sunnudagur, desember 28, 2014

Jóla-karlremban

Jólin, skv. nútíma túlkun og skilningi, ganga út á að fagna fæðingu frelsarans. Þetta eitt og sér er auðvitað mjög karllægt, karlímyndin Guð gefur mannfólkinu sinn eingetna son því til bjargar. Hins vegar hef ég alltaf litið á Jesú sem fyrsta femíníska kommúnistann svo, og ekki segja vinstri sinnuðum vinum mínum það, ég er alveg sátt við þetta Jesúdæmi allt saman. Það hefði lítið þýtt að senda hina eingetnu dóttur á þessum tíma.

Jólunum fylgja aðrir karlar sem okkur þykja bæði skrítnir og skemmtilegir, nefnilega sjálfir jólasveinarnir. Sjálf hef ég lagt þeim lið undanfarið að læðast inn á heimilið og lauma gjöfum í skó barnanna. Einhverra hluta vegna finnst okkur fullkomlega eðlilegt að ala það upp í börnum okkar að skrítnir karlar séu ægilega skemmtilegir og hið besta mál að þeir séu að læðupokast inni á heimilunum á meðan aðrir sofa. 


Það eru ekki bara jólasveinarnir. Nýverið sátum við mæðginin og horfðum á Kalla á þakinu. Þar á lítill drengur vin sem er frekar ókurteis og óþroskaður karl sem enginn veit um. Það eru fleiri svona sögur og myndir um vinfengi skrítinna karla og, aðallega, lítilla drengja. Sbr. Up og Skreppur seiðkarl.

Á sama tíma vörum við börnin okkar við ókunnugu fólki, sérstaklega karlmönnum. Erum við ekki að senda þeim afar misvísandi skilaboð?
Minna fer almennt fyrir skrítnum og skemmtilegum kerlingum. Má þó nefna til Mary Poppins og Fíu fóstru en þeim er samt kyrfilega plantað í hefðbundið kvenhlutverk fóstrunnar.
Ef við höldum okkur við jólahátíðina þá er hún nánast algjörlega eign karla. Grýla fær aðeins að troða inn sínu ljóta nefi en skemmtileg er hún ekki.


Í gær fór fjölskyldan á jólaball. Sungin voru hefðbundin jólalög, sömu lögin og ég gekk í takt við í kringum jólatréin á sínum tíma og eru enn sungin á öllum jólaböllum út um allt land. Víðfrægt er nú erindið: „...hann fékk bók en hún fékk nál og tvinna.“ Var að mig minnir einhver umræða um það á sínum tíma. Ég man ekki alveg hvort það var spilað en satt best að segja þá eru mörg hinna lítið skárri. Í laginu Nú skal segja eru kynhlutverkin alveg skýr.
Litlar stelpur vagga brúðu, æfa sig fyrir móðurhlutverkið á meðan strákarnir sparka bolta. Þeirra leikur er mun frjálsari og býður upp á fleiri möguleika. Þeir eru alla vega ekki að æfa sig fyrir föðurhlutverkið. Það má skjóta því hér inn í að ef leikir drengja snerust meira um að æfa sig fyrir föðurhlutverkið þá yrðu þeir kannski betri feður og börn ekki jafn berskjölduð fyrir skrítna föðurímynd eins og Kalla á þakinu eða Fagan.

Gömlu konurnar í Nú skal segja prjóna sokka því alltaf eiga konur að gera gagn. Gömlu karlarnir hins vegar mega dunda sér við að taka í nefið og hnerra svo hressilega; vera skrítnir og skemmtilegir.
Því skal þó haldið til haga að í Adam átti syni sjö er pabbi til staðar sem elskar alla syni sína og þeir elska hann. Eigi þetta að vera hinn fyrsti Adam má líklegt telja að einhverjar dætur hafi verið til staðar en hvort hann hafi elskað þær og þær hann er alveg látið liggja á milli hluta.
Kynhlutverkin í Nú er Gunna á nýju skónum eru líka alveg kýrskýr. Mamma er föst í eldhúsinu „eitthvað að fást við mat“, (gætum við mögulega sýnt vinnu kvenna meiri lítilsvirðingu?) á meðan pabbinn er viðutan, skrítinn og skemmtilegur að leita að flibbahnappinum sínum.

Mér er alveg sama þótt þetta séu „hefðir“ og „óþarfi að sjá það ljóta í öllu.“ Þetta eru ömurleg skilaboð sem við erum að senda börnunum okkar og ég mælist til að þessir textar verði endurskoðaðir (og upphefst nú ritskoðunarsöngurinn).
Ef hefðin er vond þá má og á að breyta henni.

fimmtudagur, desember 25, 2014

Allt sem hún vill...

Hið platónska ástarsamband okkar George Michael fagnar nú 30 ára afmæli. Það var sumarið 1984 sem Wake me up before you go-go skaust á topp flestra vinsældalista heimsins. Hresst og grípandi lag með auðveldu viðlagi. Og svo kom vídeóið. Jedúdda-mía, söngvarinn. Ekkert svona sætt hafði sést síðan súkkulaðið var uppgötvað. Þarna sprangaði hann um í míní stuttbuxum, tanaður með strípur og neongular grifflur. Ég fjórtán ára flækja með skömmustulegar hugsanir um karlmenn og gleðina og vandræðin sem þeim gátu fylgt. Örlögin voru ráðin.




Hvert topplagið fylgdi öðru; Careless Whisper, Freedom og Everything she wants. Öll þessi lög er að finna á annarri (seinni) plötu Wham!, Make it Big.

Ég tók að sjálfsögðu upp hvern einasta Skonrokk þátt til öryggis og það var eins og ég hefði himin höndum tekið þegar ég náði myndbandinu við Careless Whisper. Ég hélt að George gæti ekki orðið sætari en í Wake me up before you go-go en hann gat það. Úff...

En það var eitthvað sem truflaði mig. Strax sumarið ´84 var svolítið í textanum við Wake me sem ég skildi ekki. Textinn er um ungan mann sem á kærustu. Þegar hann er sofnaður læðist hún út til að dansa. Vinir hans hafa sagt honum frá því og hann biður hana um að vekja sig frekar og taka sig með. Allt ágætt hingað til. Svo kemur millikafli, aðeins rólegri, kaflinn í vídeóinu þar sem George er mega sætur. (Og sést að ofan.)

Cuddle up, baby, move in tight,
We’ll go dancing tomorrow night,
It’s cold out there, but it’s warm in bed,
They can dance, we’ll stay home instead.

Sögumaður textans, strákurinn, kvartar undan því að stelpan læðist út á meðan hann sefur. En hann vill greinilega ekki fara út að dansa, hann vill frekar vera heima að kúra. En hvaða stúlka kvartar undan kærasta sem vill frekar halda henni heima og kúra? Það er bara sætt, er það ekki?
Setningin um kuldann kallast líka á við „rómantíska“ textann; Baby,it‘s cold outside.

Næsti hittari var Careless Whisper. Lagið lýsir angurværri eftirsjá manns sem hefur haldið fram hjá kærustunni sinni. Textinn er að vísu ókyngreinanlegur eins og svo margir eftir Michael enda var hann fastur inni í skápnum á þessum árum en í myndbandinu eru það stúlkur sem leika kærustuna og viðhaldið svo við höldum okkur við það.
Stúlkan sem leikur kærustuna er ósköp sæt en heldur venjuleg. Stúlkan sem tælir George er hins vegar ægileg skutla, sannkallað femme fatale. Í myndbandinu „tekur“ hún hann ;) Við venjulegu stelpurnar áttuðum okkur alveg á því hvað þurfti til til að halda gæjanum.


Næsta lag var Freedom. Þar er það stúlkan sem fer illa með strákinn, rígheldur fram hjá honum og hlær svo bara. Þessi texti er sá fyrsti af þó nokkrum sem lýsa vantrausti og tortryggni gagnvart konum.
Everything she wants var ekkert að leyna óttanum við þessar konur.

Some people work for a living,
Some people work fun,
Girl I just work for you.
They told me marriage was a give and take.
Well you show me you can take, you’ve got some givin’ to do.
And now you tell me that your having my baby.
I’ll tell you that I’m happy if you want me to,
But one step further and my back will break,
If my best isn’t good enough,
Then how can it be good enough for two.
I can’t work any harder than I do.

