sem mig sem almennur áhor...