Sögumaðurinn í textanum virðist ekki vera George sjálfur sem átti skítnóg af peningum heldur bara venjulegur ungur maður. She textans eða hún er algjör afæta sem ætlast til að aumingja strákurinn þræli og púli bara fyrir hana. Vinnur hún sjálf ekkert? Svo verður hún ófrísk eins og sá möguleiki hafi bara hreint ekkert verið ræddur við hann, eiginmanninn sjálfan. Sögumaðurinn, karlinn, er saklaust fórnarlamb þessarar vondu konu.Hann er orðinn svo útkeyrður af vinnuhörku eftir sex mánaða hjónaband að hann heldur að hann sé hættur að elska konuna . Það er bara tímaspursmál hvenær hann fer. Samúðin er öll hjá honum og fullkomlega eðlilegt að hann yfirgefi þessa barnshafandi konu sem getur ekki unnið fyrir sér.
Textinn á að lýsa lífi venjulegs fólks og á þessum tíma sem og í dag eru karlmenn með hærri laun en konur og hluti af kvöð karlmannsins ,,að skaffa." En í staðinn fyrir að gagnrýna rót vandans, samfélagið, er ráðist að konum eins og þær beri einhliða ábyrgð á hefðunum. Alveg eins og getnaði.



Þetta sama þema kemur fram í Credit Card Baby sem einnig er á Make it Big plötunni.

You can have my credit card, Baby,
But keep your red hot fingers off my heart. Lady,
All I know is what I see,
You’re getting what you want.
Girl, It ain’t just me.
No matter how you cry,
I’m not giving any love away,
Do you think I’m crazy,
All I know is what I see.
But what can I do,
When you pretend that you’re in love with me,
Baby.


Það má svona eftir á fabúlera um það að George Michael var að reyna að fela samkynhneigð sína í kastljósi frægðarinnar. Fólki fannst eðilegt og hefur gert kröfu um að hann sæktist eftir einhverju sem hann kærði sig ekkert um.  Við táningsstelpurnar með glýjuna í augunum vissum það hins vegar ekki á þeim tíma. Við vorum bara að fá skilaboð frá vinsæla sæta stráknum sem hafnaði okkur af því við vorum ekki nógu góðar.
Að varpa kvenóttanum yfir á samkynhneigð höfundarins er líka ansi ódýrt. Heimurinn elskaði þessi lög, samþykkti og fagnaði boðskapnum. Tony Parsons segir í ævisögunni Bare:

'Everything she wants' was and remains one of the best songs ever written about a bad marriage... Claustrophobic, meaty and mature, 'Everything she wants' ached with the sound of love wearing off. If the sentiments of the song were alien to the singer – the death of marital passion, the drudgery of the working world, another little mouth on the way – then he still managed to convey them with total conviction. (Parsons, 132)

Í þessari sömu ævisögu lýsir George aðstæðum í New York um það leyti sem hann er að slá í gegn og semja vinsælustu lögin sín og hugsunum samfara þessum aðstæðum:




Hið tvöfalda siðferði er auðvitað alveg skelfilegt.
En, þrátt fyrir allt, ástin er eins og hún er og ég elska George Michael enn og mun væntanlega gera áfram. Enda batnaði þetta allt saman þegar hann kom loksins út úr skápnum og gat verið hann sjálfur ♥

Það geta ekki allir verið gordjöss.



miðvikudagur, desember 24, 2014

Jólin

Jæja gott fólk og vont og allt þar á milli. Óska ykkur gleðilegra jóla og góðra stunda. Gangið hægt um gleðinnar dyr og verið stillt. Ég ætla að reyna það.

Bestasta jólalag allra tíma.


sunnudagur, desember 21, 2014

Undarleg uppsögn

Í títtnefndri fundargerð sveitarstjórnar Þingeyjarsveitar frá 18. des. sl. segir:
Auglýst verður eftir skólastjóra frá 1. mars 2015, sem mun sjá um að skipuleggja starfsmannahald og móta innra starf skólans. Honum til aðstoðar munum við ráða faglegan ráðgjafa.
Þar sem þessi breyting er stjórnvaldsákvörðun gilda ákvæði stjórnsýslulaga um uppsagnir starfsmanna. Munum við því ekki segja öllum upp eins og við höfðum ráðgert heldur fara eftir meðalhófsreglu stjórnsýslulaga. Þar segir; „Stjórnvald skal því aðeins taka íþyngjandi ákvörðun þegar lögmætu markmiði, sem að er stefnt, verður ekki náð með öðru og vægara móti. Skal þess þá gætt að ekki sé farið strangar í sakirnar en nauðsyn ber til.“
Nú verður að spyrja: Hvers vegna í ósköpunum á að segja skólastjóranum upp? Það var fyllsta ástæða til að segja skólastjóranum upp 2012 þegar skólarnir voru sameinaðir enda áttu sér þá stað skipulagsbreytingar í yfirstjórn skólanna en það er engin ástæða til þess nú. Það er bara einn skólastjóri til staðar. Og miðað við að sveitarstjórnin vísar til ákvæða stjórnsýslulaga um að ekki verði teknar íþyngjandi ákvarðanir þá er vandséð af hverju segja þarf upp skólastjóranum.
Ekki nema auðvitað að talið sé að núverandi skólastjóri sé ekki vandanum vaxinn en það er ekki nokkur ástæða til að ætla það því í umsögn Fræðslunefndar frá 11. des. sl.  segir:
Fræðslunefnd telur þessa breytingu geta gert góðan skóla enn betri bæði faglega og félagslega fyrir nemendur.
Fræðslunefnd telur skólann góðan. Svo vitnað sé í amerískan frasa; If it ain't broken, don't fix it.

Nú má flestum vera ljóst að ég fagna þessari ákvörðun persónulega en ég hlýt að fordæma þessi vinnubrögð. Skólastjórinn hefur nefnilega ekki eina einustu ástæðu til að ætla neitt annað en að sveitarstjórn Þingeyjarsveitar styðji hann og hans embættisfærslur.
Í fyrsta lagi þá hefur Fræðslunefnd lagt blessun sína yfir öll hans verk.
Í öðru lagi sá sveitarstjórn ekki nokkra ástæðu til áminningar eftir að dómur féll í ,,Gróumáli" og telur þar með ekkert athugavert við vinnubrögð þar.
Í þriðja lagi birti fyrrverandi oddviti Samstöðu opinbera stuðningsyfirlýsingu við skólastjórann í Akureyri Vikublaði (sic.) 16. jan. sl. eftir að gagnrýni mín rataði þar inn. Tel ég eðlilegt að ætla að oddviti stjórnmálaafls sé talsmaður þess.
Í fjórða lagi báru núverandi sveitarstjóri og formaður fræðslunefndar fullt traust til skólastjórans til að vera dómari í eigin sök. Það verður að teljast mikið traust og erfitt að ætla að það sé óverðskuldað að mati sveitarstjóra og formanns fræðslunefndar.
Í fimmta lagi tók núverandi þriðji maður á lista Samstöðu upp á því að eigin sjálfdæmi að rita tilfinningamikla grein til stuðnings skólastjóranum í kjölfar gagnrýninnar og umræðunnar. Miðað við viðbrögðin hlýtur að mega ætla að mikil og almenn ánægja sé með störf skólastjórans.
Í sjötta og síðasta lagi sá sveitarstjórn ekki nokkra ástæðu til að gagnrýna fjármálastjórn skólans í kjölfar svartrar skýrslu Haraldar L. Haraldssonar um fjármál skólans. Núverandi oddviti lét m.a.s. hafa eftir sér opinberlega að skýrslan sýndi aðeins: ,,ákveðna óhagkvæmni."
Ekki er að sjá að neitt hafi gerst síðan sem skýrir það af hverju skólastjórinn er allt í einu fallinn í ónáð.

Engin áminning, engin gagnrýni ekkert tiltal, bara ánægja og svo búmm! Sagt upp.
Það er alveg sama hver á í hlut, þetta eru óþolandi vinnubrögð. Ég get ekki séð neitt annað en að enn ein stjórnsýslukæran sé á leiðinni. Og það með réttu.


fimmtudagur, desember 18, 2014

Þvílíkur léttir!

Eins og lesendum mínum má vera ljóst þá hafa skólamálin verið svolítið að þvælast fyrir í Þingeyjarsveit. Frá stofnun sveitarfélagsins hefur staðið til að sameina grunnskólana þrjá. Í því skyni hafa verið ráðnir virtir fræðimenn til að skrifa skýrslu eftir skýrslu eftir skýrslu. Blekið hefur varla verið þornað á skýrslunum þegar þær eru rakkaðar niður, dæmdar og léttvægar fundnar. Handónýtar skýrslur og allt á byrjunarreit.

En börnunum fækkar og fækkar og hlutfall barna á hvern starfsmann verður mjög, mjög lítið. Gripið hefur verið til þess ráðs að losa sig við fólk á ýmsan hátt. Það hefur aldrei nein ein regla verið viðhöfð heldur svona happa-glappa. Undarlegt nokk þá hefur aðfluttum konum fækkað hvað mest í starfsliðinu. En það er vissulega hrein og klár tilviljun.
Þá hafa skólar verið svona hálf-sameinaðir, svona samvinnuverkefni eitthvað, tímabundið, svo verður kannski sameinað og þá verður sameinað á öðrum hvorum staðnum sem varð auðvitað til þess að starfsstöðvarnar sem áttu að vinna saman fóru í bullandi samkeppni og öllum leið illa, nema auðvitað starfsfólkinu sem var samt eina fólkið sem fékk sálfræðihjálp.

Sumsé. Hér hefur fólk búið við nagandi óvissu árum saman. 

En svo gerðist undrið: Meirihluti sveitarstjórnarinnar ákvað að taka af skarið, ákvað að nú gengi þetta ekki lengur. Og það voru skrifaðar skýrslur. Og aldrei þess vant fagnaði sveitarstjórnin skýrslunum þótt aðrir reyndu að rakka þær niður. Og sveitarstjórnin sagði að það yrði ráðinn nýr skólastjóri. Sveitarstjórnin hefur að vísu sagt það áður en hætti svo við á síðustu metrunum af því það er svo ljótt að leggja í einelti. Og sveitarstjórnin sagði að öllum yrði sagt upp. Sveitarstjórnin sagði reyndar aldrei hvernig yrði ráðið inn að nýju en sú hugmynd var orðuð annars staðar á prenti að best væri að fá utanaðkomandi aðila til að sjá um ráðningarnar. Sem er auðvitað alveg brill.

Og vanhæfu sveitarstjórnarfulltrúarnir áttuðu sig á vanhæfi sínu. lýstu sig vanhæfa og, takið eftir, véku af fundum. 

En sjáið nú til, ég var bara algjörlega týnd. Ég hélt ég væri búin að átta mig á því hvernig hlutirnir gengju fyrir sig en allt í einu er bara allt breytt! Allt í einu eru hlutirnir eins og ... eins og... þeir eiga að vera! Ég var bara í frjálsu falli. Hvert var ég komin?!



En þá, guði sé lof og dýrð, birtist þessi fundargerð.
Sveitarstjórnin hefur ákveðið að auglýsa eftir nýjum skólastjóra frá og með 1. mars. En nýi skólastjórinn á að fá faglegan ráðgjafa sér til halds og trausts. Hver skyldi það nú vera? Hmm, hver þekkir, eða ætti að þekkja, stjórn og skipuleg Þingeyjarskóla? Hver...? Hver...? Hver gæti mögulega komið til greina?
Þá kemur þessi gullvæga tilvitnun:

Þar sem þessi breyting er stjórnvaldsákvörðun gilda ákvæði stjórnsýslulaga um uppsagnir starfsmanna. Munum við því ekki segja öllum upp eins og við höfðum ráðgert heldur fara eftir meðalhófsreglu stjórnsýslulaga. Þar segir; „Stjórnvald skal því aðeins taka íþyngjandi ákvörðun þegar lögmætu markmiði, sem að er stefnt, verður ekki náð með öðru og vægara móti. Skal þess þá gætt að ekki sé farið strangar í sakirnar en nauðsyn ber til.“

Þau ætla sem sagt að handvelja starfsfólkið sem heldur vinnunni.
Ég get ekki lýst því hvað mér er stórkostlega létt! Heimurinn er óbreyttur. Ég hef ekki rambað inn í einhverja hliðarvídd alheimsins. Ég stend traustum fótum á jörðinni. Hjúkk itt, maður!


laugardagur, desember 13, 2014

Umsögn og greinargerð

Same old same old, I know. Engu að síður er hér smá punktur sem ég verð að koma að.

Í fundargerð sveitarstjórnar frá 4. des. sl.segir:

Varaoddviti lagði fram eftirfarandi tillögu frá fulltrúum A lista um framtíðarskipulag Þingeyjarskóla:

„Sveitarstjórn Þingeyjarsveitar samþykkir að grunnskólastig Þingeyjarskóla verði sameinað á eina starfsstöð frá og með 1. ágúst 2015. Sú starfsstöð verði í húsnæði Hafralækjarskóla. Starfsemi tónlistardeilda fylgi grunnskólastiginu. Leikskólinn Krílabær verður við þessa breytingu sjálfstæð stofnun.“

Þá lagði varaoddviti fram tillögu að eftirfarandi málsmeðferð:

„Sveitarstjórn samþykkir að vísa framkominni tillögu til Fræðslunefndar og skólaráðs Þingeyjarskóla til umsagnar og óskar þess að umsögnin berist eigi síðar en 15. desember.“ (Feitletrun mín.)

......

Fyrri tillaga um málsmeðferð samþykkt með fimm atkvæðum fulltrúa A lista. Fulltrúar T lista sátu hjá.  

Enn sem komið er er þetta einungis tillaga. Eina samþykktin sem gerð var á fundinum er að vísa þessari tillögu til fræðslunefndar til umsagnar. Ok, so far, so good.

Nú þurfum við að átta okkur á hvað felst í umsögn.
Nú hafa ýmsir aðilar umsagnarrétt um ýmis mál. Sveitarstjórnir hafa t.d. umsagnarrétt um ýmislegt sem Alþingi leggur til. Hagsmunaaðilar hafa einnig umsagnarrétt um tilllögur og lagabreytingar sem snúa að þeim. Nú finn ég litlar skilgreiningar um umsögn um lagafrumvarp, umsagnaraðila og umsagnarrétt. Hins vegar fann ég á vef Innanríkisráðuneytisins Óskað umsagnar um drög að lagafrumvarpi um fullnustu refsinga. Neðst á síðunni er Word skjal með drögunum sem og greinargerð með þeim.

Ég verð að viðurkenna að mér finnst eðlilegt að sé einhverjum send tillaga til umsagnar þá eigi umsagnaraðilinn að fá allar upplýsingar sem tillagan byggir á.

Hins vegar velti ég því fyrir mér hvort fastanefnd geti verið umsagnaraðili um eitthvað sem frá sveitarstjórn kemur.
 Í samþykkt um stjórn sveitarfélagsins Þingeyjarsveitar segir:
V. KAFLI
Fastanefndir, ráð og stjórnir.
27. gr.

Kosning í fastanefndir og kjörtímabil.
Sveitarstjórn kýs fulltrúa í nefndir eftir því sem fyrir er mælt í lögum og samþykkt þessari. Slíkar nefndir teljast fastanefndir sveitarstjórnar.
Kjörtímabil fastanefnda er hið sama og sveitarstjórnar,

Fastanefndir eru fagnefndir sveitarfélagsins og sveitarstjórn vísar málum til þeirra, þ.e. fyrst fjallar nefndin um málið og hún sendir síðan tillögu til sveitarstjórnar, ekki öfugt.
Þá felst umsagnarrétturinn í því að hagsmunaaðilar komi sínum sjónarmiðum á framfæri og fræðslunefnd er svo sannarlega ekki hagsmunaaðili. Skólaráð er það hins vegar klárlega.
Í fastanefndir veljast fulltrúar framboðanna, hlutfallslega miðað við útkomu úr sveitarstjórnarkosningum. Nefndirnar eru pólitískt skipaðar, hreinar undirnefndir sveitarstjórnar. Núna er það t.d. varaoddviti sem vísar málinu til umsagnar fræðslunefndar, en svo skemmtilega vill til að hún er formaður nefndarinnar. Er eðlilegt að hún stýri umsagnarvinnunni líka?

Ég minni á að ég er ekki löglærð, ég er bara að pæla.



fimmtudagur, desember 11, 2014

Hugmynd

Í kosningabaráttu setur stjórnmálafólk fram alls konar loforð. Sumt fólk fer í pólitík af einhverjum öðrum hvötum en hugsjón og setja fram ótrúlegustu kosningaloforð til þess eins að komast til valda. Völd valdanna vegna. Almennir kjósendur geta lítið annað gert en vonað að stjórnmálafólk hafi hag heildarinnar að leiðarljósi þegar á reynir. Þess vegna er mjög nauðsynlegt að stjórnmálaöfl séu látin standa við sín kosningaloforð. Það getur vissulega orðið þrautin þyngri þegar hreinum meirihluta er ekki náð og framboð þurfa að sættast á málamiðlanir með öðrum framboðum. En þegar hreinum meirihluta er náð ætti það að vera hægur vandi að standa við kosningaloforðin sín.
Samstaða náði ekki bara hreinum meirihluta í Þingeyjarsveit, hún náði alveg yfirgnæfandi meirihluta.
Yfirgnæfandi meirihluta íbúa Þingeyjarsveitar leist betur á og studdi Samstöðu. Ég var ekki ein af þeim.  Það er þrennt í lífinu sem er alveg öruggt; skattarnir, dauðinn og Ásta styður ekki Samstöðu.
Þess vegna er það fullkomlega eðlilegt og rauninni hið eina rétta að Samstaða setji sína stefnu, það sem mikill meirihluta íbúa valdi og vildi, í framkvæmd.
Nú hefur Samstaða þegar gert sig seka um kosningaloforðasvik, hún lofaði íbúakosningu sem var blásin af. Í rauninni var þetta kosningaloforðalygi, loforðið stóðst ekki lög og Samstöðu var það ljóst fyrir kosningar en hélt því samt til streitu. Kjósendum mátti vera þetta ljóst en kusu Samstöðu engu að síður. Mér til mikillar furðu en það er eins og það er.  En Samstöðu er varla stætt á því að svíkja fleiri loforð.

Og hverju lofaði Samstaða?
Hún lofaði því að kanna hug íbúa á skólasvæði Þingeyjarskóla til starfsstöðva-sameiningar Þingeyjarskóla og sameina skólann væri meirihlutavilji til þess.
Hún lofaði einnig að ekki yrði hreyft við Stórutjarnaskóla á þessu kjörtímabili.
Ég skal viðurkenna að ég er orðin rosalega þreytt á því hvernig Stórutjarnaskóli er sí og æ dreginn inn í sameiningarmál Þingeyjarskóla. Þetta er svona álíka að vera á fótboltaleik og vera sífellt að skammast yfir leikmanni sem situr ekki einu sinni á varamannabekknum heldur á áhorfendabekkjunum af því hann var ekki settur á leikmannalistann.
Jú, jú, mér hefði alveg fundist eðlilegt að gerð hefði verið úttekt á Stórutjarnaskóla líka, en sjáið nú til; það var ekki á loforðaplaggi Samstöðu, framboðsins sem mikill meirihluti íbúa kaus af því að honum líkaði stefna hennar betur. Þá finnst mér óneitanlega skondið að þegar ég reyndi á sínum tíma að halda frammi stefnu Framtíðarlistans var mér bent á í föðurlegum umvöndunartón að meirihluti íbúa hefði hafnað listanum og mér bæri að taka tillit til þess.
En fyrst fólki er svona mikið í mun að bendla Stórutjarnaskóla og fjármálastjórnun hans við þetta mál þá vil ég benda á (eins og ég hef gert áður) að allar upplýsingar þar um liggja fyrir og alla vega hægt að fá einhverja hugmynd um stöðu skólanna. Ég hef líka sett saman mynd til hægðarauka. Minni á að því stærri sem skólinn er því hagkvæmari eining ætti hann að vera. Í nemendafjölda talið þ.e.a.s. ekki fermetrum.



 Nú er komið á daginn að mikill meirihluti íbúa á skólasvæði Þingeyjarskóla, eða 79%, vill að starfsstöðvarnar verði sameinaðar. Hvernig á að fara að því öðruvísi en að loka annarri er mér fyrirmunað að skilja. Enda hlýtur það að hafa legið ljóst fyrir frá upphafi. Komið hafa fram greinar sem segja það beinum orðum að Samstaða hafi löngu verið búin að ákveða að hafa sameinaðan skóla að Hafralæk. Virðist það hafa verið almenn vitneskja. Það var alla vega nokkuð grunsamlegt að á meðan Reykdælingar voru að berjast fyrir staðsetningu skólans þögðu Aðaldælingar þunnu hljóði. Ég verð því að viðurkenna að ég er nokkuð hissa á hvað þetta virðist hafa komið fólki á óvart.
Ég hef sagt áður og segi enn að ég skil röksemdafærsluna á bak við ákvörðunina. Ég hef alltaf talið félagslegan ávinning nemenda mikilvægastan og aukaatriði hvar skólinn sé staðsettur. Ég skil ekki hið gríðarlega mikilvægi sem sumir leggja á þéttbýliskjarnann á Laugum. Ég veit ekki betur en ég hafi lesið allar greinar sem birtar hafi verið og þótt mikilvægið sé áréttað reglulega þá er það aldrei útskýrt. Mér þætti vænt um að mér væri bent á þá grein eða hún skrifuð frekar en mér og fleirum sé brigslað um óvild eða heimsku.

Hins vegar langar mig að setja hér fram hugmynd:
Þar sem hagræðingarsjónarmið virðast ráða staðarvali þá fyndist mér heillaráð ef bæði húsin væru sett á sölu nú eftir áramót og athugað hvort möguleiki sé á sölu á öðru eða báðum. Ef annað húsnæðið selst þá er staðsetningin sjálfvalin og komið upp í viðhaldskostnað á því húsi. Ef bæði húsin seljast... Nú þá er við komin með fjármuni í nýja byggingu. Sem mér finnst að ætti að vera á Laugum því ég er alltaf svolítið skotin í heildstæðu menntasetri að Laugum.
Ef hvorugt selst þá verðum við bara að treysta dómgreind kjósenda sem kaus sér sveitarstjórn.

mánudagur, desember 08, 2014

Rökfræði

Af engri sérstakri ástæðu ætla ég núna að fara aðeins yfir rökfræði.
Ég hef átt samtal sem var einhvern veginn svona:

Ég (rosalega ljúf og indæl eins og ég er alltaf): Ég skil ekki það sem þér finnst en mig langar að skilja það. Viltu útskýra það fyrir mér?
Viðmælandi (verður reiður): Skilurðu það ekki! Þú ert nú ljóta fíflið! Lestu ekki blöðin?!
Ég (frekar sárt, viðkvæmt lítið blóm.) Jú, jú, en ég hef ekki séð þessar greinar sem útskýra þetta svona nákvæmlega...
Viðmælandi (hryssingslegur): Þetta er í öllum blöðum!

True story.

Þetta kalla ég ekki röksemdafærslu, þetta kalla ég rakalausan þvætting. 


Til eru á netinu nokkrar útskýringar á vondum röksemdafærslum. Hér má skoða myndskreytta útgáfu.
Ég ætla líka að þýða nokkrar.

Ad hominum: Þetta hefur skýrt hér á Íslandi á þann veg að fara í manninn en ekki boltann. Þetta er það sem vinur minn hér að ofan gerði. Réðst á mig og mitt gáfnafar af því að ég sá ekki það sem honum fannst augljóst. (Ég er að vísu bráðvel gefin og honum skjátlast. Bara svo það sé á hreinu.)


Vitna til hefða: Vegna þess að eitthvað hefur alltaf verið einhvern veginn þýðir það ekki að það sé rétt. Konur hafa verið undirskipaðar um aldir og eru enn. Still doesn‘t make it right.



Annað hvort eða: Ef þú ert ekki með okkur þá ertu á móti okkur. Oh, ef lífið væri svona einfalt.



Sönnunarbyrðin: Ef einhver heldur einhverju fram þá ber honum að rökstyðja/sanna fullyrðingu sína. Því miður reyna margir að láta „andstæðinginn“ afsanna fullyrðinguna. Það er heldur erfitt að afsanna eitthvað sem er ekki til. Þ.a.l. er mun eðlilegra að sá sem heldur því fram sanni fullyrðinguna.



Ég hvet fólk til að kynna sér þetta. Góð röksemdafærsla gerir allar rökræður betri og skemmtilegri,


föstudagur, desember 05, 2014

Ákvörðunin

Jæja, þá liggur loksins fyrir ákvörðun um sameiningu starfsstöðva Þingeyjarskóla. Fagna því allir góðir menn. 
Auðvitað eru sumir ánægðari en aðrir. Það lá alltaf ljóst fyrir.

Mér finnst ákvörðunin rökrétt og fagna bréfi meirihlutans sem ég hef vistað á öruggum stað því þegar kemur að sameiningu Þingeyjarskóla og Stórutjarnaskóla þá eiga öll þessi rök betur við Stórutjarnaskóla. Fagnar því enginn nema vond kona úti í sveit.
Að öllu gamni slepptu þá hentar Hafralækjarskóli betur því þótt viðhaldskostnaðurinn sé meiri en viðbygging við Litlulaugaskóla þá eru a) viðbyggingar alltaf leiðinlegar og óhentugar, b) það þarf hvort sem er að fara í þetta viðhald á Hafralækjarskóla. Undan því verður ekki komist nema með sölu. Eða jarðýtu og varla viljum við það.
Ég er ekki heldur jafn sannfærð um þetta gríðarlega mikilvægi Lauga . Ég hef rætt það áður og læt nægja að vísa til þess .
Hins vegar er ég algjörlega sammála því að Framhaldsskólinn sé mikilvægur sveitarfélaginu og mjög mikilvægt að hlúa að honum. Ég skil samt ekki af hverju börnin okkar verði að vera í grunnskóla við hliðina á honum til að vilja fara í hann? Og viljum við virkilega átthagafjötra börnin okkar? Er ekki eðlilegt að þau hafi val eins og önnur ungmenni? Framhaldsskólinn á Laugum hefur líka skapað sér sérstöðu á landsvísu og er spennandi valkostur fyrir mörg önnur ungmenni.

Þótt ég sé ánægð með þessa ákvörðun þá er eitt sem ég velti fyrir mér núna. Ég hélt að þrír fulltrúar væru vanhæfir og þrír fulltrúar viku sæti við afgreiðslu. Einn af þeim var hins vegar ekki einn af þeim sem ég hélt. Ég hafði ekki áttað mig á að annar maður Sveitunga væri vanhæfur. Fyrsti maður Sveitunga er kvæntur kennara í skólanum og er þ.a.l. vanhæfur.  Hann vék hins vegar ekki sæti. Það hefur ekki þýðingu varðandi úrslitin en rétt á að vera rétt. Eiginkonan er reyndar með tímabundna ráðningu og sennilega hefur það skipt sköpum.
En þarna áttaði ég mig á einu: Það sitja sjö fulltrúar í sveitarstjórn, af þeim tengjast fjórir skólanum, þ.e. meirihluti fulltrúa í sveitarstjórn. Nú víkja þeir sæti við afgreiðslu máls en þetta er samt fólkið sem er að stjórna þessu máli.* Þótt hver sveitarstjórnarmaður sé ekki bundinn af neinu nema sinni eigin sannfæringu þá eru það samt aðalmennirnir sem leggja línurnar, við þurfum ekki að vera með einhvern þykjustuleik varðandi það.
Að meirihluti fulltrúa í sveitarstjórn tengist inn í skólann finnst mér ekki rétt gott.

*Sumir hafa setið sem fastast á fundum sem leiddu til þessa fundar og tillögu.

fimmtudagur, desember 04, 2014

Allt leyfilegt í ást og stríði

Það er mjög vont að búa við óvissu. Það er mjög vont að missa vinnuna sína. Ég veit það, ég hef reynt það á eigin skinni.
Það er líka mjög vont þegar óvissuástandið fær að krauma og malla árum saman. Svona eins og grautur sem er búið að sjóða en stendur síðan á heitri hellunni. Hann verður þykkur, hann verður vondur og brennur á endanum við.
Svona ástand er búið að vara í Þingeyjarsveit árum saman. Skólasameining hefur legið í loftinu, það verður sameinað en hversu margir skólar, hvernig,  það kemur ljós ... einhvern tíma seinna... seinna... seinna. Á meðan varir óvissan og nagar.
Á þessu ástandi ber enginn ábyrgð nema sveitarstjórn Þingeyjarsveitar. Það er sveitarstjórnin sem hefur tafsað, hikstað og dregið lappirnar. Af því hún stendur virkilega í þeirri meiningu að það sé hægt að þóknast öllum. Það er ekki hægt. Hefur aldrei verið. Verður aldrei.
Ég skil mjög vel að því fólki sem þarf að búa við þessa óvissu líði illa. Ég skil líka að það vilji gera allt sem í sínu valdi stendur til að vernda vinnu sína og aðstæður.
Þetta skil ég allt.
En að geta hugsað sér að vega gróflega að starfsheiðri fólks sem hefur ekkert gert annað en að vinna það verk sem það var beðið um, það skil ég ekki.
Ályktun frá kennarafundi Litlulaugadeildar Þingeyjarskóla syrgir mig. Þar er vegið að starfsheiðri tveggja manna, annars vegar Ingvars Sigurgeirssonar og hins vegar Haraldar Líndals Haraldssonar. Í ályktuninni segir:
Kennurum við Litlulaugadeild Þingeyjarskóla finnst þau vinnubrögð Ingvars Sigurgeirssonar við skýrslugerð sína að senda starfsmönnum drögin til yfirlestrar áður en hún var fullkláruð til fyrirmyndar, þó svo að okkur finnist vanta upp á faglegu hliðina sem hann átti að skoða í henni. Okkur finnst hinsvegar skýrsla Haraldar Líndal Haraldssonar illa unnin, þar sem ekki var nóg gert með þær athugasemdir sem gerðar voru að hálfu skólastjóra við yfirlestur, og því er hún full af staðreyndavillum. Einnig finnst okkur kennurum við Litlulaugadeild að okkur vegið í skýrslu Haraldar þar sem ýjað er að því að menn skammti sér hér yfirvinnu eftir hentugleikum. Þar sem þessar skýrslur eru nú orðnar heimildir um skólahald er það verulega bagalegt að ekki skuli farið rétt með staðreyndir. (Undirstrikanir mínar.)
Síðan var þessum ásökunum slegið upp í staðarmiðlinum með vægast sagt villandi fyrirsögn.
Ingvar Sigurgeirsson  er prófessor við kennaradeild Háskóla Íslands og okkar helsti skólamálafrömuður. En gagnrýnin á hann er hjóm eitt miðað við ásakanirnar sem beint er að Haraldi.
Haraldur L. Haraldsson er reyndur sveitarstjórnarmaður og hagfræðingur og hefur tekið út á annað hundrað grunnskóla. Allt sem stendur í skýrslunni byggir hann á upplýsingum frá skrifstofu sveitarfélagsins og stjórnendum skólans. Sé eitthvað rangt í skýrslunni þá hafa þessir aðilar veitt rangar upplýsingar. Fyrir utan eina óverulega athugasemd telur hann sig hafa tekið tillit til allra athugasemda sem bárust tímanlega.
Að þessu hefðu kennarar Litlulaugadeildar getað komist með einum tölvupósti. Þá hefði mér fundist mun betra ef staðarmiðillinn hefði borið þessar ásakanir undir mennina og leyft þeim að svara fyrir þær frekar en að slá þessu upp í æsifréttastíl.

miðvikudagur, desember 03, 2014

Drama, maður, drama

Dregur nú til tíðinda, boðaður aukafundur í sveitarstjórn þar sem ekkert er á dagskrá annað en ákvörðun um framtíðarskipulag Þingeyjarskóla. Íbúar ætla að fjölmenna. Dálítið leikræn tilþrif, svona...
Skömminni skárra samt en lauma því undir liðinn Fundargerð fræðslunefndar eins og þau gerðu með upphaflegu sameininguna.
Bara svona af því að mér er svo mikið í mun að hlutirnir fari rétt og propper fram þá langar mig að minna á 20. grein sveitarstjórnarlaga en þar segir m.a.:
Í öðrum tilvikum en skv. 1. mgr. ber sveitarstjórnarmanni, nefndarfulltrúa eða starfsmanni sveitarfélags að víkja sæti við meðferð og afgreiðslu máls þegar það varðar hann eða nána venslamenn hans svo sérstaklega að almennt má ætla að viljaafstaða hans mótist að einhverju leyti þar af. Þessi regla tekur einnig til gerðar samninga fyrir hönd sveitarfélags.
Það er alveg á tæru að einn fulltrúi er vanhæfur og ég tel fyllstu ástæðu til að ætla að tveir aðrir séu það líka.
Ég hef skrifað um þetta áður, sjá hér.
Þá er hér úrskurður í nokkuð svipuðu máli.
Druslist nú til að gera þetta rétt svo það sé hægt að ljúka þessari endaleysu.




mánudagur, desember 01, 2014

Öll fallegu orðin

Íbúalýðræði er falleg hugmynd. Sérstaklega í kosningabaráttu. Það er mjög smart að hafa íbúalýðræði í loforðaplagginu sínu.  Það er líka mjög smart að tala um að hafa lýðræði að leiðarljósi í störfum sínum. Hins vegar er svo auðvelt að gleyma fögru fyrirheitunum sínum. Eða túlka þau upp á nýtt. Eða skipta um skoðun...


Samstaða, blessunin, lofaði auknu íbúalýðræði í kosningaplagginu sínu. Íbúalýðræðið var að vísu íbúamismunun sem stóðst ekki lög svo það var breytt í skoðanakönnun sem stenst væntanlega ekki heldur skoðun nenni einhver að leggja sig eftir því.
Reyndar hafa fulltrúar, sveitarstjóri sem á að heita ópólitískur (en á samt umboð sitt algjörlega undir velþóknun meirihlutans) og oddviti skrifað opin bréf til íbúa. Bréfin hafa verið birt á heimasíðu Þingeyjarsveitar og í Hlaupastelpunni en ég hjó eftir því að ritstjóri 641.is en það er mest lesni staðarmiðillinn virðist hafa þurft að taka bréfin upp sjálfur til birtingar. Hlaupastelpan er alveg jafn mikið einkaframtak og 641.is svo þetta kemur mér á óvart.
Þá hafa sveitarstjórnarfulltrúar verið með viðtalstíma og er það vel. (Og borgað aukalega auðvitað líka.) 

Hins vegar eru ákveðnir hlutir.
Fyrir kosningar var sagt um íbúakosninguna:

Sveitarstjórn skal fyrir þessar kosningar kynna íbúum með ítarlegum hætti hvað hvor kostur um sig hefur í för með sér, fjárhagslega, faglega og félagslega sem og hugmyndir um mótvægisaðgerðir við þeirri röskun sem niðurstaða kosninganna gæti haft í för með sér.


Það voru keyptar þrjár skýrslur. Ég las þær og jú, þar er tæpt á félagslegum afleiðingum en ekki ítarlega. Þá get ég nú ekki sagt að fjallað hafi verið um neinar mótvægisaðgerðir. (Eitt af fallegu orðunum.)
Ég mætti ekki á íbúafundinn sem haldinn var í kjölfarið en mér skilst að skýrslurnar þrjár hafi verið aðalumtalsefnið og ekkert mikið umfram þær. Mótvægisaðgerðir eru samt eitthvað sem sveitarstjórnin ætti að hafa á sinni könnu.

Hins vegar hafa íbúar tekið við sér í íbúalýðræðinu og eru sumir farnir að skrifa greinar. Þær eru misgóðar,  ekki allir með á hreinu hver hinn raunverulegi andstæðingur er en þetta er allt að slípast til.
Fyrir helgina gerðist t.d. tvennt sem mér þykir alveg afburðagott:
Íbúar mættu fyrir framan Kjarna og höfðu í frammi friðsamleg mótmæli á meðan á sveitarstjórnarfundi stóð.
Hins vegar skrifaði ritstjóri 641.is vandaðan og yfirvegaðan leiðara á síðuna.
Meirihluti sveitarstjórnar Þingeyjarsveitar hefur hins vegar ekki séð neina ástæðu til að bregðast við þeirri umræðu sem átt hefur sér stað né þeirri óánægju sem kemur fram í henni. (Sum ágætlega æfð samt.)
Kannski hefur það verið gert í viðtalstímum en svona maður á mann samtal er ekki það sama.
Þá þykir mér afar leitt að sjá að enginn fulltrúi hins lýðræðiselskandi meirihluta skuli hafa séð ástæðu til að heilsa upp á fólkið sem var samankomið fyrir framan Kjarna síðastliðinn fimmtudag. Einhverjum verr innréttuðum en mér gæti dottið í hug að fallegu orðin væru gleymd. Alla vega fram að næstu kosningum.


Að endingu legg ég til að tekið verði til í fjármálum Þingeyjarskóla. (Ég trúi hagfræðingnum.)

föstudagur, nóvember 28, 2014

Raunveruleikinn og túlkun hans

Sannleikurinn er afstæður og raunveruleikinn túlkunaratriði. Þessi eini, heilagi og óbreytanlegi sannleikur er ekki til. Það sökkar, ég veit. 
Miðað við greinaskrif og staðbundnar fréttir þá hefði mátt ætla að Reykdælingar væru um það bil að fara á dýnurnar vegna skólamála. Nema hvað, í gær gerðist tvennt;
Birt var niðurstaða úr könnun Félagsvísindastofnunar og boðuð var samstöðustaða við Kjarna.

Staðarmiðill Reykdælinga slær upp í fyrirsögn að 72% íbúa vilji að Þingeyjarskóli verði í einni starfsstöð. Þetta er skemmtilegt vegna þess að ,,sumir" vildu helst ekki að íbúar á skólasvæði Stórutjarnaskóla tækju þátt í könnuninni, þeim kæmi þetta almennt og yfirleitt ekkert við. Hins vegar draga þeir íbúar þessa tölu niður. Ef aðeins er skoðað skólasvæði Þingeyjarskóla, mikilvægari skoðanirnar, þá kemur í ljós að 79% vilja sameiningu.

Í gær var líka boðaður samstöðufundur. Mjög virðingarvert framtak sem beinir athyglinni þangað sem
hún á heima, fólkinu sem raunverulega ræður.
Hins vegar heyrist ekkert frá fundinum. Þögnin er ærandi. Með rökleiðslu a la Ari Teits* get ég ekki komist að annarri niðurstöðu en þeirri að illa hafi verið mætt.

Þetta leiðir mig að ákveðinni niðurstöðu:
Auðvitað átta Reykdælingar sig á því að það er líklegt að skólinn fari frá Laugum. Það var nú alveg búið að ræða fyrirfram ákvarðanir og baktjaldamakk fyrir skoðanakönnun. Samt er svona mikill meirihluti fyrir sameiningu.** Enda er það eina skynsama niðurstaðan og sú sem er fyrst og fremst best fyrir nemendurna. 
Að mér læðist sá lúmski grunur að hinir háværu mótmælendur tali ekki fyrir meirihluta Reykdælinga.

Þetta er ágæt niðurstaða að öðru leyti. En á í alvöru að leyfa rekstrinum að vera óbreyttum í allan vetur? Á ekkert að taka á þessum lausatökum í fjármálunum?

Update 12:51.
Staðarmiðillinn segir að 50 manns hafi mætt.  Ég er nú bara ánægð með Reykdælingana.


*Sem er vond rökleiðsla. Ég bara stenst ekki mátið.
**Jafnvel þótt allir Aðaldælingar hafi sagt já og allir Reykdælingar nei þá væri hlutfallið ekki svona hátt. Enda skiptir það engu. Við erum öll í sama liðinu.

fimmtudagur, nóvember 27, 2014

Barátta kynjanna



Mér leiðist þessi auglýsing. Ég hef ekki almennilega áttað mig á hvað það er en held ég hafi áttað mig á því í gær.  Þá lásum við þennan kafla í Sölku Völku:




Núna erum við strangt til tekið ekki að tala um kynjabaráttuna sem slíka, þ.e. að konur verði metnar til jafns við karla á samfélagslegum vettvangi. Nei, það er þessi barátta innan sambanda, þessi hugmynd að ástarsambönd séu valdabarátta. Stöðug samkeppni um að vera klárari og fullkomnari. Að láta ekki hanka sig. T.d. á því að hafa gleymt að borga barnfóstrunni.
Við tölum iðulega um ástina á þessum nótum; að hún sé e.k. eltingarleikur, að annar aðilinn sé sigraður o.s.frv. Þá virðumst við alveg sannfærð um að annar aðilinn hljóti að vera ,,ráðandi" í sambandinu. Það er t.d. mjög niðurlægjandi fyrir karlmann ef konan er álitin ráðandi aðilinn.
Hins vegar finnst mér þetta mjög leiðinleg orðræða. Þetta er ekki mín upplifun af ástinni og vonandi sem fæstra. Auðvitað er til fólk sem hefur gaman að dramatík og ef það vill hafa hana inni á gafli heima hjá sér alltaf þá er það allt í lagi mín vegna.
Ég hins vegar lít á heimili mitt sem griðastað þar sem mér og mínum líður vel. Og ástin nærir mig og veitir mér vellíðan en ekki vansæld.




þriðjudagur, nóvember 25, 2014

Hlutverk minnihluta

Þegar stjórnin ,,mín" sat þá vildi ég að þingmenn ynnu meira saman og mitt fólk fengi vinnufrið til góðra verka. Núna vill Sigmundur Davíð að stjórnarandstaðan sé elskulegri við sig. Mér finnst hann ekki eiga það skilið.
Svona skiptum við um skoðun eftir því hvoru megin borðsins við sitjum í það skiptið.

Stundum hefur verið rætt um það að þessi eilífi skotgrafahernaður sé ekki góður og fólk eigi að vinna saman.
Það er auðvitað voða sætt að öll dýrin í skóginum séu vinir. En ég er sammála Mikka ref hér, það er bull og vitleysa.

Að því sögðu tel ég ekki nauðsynlegt að meiri- og minnihluti þurfi alltaf að vera svarnir óvinir. Ég sé enga þörf á því að minnihlutinn sé alltaf á móti öllu sem meirihlutinn gerir. Hins vegar tel ég afar nauðsynlegt að minnihlutinn veiti meirihlutanum aðhald.
Það er nefnilega alveg sama hversu yndislega gott fólk er, hversu vammlaust og æðislegt, allt fólk er mannlegt. Vald er vandmeðfarið og hættulegt. Vald getur spillt og það getur blindað fólk.
Ég er alls ekki að segja að það sé óumflýjanlegt. En möguleikinn er til staðar og það eitt og sér nægir.

Þess vegna vil ég miklu frekar að minni- og meirihlutar séu upp á kant heldur en þeir séu best buddies.


sunnudagur, nóvember 23, 2014

Bara... vá...

Það er fjallað um svörtu skýrsluna í Fréttablaðinu núna um helgina.




Oddvitinn segir að: ,,Skýrslan sýni ákveðna óhagkvæmni." Já... Hver er íslenska þýðingin á "understatement"? Því þetta er understatement of the year.



And why not? Nobody
gives a damn, obviously.

Það er svo langt síðan að skólastjórinn las skýrsluna að hann er bara alveg búinn að gleyma hvað stendur í henni. Já, þetta er svo ómerkilegur snepill hvort sem er og ekkert mark á honum takandi. Svo rekum við skólann auðvitað með nákvæmlega sama hætti í allan vetur.

Einu viðbrögðin sem ég hef séð snúast um að myndin sem fylgir sé af Framhaldsskólanum. Það er skrítið en það stendur undir myndinni að þetta sé framhaldsskólinn. Gott að vera með forgangsröðina á hreinu.

Já, og núna er reksturinn á ,,hinum" skólanum ekki bara svipaður heldur ,,heldur verri."* Það er nefnilega svo miklu betra að fjármálastjórnunin sé alls staðar í molum.

Jafnvel þótt ósannað sé.


Ég veit hreinlega ekki hvort ég á að gráta eða hágráta.

*Fyrir þeirri fullyrðingu eru þó ekki færð nein rök.

fimmtudagur, nóvember 20, 2014

Ég biðst afsökunar

Við búum í samfélagi. Forfeður okkar og –mæður komust að því einhvern tíma í fyrndinni að það væri illskárra að samþykkja einhvers konar reglur sem hefðu í för með sér vonandi meiri ávinning en fórnirnar sem þyrfti að færa. Hefur þetta oft verið nefnt samfélagssáttmálinn.
Við færum e.k. yfirstjórn í hendur ákveðið vald yfir okkur og borgum einnig til þessarar yfirstjórnar í formi skatta s.s. útsvars. Við treystum þessari yfirstjórn til þess að nýta þessa fjármuni á sem skynsamlegastan hátt.
Því miður hefur það reynst mörgum erfitt að kunna sér hóf þegar þeir komast í sameiginlega sjóði. Einhverra hluta vegna virðast þeir halda að þetta séu eigendalausir fjármunir sem ofgnótt sé af. Því fer fjarri; þetta eru peningar okkar allra sem á að nýta til góðra hluta. M.a. til að jafna lífsgæði.
Það er því eðlileg krafa að þeir sem umsjón hafa með sameiginlegum sjóðum okkar geri það af virðingu og sýni ábyrgð.

Nýverið birtist á vef Þingeyjarsveitar skýrsla unnin af hagfræðingnum Haraldi L. Haraldssyni um rekstur og framtíðarskipulag Þingeyjarskóla. Það er varla hægt að segja annað en að skýrslan sé svört. Fjármálastjórn skólans, ef stjórn skyldi kalla, er í molum.
Það væri of langt mál að rifja upp öll ósköpin en miðað við hvað þessi skýrsla er lítið í umræðunni er eins og fólk átti sig ekki á þeim upplýsingum sem þar koma fram.
Í staðinn fyrir að koma með tilvísanir hér í skýrsluna hef ég farið með yfirstrikun í það sem mér þykir merkilegt og sett við athugasemdir. Hægt að sjá hér.

Á þessari meðferð fjármuna hlýtur einhver að bera ábyrgð.
Núna væri ósköp einfalt og þægilegt að benda á skólastjórann og segja að ábyrgðin sé öll hans. Í grunnskólalögum segir:
7. gr. Skólastjóri.
Við grunnskóla skal vera skólastjóri sem er forstöðumaður grunnskóla, stjórnar honum, veitir faglega forustu og ber ábyrgð á starfi skólans gagnvart sveitarstjórn.
Ég finn svo sem enga beina tilvísun um ábyrgð stjórnenda hjá sveitarfélögum en ætla mætti að viðlíka reglur og um stjórnendur ríkisfyrirtækja giltu.
Ábyrgð stjórnenda. Stjórnendur þurfa að vera vel upplýstir um mikilvægi fjármálastjórnunar, enda er á ábyrgð þeirra að halda fjármálum innan marka heimilda. Hvetja þarf til þess að gerð fjárhagsáætlana og eftirfylgni með þeim sé vönduð og tryggja að stjórnendur axli ábyrgð á fjármálum.
Hins vegar er lífinu iðulega þannig farið að þótt það geti verið einfalt og sé á stundum þægilegt þá er það yfirleitt ekki bæði.
Skólastjórinn hefur nefnilega yfirmenn. Yfirmenn sem ber að líta eftir og bera ábyrgð á því sem undirmenn þeirra gera.
Fjárhagsáætlanir grunnskóla fara yfirleitt þannig fram að skólastjóri setur fram áætlun og leggur fyrir fræðslunefnd/skólanefnd. Síðan fer áætlunin inn á borð sveitarstjórnar sem samþykkir hana. Þingeyjarskóli var t.d. innan áætlunar í maí síðastliðnum.

Þá kemur fram í skýrslu HLH að:
Að sögn skólastjóra hefur hann lítið komið að fjárhagsáætlunargerð frá sameiningu skólanna. (bls. 2)
Hver er það þá sem býr til áætlunina? Í skýrslunni í beinu framhaldi að ofan segir:
Fjárhagsáætlunin hefur aðallega verið unnin af starfsmanni á skrifstofu. Nokkuð er um að áætlunin sé unnin þannig að áætlun líðandi árs er uppfærð. Að sögn fær skólastjóri áætlunina til að fara yfir með mjög stuttum fyrirvara og litlum upplýsingum. Það er skoðun skólastjóra að betur færi á að hann, ásamt starfsmanni ynni áætlunina saman fyrir skólann, en til þess þyrfti meiri tíma en skólastjóri hefur fengið til að yfirfara áætlunina.
Það er sem sagt einhver embættismaður á skrifstofu Þingeyjarsveitar sem ber ábyrgðina! Nei, það er ekki þannig. Að sjálfsögðu er það sveitarstjórnin sem ber ábyrgð á meðferð fjármuna.
Þar sem ég sat í sveitarstjórn á þessum tíma varð ég verulega miður mín þegar ég las skýrsluna. Mér þykir ákaflega leitt að þurfa að viðurkenna að ég áttaði mig ekki á að peningastreymið væri með þessum hætti.
Ég sá vissulega í ársreikningi að talsvert var farið fram úr (ég hélt ekki sérstaklega upp á þessi gögn eftir að setu minni lauk) en sú skýring var gefin að vegna mikilla veikinda hefði þurft mikla forfallakennslu. Auðvitað bar mér skylda til sem sveitarstjórnarfulltrúi að spyrjast fyrir um hverju þessu sætti. Og mig langar að halda til haga, mér til varnar af veikum mætti, að ég reyndi að spyrna við fótum þegar lagt var til að allir kennarar fengju eins tíma kennsluafslátt. Þeir fengu hann ekki en skólinn fékk fjármunina samt.

En það breytir ekki neinu. Ég brást skyldum mínum sem sveitarstjórnarfulltrúi í þessu máli og ég bið íbúa Þingeyjarsveitar afsökunar á því.

þriðjudagur, nóvember 18, 2014

Að mismuna börnum

Um daginn var skoðanakönnun í sveitarfélaginu Þingeyjarsveit. Fyrst átti að vera íbúakosning sem hluti íbúa átti að taka þátt. Það var að sjálfsögðu ólöglegt. Þá var haldin skoðanakönnun og tekið fram sérstaklega að skoðanir íbúa á skólasvæði Þingeyjarskóla skiptu meira máli en skoðanir íbúa á skólasvæði Stórutjarnaskóla.
Þetta er fúlt en við erum fullorðið fólk.

Nú berast af því fregnir að nemendur unglingadeilda Þingeyjarskóla hafi fengið mini-ipada í hendur. Ég óska þeim til hamingju með það.
En það eru tveir skólar í Þingeyjarsveit. Þegar Reykjanesbær ákvað að ipad-væða unglingana sína gerðu þeir það í öllum skólunum sínum.
Ég veit ekki hvað nemendur unglingadeildar Stórutjarnaskóla eru margir. Sennilega í kringum 10. Kannski vildu kennarar ekki ipad-væðast, ég veit það ekki. Kannski sýndi engin/n frumkvæði. Ég veit það ekki heldur.
En ég er með óbragð í munninum. Mér finnst þetta ljótt.

þriðjudagur, nóvember 11, 2014

Ekkert ótrúlegt við könnunina

Í gær hringdi ungt fólk á vegum Félagsvísindastofnunar í íbúa Þingeyjarsveitar og lagði fyrir þá fjórar spurningar.
Staðarmiðillinn okkar brást ókvæða við og birti undir miðnætti fréttina; Ótrúleg könnun.
Fyrst er nefnt að fólk hafi verið spurt að því hvort það byggi á skólasvæði Þingeyjarskóla. Helst er gagnrýnt að spurning 2 hafi aðeins snúist um hvort starfrækja ætti Þingeyjarskóla á einni eða tveimur starfsstöðvum en ekki hvar sú starfsstöð ætti að vera.
Þá er gagnrýnt að svo litlu hafi munað á spurningunum tveimur um ljósleiðarann að það hafi engu breytt.
Beinist þessi gagnrýni fyrst og fremst að vinnubrögðum Félagsvísindastofnunar.

1. Það er grundvallaratriði í svona skoðanakönnunum að þær séu ópersónugreinanlegar. Þar sem búið var að gefa það út að skoðanir sumra giltu meira en skoðanir annarra þá var þetta það fyrsta sem ég spurði unga manninn um. Ef könnunin hefði verið persónugreinanleg þá hefði ég sent kæru til Persónuverndar. En hún er ekki persónugreinanleg. Eina leiðin til að komast að því hvort viðmælandi búi á skólasvæði Þingeyjarskóla er að spyrja að því. Ef íbúum á skólasvæði Þingeyjarskóla hefur fjölgað óeðlilega mikið þá kemur það í ljós.
Mín persónulega skoðun er og hefur alltaf verið sú að þessi mismunun á milli búsetusvæða sé óeðlileg.

2. Það hefur aldrei staðið til að spyrja um álit á því hvar starfsstöðin eina eigi að vera. Aldrei nokkurn tíma. Í kosningaloforðaplaggi Samstöðu fyrir kosningar í vor stóð:
Þar verði kosið um hvort starfrækja skuli grunnskólastigið áfram á tveimur starfsstöðvum eða sameina það á einn stað. Íbúakosning þessi verði bindandi en sveitarstjórn taki að henni lokinni ákvörðun í samræmi við niðurstöður hennar. Starfsemi Þingeyjarskóla verði samkvæmt
þeirri niðurstöðu frá haustinu 2015. (Feitletrun mín.)

Að ráðast að starfsheiðri Félagsvísindastofnunar þykir mér með ólíkindum. Ég hringdi í stofnunina og spurði að því hvernig að könnunum almennt væri staðið. (Og uppfræddi viðmælanda um þá gagnrýni sem komið hefur fram.)
 Ferlið er svona:
Verkkaupi setur fram beiðni um það sem hann vill láta kanna, hvar skoðanir ákveðins markhóps liggja. Hann setur fram spurningarnar sem eru skoðaðar hjá Félagsvísindastofnun og kannski aðlagaðar að einhverju leyti svo hægt sé að komast sem best að því sem er verið að reyna að komast að. Verkkaupinn samþykkir aðferðafræðina.

Sé eitthvað athugavert við könnunina er ekki við Félagsvísindastofnun að sakast.
Árið 2010 var keypt skýrsla af Félagsvísindastofnun. Skýrslan var unnin í samráði við skýrslubeiðendur og þeirra forsendur hafðar að leiðarljósi. Fulltrúi skýrslubeiðenda leyfði sér svo að segja opinberlega  að skýrslan væri ekki skeinipappírsins virði.

Þetta er óboðlegur málflutningur. Gagnrýnum endilega. En beinum gagnrýninni á réttan stað.

Aðventuhugvekja um hrúta

Aðventuhugvekja um hrúta

,,Vertu ekki með þessa vitleysu, elskan mín. Þú hlýtur að sjá að þú
hefðir átt að skrifa þessa grein þína út frá mínum forsendum. En það er
náttúrulega ekki við öðru að búast hjá svona öfgasinnum sem hugsa of
mikið innan rammans.´´


 

mánudagur, nóvember 10, 2014

Hernaðarlist 101



Það er ekki á íslenska konukind logið að ætla sér að kenna fólki að heyja stríð en það er nákvæmlega það sem ég ætla að gera núna. Það er borgarastyrjöld í Þingeyjarsveit og skeytin fljúga á milli. Baráttuaðferðir talsmanna Reykdælinga eru ekki nógu markvissar að mínu mati og vil ég gjarna að þeir bæti þar úr. Ég vona að vinir mínir á Laugum taki ábendingum mínum ekki mjög illa.

Það eru nokkur grundvallaratrið sem þarf að hafa í huga áður en lagt er af stað í hernað.
Sun Tzu sagði:

知彼知己,百戰不殆;不知彼而知己,一勝一負;不知彼,不知己,每戰必殆

Sennilega þekktara á ensku; Know thy enemy, know thyself. Þekktu óvininn, þekktu sjálfa/n þig.
Og að berjast ekki á tveimur vígstöðvum í einu. Reynslumiklir marskálkar hafa farið flatt á því.

Þekktu óvininn.
Hver er óvinurinn? Eru það Aðaldælingar? Aðaldælingar eru í nákvæmlega sömu stöðu og þið. Hinn almenni Aðaldælingur hefur enga fullvissu fyrir því að „skólinn þeirra“ sé ekki á förum þrátt fyrir orðróm um baktjaldasamninga.
Er það Stórutjarnaskóli? Stórutjarnaskóli hefur ekkert af sér gert annað en að vera friðhelgur þetta kjörtímabil. Ákvað skólinn, starfsmenn hans eða skólasvæðið það? Nei.
Samstaða gaf þetta loforð í kosningunum. Hafa íbúakosningu um það hvort ætti að sameina Þingeyjarskóla á einum stað og að ekki verði hreyft við Stórutjarnaskóla. Samstaða vann yfirburðasigur sem ekki er hægt að skilja öðruvísi en að meirihlutavilji sé fyrir þessu fyrirkomulagi í sveitarfélaginu.
Íbúakosningin hefur nú breyst í skoðanakönnun en enn sem fyrr á að kanna hið sama: hvort vilji sé til að sameina skólann á einum stað. Það er ekki verið að spyrja eftir því hvar fólk vill að hann sé. Það er sveitarstjórnin sem ákveður staðsetninguna.
Það sveitarstjórnin sem þið verðið að sannfæra. Þið verðið að sýna valdhafanum og almenningsálitinu að það sé skynsamlegra að hafa skólann á Laugum. Það gerið þið ekki með því að berjast fyrir einhverju sem er ekki verið að berjast um núna. Það stendur ekki til að sameina alla skólana núna. Ekki eyða orkunni í tilgangslausa baráttu.


Þekktu sjálfa/n þig.
Hvað er það sem þið viljið? Þið viljið væntanlega sameinað, öflugt menntasetur á Laugum. Skil það vel. Það er lokatakmarkið. Til að komast þangað verðið þið að komast yfir hindrunina sem blasir við núna. Að ná Þingeyjarskóla á Laugar. Það er eina verkefnið sem blasir við núna. Þið vinnið ekki stríðið ef þið tapið þessari orrustu.

Sá möguleiki er auðvitað til staðar að hafa óbreytt ástand en skv. skýrslu Skólastofunnar er ekki mikill vilji til þess.
Kannski viljið þið eitthvað annað, ég veit það ekki. Verið bara viss um að þið vitið hvað þið viljið.

Ekki berjast á tveimur vígstöðvum.
Það væri nú að bera í bakkafullan lækinn að tala um að skólinn sé nærsamfélaginu dýrmætur. Þið eruð að keppa við Aðaldælinga núna um skólann. Skólinn er þeim alveg jafn dýrmætur og ykkur. Skóli Fnjóskdælinga er þeim líka dýrmætur. Til hvers í ósköpunum að egna þá til ófriðar? Og fyrir hvað? Eitthvað sem stendur ekki til? Eitthvað sem er ekki verið að berjast um núna? Þetta er afskaplega óskynsamlegt og dreifir bara baráttuþrekinu.
Napóleon og Hitler flöskuðu báðir á þessu. Réðust inn í Rússland á sama tíma og þeir voru að berjast annars staðar. Þið megið alveg líta á skólasvæði Stórutjarnaskóla sem steppur Rússlands. Eða Mordor. Hlutverk Saurons er jú löngu skipað. Þetta vígi verður ekki unnið bara svona hinsegin.
Einbeitið ykkur að því sem við er að etja nákvæmlega núna.






Færsla Lögreglunnar á Norðurlandi eystra

Það mun mér hæfara fólk fjalla um þessa færslu Lögreglunnar á Norðurlandi eystra en það eru nokkrir hlutir í þessu sem mig sem almennur áhor...